Klikkaðir foreldrar.

Akureyri er fallegur bær. Yfirleitt og nánast alltaf. Nýliðin helgi var þó undantekning. Ákvað að eyða helginni þar, því örverpið mitt (gullfallegur 15 ára) er forfallinn bílaáhugamaður og því tilvalið að eyða saman stund við hans áhugamál og skella sér á "Bíladaga" á Akureyri. Njóta "quality time" með drengnum sem senn verður orðinn hærri en ég og líklegur til að mala mig í sjómanni áður en langt um líður, ásamt fleiru. Sitjum hér síðan hálf gáttaðir heima á mánudegi og rifjum upp atburði helgarinnar. Vissulega var marga fallega bíla og mótorhjól að sjá á Akureyri um helgina og yfir daginn var úr nógu að moða fyrir þá sem áhuga höfðu á bílum, mótorhjólum og öðrum tryllitækjum. Þegar líða tók á kvöld föstudags og laugardags breyttist Akureyri hins vegar í einhverskonar dýragarð, þar sem var eins og öllum geðveiku dýrunum hefði verið smalað í miðbæinn og hellt í þau áfengi, eins og hvert kvikyndi gat í sig látið. Afraksturinn lét ekki á sér standa. Ælandi, mígandi, skítandi, öskrandi, gargandi, berjandi og ég veit ekki hvað...Þrettán, fjórtán, fimmtán, sextán, sautján ára og uppúr gekk þessi hersing þvílíkan berserksgang um miðbæ Akureyrar og víðar um bæinn, að kalla þurfti eftir liðsauka úr höfuðstaðnum til að stemma stigu við viðbjóðnum. Algert kaos um allan bæ og þeir lögreglumenn sem voru á vakt áttu ekki sjö dagana sæla. Þurfti meira að segja að kalla út björgunarsveitina á staðnum til að stilla til friðar á sjúkrahúsinu, þar sem sauðdrukkkið og útúrruglað fólk slóst og lét öllum illum látum. Við feðgarnir stóðum í miðbænum og horfðum á þessar hamfarir álengdar, litum í augu hvors annars en sögðum harla fátt. Hristum bara höfuðin í takt. Ekkert hægt að segja og enn minna hægt að gera annað en að halda sig til hlés. Bíl var velt fyrir framan okkur, skitið fyrir framan okkur, migið fyrir framan okkur, nektardans fyrir framan okkur, slagsmál fyrir framan okkur, flöskubrot fyrir framan okkur......sem sagt allur pakkinn og það í miðbæ höfuðstaðar norðursins á "Bíladögum". Hvað er að foreldrum sem hleypa 13-14-15 og 16 ára börnum sínum út á lífið og gaddinn? Hvað er eiginlega að foreldrum sem gera þetta? Það er ekki við börnin ein að sakast að öllu leyti, heldur foreldra og þankagang þeirra og  þessa þjóðfélags, sem virðist eftir reynslu helgarinnar vera orðið gjörsamlega klikkað! Það eru engin gildi orðin eftir önnur en Ég Ég Ég hjá fullorðna fólkinu og foreldrunum, sem aftur skilar sér í Hver er ég?, Hver er ég? hjá börnunum. Þessi þjóð er orðin snarklikkuð! að allt of stórum hluta. Hetjur helgarinnar eru hins vegar lögreglumennirnir og hreinsunarfólkið á Akureyri. Það fólk vann stórvirki og á heiður skilið fyrir sín vanþakklátu störf.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

jam......... það er kominn tími til þess að almúgurinn rísi upp og styðji við bakið á börnunum og lögreglunni.. við getum ekki lengur setið og horft á og ekkert gert.. góð grein.. birtu hana í mogganum

Björg F (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 22:49

2 identicon

Þetta er hryllilegt og mér finnst ríkjandi óþolandi umburðarlyndi gagnvart svona samkomum. Samkoman "Halló Akureyri" hefur mér virst vera af svipuðu tagi, án þess að ég hafi sótt hana sjálf, og ég skil ekki hvað ráðamönnum á Akureyri finnst spennandi að kalla þessi ósköp yfir bæinn sinn. Það er algjörlega óskiljanlegt hvað margir foreldrar eru óábyrgir og sinnulausir gagnvart þeim skyldum sem þeim ber að rækja sem foreldrar. Ég fór einu sinni á Þjóðhátíð í Eyjum, var sirka 26-27 ára og var hrædd.  Mér finnst þetta alveg ótrúlega ósjarmerandi skemmtanamáti, þetta gargandi geðveikislega hömluleysi. Og hana nú.

Kristbjörg Clausen (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband