Mynd af manninum!

Væri ekki rétt að sýna mynd af blessuðum manninum, ef það er mögulegt að hann sé staddur hér á landi?
mbl.is Mál meints hryðjuverkamanns til skoðunar hjá ríkislögreglustjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundskór, Disney World og garðhrífur?

Vonandi að þessum farsa fari nú að ljúka. Það er komið sumar og tími til að hætta þessari vitleysu. Tugir milljóna í málskostnað og þetta er afraksturinn. Miðar í Disney World, sandalar og garðáhöld!Þarf ekki eitthvað að taka til í efbahagsbrotadeildinni og hjá ákæruvaldinu? Maður bara spyr. 
mbl.is Jón Ásgeir sýknaður en Tryggvi og Jón Gerald sakfelldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruslkjöt á grillið?

Það hefur viðrað vel til "grillunar" undanfarna daga. Sól og blíða og einhvern veginn ekki annað í myndinni en að grilla nánast allt sem etið er á dögum sem þessum. Í verslunum er ómælt framboð af alls kyns grillkjöti af flestum skepnum sem við leggjum okkur til munns og er úr nógu að velja. Gæði þessa kjöts er svona upp og ofan og eins er það misjafnlega höndlað. Vinsælast virðist vera það kjöt sem búið er að saga niður í sneiðar og baða í alls kyns "mareneringum" og kryddum, enda selst þetta í bílfarmavís á góðviðrisdögum. Einnig virðist vera roksala á alls kyns "hamborgaratilboðum", þar sem oft á tíðum fylgir brauð með. Fjórir hamborgarar með brauði á tilboði, 500 kall. Fínt mál. Til þess að gera "ódýrt" hættir manni til að hugsa og þrífur með sér einn eða fleiri pakka. Mætir á pallinn heima með bros á vör og stendur keikur við að steikja ofan í liðið.  Smellir fyrstu fjórum borgurunum á grillið svo kvissar í og ekki pláss fyrir fleiri í bili. Það líður hins vegar ekki löng stund áður en þessir fjórir sem á grillinu liggja, byrja að flauta, engjast, verpast og sprauta frá sér vökva og olíu í þvílíku magni, að eldhafið rétt fæst hamið. Reykurinn byrgir sýn og maður stendur hálfgrenjandi mitt í kófinu og reynir að bera sig vel. Mjög fljótlega er svo orðið pláss fyrir aðra þrjá til fjóra í viðbót, svo hratt skreppur þetta "hamborgararusl" saman. Þegar yfir lýkur reynist nauðsynlegt að setja tvo borgara í hvert brauð, því þeir eru orðnir á stærð við smákökur, og grillið eins og hellt hafi verið yfir það úrgangsolíu í bland við bensín. Gleðiglottið horfið af smettinu á manni og stórþrif framundan, bæði á pallinum og grillræflinum. Þetta er algert ruslfæði í orðsins fyllstu merkingu. Virðist engu skipta frá hverjum þessir "hamborgarar á tilboðum" koma. Þetta er nánast allt sama ruslið! Ekki verslað meira af þessum óþverra á mínu heimili þetta sumarið. Nei, nú er það bara "Hjemmelavet" og allt kjöt án mareneringar og krydds úr búðinni. Þetta er sjálfsagt í stórum stíl á síðasta sjéns og því baðað í einhverjum kryddblöndum til að fela bragðið og hana nú. Læt þessu tuði lokið að sinni. Lifið heil og gleðilegt grillsumar.     


Steraklikkun?

Hörmuleg frétt og ekki laust við að læðist að manni grunur um að sterarnir sem þessi kjötstykki bryðja eins og brjóstsykur kunni að vera hluti af skýringunni á þessum voðaverknaði. Það fæst sennilega aldrei svar við því. Ömurlegt þegar svona gerist, hvort heldur er undir áhrifum lyfja eður ei, í Ameríkunni sem annars staðar.


mbl.is Myrti fjölskyldu sína og framdi sjálfsvíg í kjölfarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáni Tævan fjarlægður!

Það er glæsileg umgjörð um þessa Alþjóðaleika ungmenna sem nú stendur yfir. Vel skipulögð setningarathöfn og allt eins og best verður á kosið. 1200 þátttakendur gengu fylktu liði undir þjóðfánum sínum, allir nema ungmennin frá Tævan. Þáu máttu una við það að þurfa að ganga undir ólympíufána sem fána síns lands. Svipað og íslenskir þátttakendur á mótum marseruðu undir fána Búrúndí eða Angóla. Fánasviptingin tilkomin vegna þess að urrað var í kínverska sendiráðinu og ekki að sökum að spyrja. Íslendingar leggjast í gólfið eins og vel siðaðra hunda er siður og fjarlægja fána Tævan "med det samme" eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ég sagði í fyrradag að ég myndi hundur heita ef þetta gerðist ekki, svo ég get verið rólegur og sleppt því að æfa gelta og urra enn um sinn. Lítil er reisn þeirra sem leggjast eins og rakkar, í hvert sinn sem urrað er úr gróðavonarátt. Svartur blettur á annars glæsilegri samkomu.

Verður fáninn fjarlægður?

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig tekið verður á þessu máli með Taívanska fánann á alþjóðaleikum ungmenna. Pólitíkin skín jú allsstaðar í gegn og skal ég hundur heita ef ekki verður orðið við þessum kröfum Kínverja. Það eru jú "viðskiptalegir hagsmunir í húfi" ekki satt ? Íslenska útrásin er að ná settlegri fótfestu þar ytra og ólíklegt annað en að þessu verður kippt í liðinn í snatri, það er að segja ef enn er sama stefna við lýði og þegar falungarnir voru slegnir í kaf hér um árið. Virkilega spennandi að sjá hvað setur með þetta.  
mbl.is Mótmæla því að fána Taívans sé flaggað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klikkaðir foreldrar.

Akureyri er fallegur bær. Yfirleitt og nánast alltaf. Nýliðin helgi var þó undantekning. Ákvað að eyða helginni þar, því örverpið mitt (gullfallegur 15 ára) er forfallinn bílaáhugamaður og því tilvalið að eyða saman stund við hans áhugamál og skella sér á "Bíladaga" á Akureyri. Njóta "quality time" með drengnum sem senn verður orðinn hærri en ég og líklegur til að mala mig í sjómanni áður en langt um líður, ásamt fleiru. Sitjum hér síðan hálf gáttaðir heima á mánudegi og rifjum upp atburði helgarinnar. Vissulega var marga fallega bíla og mótorhjól að sjá á Akureyri um helgina og yfir daginn var úr nógu að moða fyrir þá sem áhuga höfðu á bílum, mótorhjólum og öðrum tryllitækjum. Þegar líða tók á kvöld föstudags og laugardags breyttist Akureyri hins vegar í einhverskonar dýragarð, þar sem var eins og öllum geðveiku dýrunum hefði verið smalað í miðbæinn og hellt í þau áfengi, eins og hvert kvikyndi gat í sig látið. Afraksturinn lét ekki á sér standa. Ælandi, mígandi, skítandi, öskrandi, gargandi, berjandi og ég veit ekki hvað...Þrettán, fjórtán, fimmtán, sextán, sautján ára og uppúr gekk þessi hersing þvílíkan berserksgang um miðbæ Akureyrar og víðar um bæinn, að kalla þurfti eftir liðsauka úr höfuðstaðnum til að stemma stigu við viðbjóðnum. Algert kaos um allan bæ og þeir lögreglumenn sem voru á vakt áttu ekki sjö dagana sæla. Þurfti meira að segja að kalla út björgunarsveitina á staðnum til að stilla til friðar á sjúkrahúsinu, þar sem sauðdrukkkið og útúrruglað fólk slóst og lét öllum illum látum. Við feðgarnir stóðum í miðbænum og horfðum á þessar hamfarir álengdar, litum í augu hvors annars en sögðum harla fátt. Hristum bara höfuðin í takt. Ekkert hægt að segja og enn minna hægt að gera annað en að halda sig til hlés. Bíl var velt fyrir framan okkur, skitið fyrir framan okkur, migið fyrir framan okkur, nektardans fyrir framan okkur, slagsmál fyrir framan okkur, flöskubrot fyrir framan okkur......sem sagt allur pakkinn og það í miðbæ höfuðstaðar norðursins á "Bíladögum". Hvað er að foreldrum sem hleypa 13-14-15 og 16 ára börnum sínum út á lífið og gaddinn? Hvað er eiginlega að foreldrum sem gera þetta? Það er ekki við börnin ein að sakast að öllu leyti, heldur foreldra og þankagang þeirra og  þessa þjóðfélags, sem virðist eftir reynslu helgarinnar vera orðið gjörsamlega klikkað! Það eru engin gildi orðin eftir önnur en Ég Ég Ég hjá fullorðna fólkinu og foreldrunum, sem aftur skilar sér í Hver er ég?, Hver er ég? hjá börnunum. Þessi þjóð er orðin snarklikkuð! að allt of stórum hluta. Hetjur helgarinnar eru hins vegar lögreglumennirnir og hreinsunarfólkið á Akureyri. Það fólk vann stórvirki og á heiður skilið fyrir sín vanþakklátu störf.

Nýja "Bíafralínan" frá Victoríu.

Skelfing er að sjá blessaða konuna. Þegar höfuðið er orðið breiðara en mjaðmirnar (eða svona hér um bil) hlýtur eitthvað að vera öðruvísi en það á að vera. Svo er þessi endemis della auglýst sem nýjasta nýtt og fjölmiðlar halda varla vatni af æsingi. Ófögnuðurinn, ruglið og þvælan sem þessu fylgir síðan látinn bylja á ungum stúlkum og konum sem, síðan því miður allt of margar, svelta sig og píska til að geta troðið sér í þessar örbrækur. Sennilega ekki meira efni í einni svona brók en sem nemur efni í aðra skálmina á venjulegri brók(Nema náttúrulega í USA, þar sem þyrfti sennilega dúsín). Það getur varla farið mikið fyrir stuttbuxum í þessari nýju "Bíafralínu" hennar Victoríu blessaðrar, en hvað veit ég um þetta svosem. Ég er bara tuðari.  
mbl.is Viktoría frumsýnir fyrstu gallabuxnalínuna sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuggahverfisslysið.

Það verður greinilega ekki gefins að búa í þessum spírum, sem ein af annari koma til með útrýma öllu útsýni frá byggðinni sem stendur ofar í brekkunni. Skapa auk þess einhverja verstu ásýnd sem hægt er að ímynda sér af strandlengjunni. Gríðarlega vandað húsnæði segja þeir sem eru að selja og sjálfsagt ekki vafi á því. Það sést til að mynda mjög vel á klæðningunni utan á húsunum sem þegar eru risin. Sennilega "færanleg" klæðning eða eitthvað ámóta. Vonandi að innvolsið hangi betur á sínum stað. Þetta er kannski ekki beint spurningin um arkitektúrinn sem slíkan, heldur miklu frekar skipulagið. Þar hefur eitthvað farið illa úrskeiðis. Það, að þessir turnar skuli verða byggðir neðst meðfram Skúlagötunni, er ekkert minna en umhverfisslys aldarinnar í Reykjvavík. Hvernig ætli gangi síðan að selja húsnæðið sem ofar stendur í brekkunni og kemur til með að vera í skugga meira og minna allt árið um kring, auk þess sem íbúar sjá aldrei annað en veggi næstu húsa. Má vel vera að ákafinn í að komast í "101" sé orðinn slíkur að fólk sé jafnvel tilbúið að hýrast í þeim nýju "bakhúsum" sem þessu umhverfis og skipulagsslysi fylgir. Hverfið er í raun orðið að algeru skuggahverfi af verstu gerð og skelfilegt að horfa uppá þetta. Skuggahverfisslysið er því miður staðreynd og sennilega fátt sem stöðvar þessa hörmung héðan af. Aumingja fólkið sem býr þarna umhverfis. Nýbúum hverfisins, neðan við 230 milljón króna hæðarpunktinn, óska ég alls hins besta og vona að sólarleysið komi ekki að sök um ókomin ár.       


mbl.is Dýrasta íbúðin á 230 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófarkalestur Morgunblaðsins.

"Íslenskar konur frá frekar lungnateppu en karlar"  !!!!!!

Þetta var á forsíðu Morgunblaðsins í gærmorgun 5.júní 2007. Ekki laust við að manni svelgdist á morgunkaffinu og þurfti reyndar að lesa þetta nokkrum sinnum til að fullvissa mig um að þetta gæti verið rétt lesið. Þetta var jú efst á forsíðunni og slegið upp í allstóru letri. Er búið að reka alla prófarkalesarana, eða eru leikskólabörn í starfsþjálfun á Morgunblaðinu þessa dagana? Ég geri margar villur í mínum aumu skrifum, en það kemur tæpast að sök, þar sem svo fáir lesa þau, en Morgunblaðinu leyfist ekki svona klúður og það efst á forsíðunni hjá sér. Ekki nóg með að blaðið sé orðið mun rýrara en áður, heldur virðist málfari og prófarkalestri hafa hrakað mikið. Synd og skömm.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband