Salt, sót, nagladekk og götuþvottur.

Enn á ný mælist svifryk yfir hættumörkum í höfuðborginni. Ýmsar ástæður eru gefnar fyrir þessum ófögnuði, svo sem nagladekk, sót, salt og önnur óhreinindi sem liggja á götum borgarinnar. Patentlausn á vandamálinu er að senda alla í strætó, eða láta fólk hjóla í og úr vinnu. Einfalt, ekki satt? Sé ekki alveg fyrir mér að þvælast ofan úr Mosó út í Hafnarfjörð í fimm stiga frosti klukkan hálfsjö að morgni, eða eyða tveimur tímum með Strætó í vinnuna sem að öllu jöfnu tekur fimmtán til tuttugu mínútur, að meðtalinni keyrslu krakkanna í framhaldsskóla víðsvegar um borgina.

Eitt er það sem hins vegar er nánast aldrei rætt til lagfæringar á þessu ástandi. Það er GÖTUÞVOTTUR. Víða erlendis þar sem háttar svipað til og hér, þar sem salt virðist eina lausnin til eyðingar á hálku, eru götur reglulega skolaðar með öflugum dælubílum. Hér liggur sami ófögnuðurinn dögum og jafnvel vikum saman í rennusteininum og því jafnvel verið að mæla sömu fjárans agnirnar trekk í trekk. Ef vel er að gáð, má sjá í velflestum rennusteinum og meðfram gangstéttarbrúnum uppsafnaða hauga af salti, sóti, sandi og öðru sem til fellur á götur. Ef þessu  væri reglulega skolað burt þegar þurrt er, er ég nokkuð viss um að ástandið myndi lagast talsvert, þó að sjálfsögðu sé tæpast hægt að koma alveg í veg fyrir þetta.  


mbl.is Svifryksmengun fór yfir heilsuverndarmörk í höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árás á Íran - Næsta góðverk BNA?

Það er ekki skrýtið að Putin og Lavrov hafi áhyggjur af þessari umræðu um hugsanlegar árásir á Íran. Öll heimsbyggðin ætti að óttast þessa umræðu, því svipuð rök hafa áður verið notuð af BNA fyrir ekki svo löngu síðan, til að réttlæta innrásina í Írak. Ekki enn séð fyrir endann á þeim hildarleik og verður ekki í bráð. Þó forseti Íran fari mikinn í allri sinni framgöngu og helli úr sér yfir Ísrael og aðrar þjóðir með ýmiskonar svívirðingum og munnsöfnuði, sem varla sæmir þjóðhöfðingja, er ekki þar með sagt að komið sé veiðileyfi á Íran og óhætt að hefja árásir. Í Íran búa milli 70 og 80 milljónir íbúa og þar í landi er lífið annað og meira en bara svartklæddar konur, öfgafullir klerkar eða mótmælendur vestrænna gilda. Það er hins vegar sú mynd sem kemur upp í hugann hjá mörgum og þarf svosem engan að undra. Fréttaflutningur sá sem okkur stendur til boða af þessu svæði og því sem þar gerist kemur jú að stórum hluta frá BNA, en þeir eiga eins og flestir vita, í beinu stríði á þessu svæði. Hlutlaus fréttaflutningur er því varla til, en því miður étur hver  evrópska fréttastofan vitleysuna eftir kananum og matreiðir ofan í okkur. Íslenskir miðlar eru þar heldur engin undantekning. Þægilegari "fréttamennska" getur tæpast verið til. Bara "copy" og "paste", smá þýðingar inn á milli og síðan óhætt að dæla öllu saman út á öldur ljósvakans. Ekki einu sinni haft fyrir því að skoða málin eða kryfja til mergjar. Úr öllu saman verður síðan einn allsherjar hræðsluáróður, sem stjórnvöld í BNA taka síðan að sér að kveða niður með vopnavaldi. "Sjálfskipaðir kyndilberar frelsis og manngæsku", svo fremi það séu einhver verðmæti í spilinu eins olía eða annað "smálegt". Hver ætli hagnist síðan mest á öllu saman í fjárhagslegu tilliti? Getur verið að það séu vopnaframleiðendur í BNA? Eiga þeir stóra hluti í þarlendum fjölmiðlum sem endalaust dæla út einsleitum fréttum frá þjóð í stríði.? Getur verið að þeir séu öflugir bakhjarlar í kosningasjóðum frambjóðenda? Jafnvel núverandi forseta BNA? Ekki gott að segja, en það væri mikill fengur, fréttaþyrstum manni, að sjá meiri metnað lagðan í umfjöllun af heimsmálunum en nú er gert. Þetta er ekki bara svar/hvítt og "copy-paste" og smæla framan í myndavélina.           


mbl.is Pútín og Lavrov lýsa áhyggjum af umræðu um árásir á Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bændaklámvarnir"

Jæja, þá er búið að ganga milli bols og höfuðs klámhundanna sem héldu að þeir gætu vaðið hér uppi berrassaðir eða þaðan af verra og skelft landann með alls kyns viðbjóði og óþverra. Farið hefur fé betra, en reyndar fór enginn neitt, því það kom jú enginn neitt, eða þannig. Umræðan hefur verið fjörleg og sitt sýnst hverjum. Hver um annan þveran keppast menn síðan um að eigna sér heiðurinn af því að hafa hindrað komu þessarar óværu til landsins, eða mæra þá sem fremst fóru í flokki siðgæðislöreglunnar. Þeir sem tóku síðan af skarið og ollu því að þetta fólk hætti við komuna til landsins reyndust að endingu vera BÆNDUR sem af röggsemi ákváðu að ekki fengi liðið inni í þeirra höll vestur á Melum. Besta mál, en hvað svo? Lægir þennan storm á augabragði og síðan ekki söguna meir? Ekki gott að segja, en fróðlegt verður að fylgjast með baráttu þeirra sem hæst höfðu, þegar þeir og þær taka fyrir klámið á Íslandi. Það hlýtur jú að liggja beinast við að halda baráttunni áfram af fullum þunga, eða hvað? Skipa í nefndir og vinnuhópa sem útbúa gestlista til landsins og margt margt fleira sem tryggir okkur algera sérstöðu meðal annara þjóða. Við erum jú svo rosalega flott og samkvæm sjálfum okkur, að leitun er að annari eins þjóð. Íslenskur landbúnaður þarf ekki að örvænta að minnsta kosti.  

Að aulýsa upp um "stjörnuna".

"Brilliant" hugmynd, en engan vegin ný af nálinni og ekki alveg ljóst hvernig maðurinn ætlar að fá einkaleyfi á þessu. Hef rekist á þetta fyrirbæri m.a. í Japan og einnig hef ég séð svona í Bretlandi, svo þetta kemur mér ekki svo á óvart. Ekki það að undirritaður eyddi miklum tíma í að rýna mikið í þann "literatur" sem á pappírnum var, enda í öðrum "erindagjörðum".  Það kemur mér heldur ekkert á óvart að það sé Norðmaður sem telur sig vera svona snjallan að markaðssetja aglýsingar upp um "hinn" endann á fólki. Leiðin getur ekki verið annað en uppávið hjá frændum vorum úr þessu. Ef þetta eru ekki "stjörnustælar" þá veit ég ekki hvað.
mbl.is Norðmaður fær einkaleyfi á að auglýsa á salernisrúllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tala saman!

Aukin tölvunotkun ungmenna og þeirra sem eldri eru er staðreynd sem ekki verður snúið við. Margt er hægt að nálgast gegnum tölvuna og margt sem er í boði, misgott að vísu, en velflest hin besta skemmtun og fróðleikur. Sá tími sem ungmenni sitja fyrir framan tölvur hefur aukist gríðarlega og ljóst af þessari frétt um átökin að þetta getur farið úr böndum allt saman ef ekki eru settar einhverjar hömlur af foreldrum, um tímann sem ungmennin sitja við skjáinn. Það er á ábyrgð foreldra að þessu sé stillt í hóf og ekki annað séð en að í þessu tilfelli hafi það verið foreldrarnir sem ekki stóðu sig í stykkinu. "Tala saman" virðist því miður vera á undanhaldi hjá allt of mörgum fjölskyldum. Það er svo auðvelt að láta sem ekkert sé, en endirinn verður yfirleitt á einn veg með þetta sem annað óhóf og hann er oftast slæmur. Eins stórkostlegur miðill og netið er, er jafnframt hálf dapurlegt hve lítið hlutfall er af spennandi,uppbyggilegu og fræðandi efni í boði fyrir ungmenni. Megnið af efninu tengist ofbeldi og hasar, sem aftur býður heim hættunni á því að unga fólkið glati nánast raunveruleikaskyninu og tapi sér, þegar kemur að því að hemja tölvunotkunina. Foreldrar.: Tala saman!    
mbl.is Stympingar vegna tölvunotkunar unglingspilts á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bónuskartöflumúsagangsrúllerísfréttaflutningslausnin"

Jæja, komin skýring á þessum tveimur "furðulegu" fyrirbærum sem rúlluðu eftir gólfinu í Bónus, meðan verðkönnunin var unnin af Stöð Tvö. Sennilega man enginn lengur hvort matarkarfan var ódýrari hér heima eða í Danmörku. Í það minnsta hefur afskaplega lítið verið fjallað um það. Nokkuð spaugilegt mál í alla staði og sýnir í raun að það er full þörf fyrir skemmtilegar "ekki fréttir" annað veifið, til að létta brún landans. Alveg nóg af slæmum fréttum allan ársins hring og bara gaman fá svona umræðu inn á milli. Sýnir líka vel hve þvældur og teygður fréttaflutningur um sömu mál dag eftir dag, stendur höllum fæti þegar eitthvað jákvætt kemst í loftið. Fréttamenn og fréttmiðlar landsins ættu að hafa það að "mottói" að koma með a.m.k. 2 - 3 góðar og skemmtilegar fréttir á viku. Við neytendur förum ekki fram á mikið annað en að það sé hægt að brosa og hfa gaman af fréttum annað veifið. "Bónuskartöflumúsagangsrúllerísfréttaflutningslausnin" kallar vonandi á fleiri gamansama leyndardóma til að glíma við á næstu dögum og vikum..Smile      
mbl.is Stóra kartöflumúsarmálið leyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klámhundar og umræðan.

Það er ljóst að koma þessa hóps kynlífsmyndaframleiðenda og leikara til landsins á næstunni mun duga vel til heiftarlegra skrifa með og á móti þessari heimsókn. Sitt sýnist hverjum um komu þeirra eins og gefur að skilja, en vonandi að menn og konur, hagi umræðunni á þann veg að ekki verði úr því hálgert klám í formi munnsöfnuðar og skítkasts. Málefnaleg umræða err fjörug og skemmtileg og hlakka til að fylgjast með. Ef hrynjandinn í umræðunni heldur þegar fenginni ferð, er hætt við að allt verði hér orðið sjóðandi vitlaust áður en langt um líður.

Sé ekki alveg hvernig stjórnvöld eða aðrir geti bannað þessum hópi að koma til landsins, en það er önnur saga. Engin hegningarlög hér á landi geta dæmt áður en glæpur er framinn, eftir því sem ég best veit. Ennþá hefur enginn glæpur verið framin af þessu fólki hér á landi, en full ástæða til að fylgjast vel með þegar þau koma.   


"Refsivísitala Sársaukans"

Hef verið að velta þessu orðatiltæki fyrir mér að undanförnu. Að sjálfsögðu ekki til, enda bara hugtak í hausnum á mér. Aðallega í sambandi við gengna dóma í alls kyns dómsmálum, þar sem flestir geta verið sammála um að miðað við alvarleika brotanna, hafi dómarnir verið í hróplegu ósamræmi við verknaðina og komið okkur öllum á óvart. Hvort heldur hefur verið, líkamsmeiðingar, kynferðisafbrot eða annað, hefur almenningur staðið eftir gapandi af undrun og reiði.

Dómstólar hafa , að því er virðist, fest sig í viðjum vanans og ekki séð ástæðu til annars en að dæma hvert málið á fætur öðru samkvæmt "fyrrgengnum dómum". Sem sagt kolfastir í sama farinu og bara ágætt að dæma "ditto" miðað við síðasta dóm í "sambærilegum málum". Reyndar hefur komið fram að dómar hafi verið að lengjast í kynferðisafbrotamálum um "allt að einhverja mánuði"! Það ætti að láta okkur öllum líða betur, ekki satt?

Á tímum hraða, Hnattvæðingar, Nastaq, Vísitölu Neysluverðs og Byggingarvísitölu, ætti að vera hægt að setja saman starfshóp hinna ýmsu fræðinga, um hin ýmsu mannlegu málefni, sem hefðu það markmið eitt að finna út "Refsivísitölu Sársaukans" sem gera myndi dómstólum þessa lands auðveldara að losna úr viðjum vanans og dæma eins og menn. Refsiramminn er skýr, en hann er í undantekningartilfellum nýttur, sökum þess að "fordæmin" leyfa engin frávik. Með því að leyfa skírskotun í þessa nýuppfundnu vísitölu, sem jafnframt yrði heimilt að nýta sem "argument" í dómum yrði dómurum réttarkerfisins gefinn kostur á að opinbera, hver fyrir sig í Hæstarétti að minnsta kosti, þeirra sýn og fordæmingu að teknu tilliti til allra þátta málsins og dæma samkvæmt eigin sannfæringu, en ekki viðteknum venjum eða undangengnum dómum.  

Er hægt að finna "Vísitölu Sársaukans" þegar meta á alvarleika brota og "verðleggja" í dómatilliti skaðann sem hlýst af manndrápi, líkamstjóni, glataðrar æsku, misnotaðri góðvild og jafnvel trausts í nafni Almættisins og fleiri illvirkja sem vaða uppi og ekki sér fyrir endann á? Væri ekki rétt að huga að þessu og forgangsraða refsirammanum samkvæmt því?

Um leið og ásættanleg "Refsivísitala Sársaukans" væri fundin, mætti setja á stofn starfshóp sem ætlað væri að finna "Undanskotsvísitölu Græðginnar". Sá starfshópur myndi eiga mun léttara verkefni fyrir höndum og sennilega getað skilað af sér fyrir hádegi, ef verkefnið lægi fyrir að morgni.

 


Tímabær tilraun.

Vonandi mun þessi tilraun takast vel hjá Hafnfirðingum og mættu fleiri koma að þessari tilraun samhliða þeim, svo fá megi sem víðtækasta niðurstöðu.  Það er ekki nokkur vafi á því að þessi aðferð mun í mörgum tilfellum hjálpa þeim sem misstíga sig í lífsins krappa dansi að fóta sig á ný. Ekki að efa að þessi aðferð hefði gagnast þeim ungu drengjum, sem vistaðir voru að Breiðuvík, mun betur en þær mannraunir og niðurlæging sem þeir máttu þola þar. Alltaf munu verða einhverjir sem ekki fóta sig á meðal okkar, en vafalítið að þessi aðferð mun stórminnka líkur á að þetta fólk sem áður var vistað innan um forherta krimma eða á útkjálkabýlum við ysta haf muni halda upptekinni iðju við afbrot. Heiðarleg vinna innan um venjulegt fólk er einn besti skóli sem ungt fólk á völ á, þó svo það átti sig kannski ekki á því fyrr en seinna meir.Til hamingju með þetta þarfa verkefni.
mbl.is Vinnur í viku hjá Hafnarfjarðarbæ upp í kostnað vegna tjóns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kaninn sér um sína"

Haítí getur á vissan hátt talist samnefnari utanríkisstefnu USA. Ef engin olía-skítt með mannslífin. Ef olía- líka skítt með mannslífin. Burt með allt sem er óþægilegt, hvað sem það kostar og síðan hvað sem er sett í staðinn, einnig hvað sem það kostar. Hvar væri heimurinn á vegi staddur ef ekki væru þessar miklu hetjur til að halda utan um hlutina? Er hægt að vera margfaldari í roðinu? Það er ekki nóg að geta krógann. Það verður að ala hann upp líka. Það komast ekki allir upp með að láta hengja sína króga er þeir gerast ódælir en sumir eru betri en flestir, að því er virðist og komast upp með allt. Guð blessi Ameríku og góðmennin sem henni stjórna. Heimurinn væri án efa verri ef þeir hédu ekki hreðjataki á öllu saman okkur til verndar.
mbl.is Talið að 8.000 Haítíbúar hafi verið myrtir í tíð bráðabirgðastjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband