Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

El "Pidjun".

Í hvassviðrum og hríðarbyljum, eiga fuglar það til að sækja í ljós skipa á hafi úti og fljúga á stög, möstur og annað, með þeim afleiðingum að þeir liggja annað hvort dauðir eftir, eða illa vankaðir. Það er frekar dapurlegt að horfa uppá þetta, en fátt hægt að gera til að koma í veg fyrir þetta. Einstaka sinnum er hægt að slökkva vinnuljósin, en oftast þurfa þau þó að loga á fiskiskipum, hvernig sem viðrar. Þar sem vetur gengur nú í garð hér á hinum enda veraldarinnar, hefur tíð verið rysjótt, svo ekki sé meira sagt og í síðustu viku gekk hér á með SV-55-60 hnúta vindi ásamt snjókomu um tíma, svo varla sást fram á stefni og því síður aftur að skut. Þegar lægði og rofaði til, voru allmargir fuglar á dekkinu sem höfðu blindast af ljósunum og brotlent hér um borð. Tuðarinn tók sig til, ásamt Edgardo II stýrimanni og hélt í vettvangskönnun, enda báðir yfirlýstir og barasta nokkuð virtir fuglavinir hér um borð. Ekki voru nema tveir fuglar dauðir, en okkur til allnokkurrar furðu voru flestir hinna  bara vel sprækir og var því hafist handa við að elta þá uppi,  taka þá upp og sleppa þeim út fyrir lunningu á ný, þar sem þeir urðu flestir frelsinu fegnir. Margir sjófuglar eiga það nefnilega sameiginlegt að geta engan veginn tekið á loft eða haldið flugi, nema að sjá sjóinn, svo undarlegt sem það nú er. Á dekkinu kenndi ýmissa grasa hvað varðar tegundir, bæði af stórum sem smáum fuglum. Tuðarinn og Edgardo gengu rösklega fram í björgunaraðgerðunum og áður en langt um leið var nánast búið að ná og sleppa öllum fuglunum aftur. Einungis þrjú stykki eftir og skiptum við félagarnir okkur í tvo „hópa“ til að klára dæmið. Edgardo átti sjá um tvo og Tuðarinn um einn. Er við skildumst að tuldraði Edgardo eitthvað um  „pidjun“ eða eitthvað álíka sem Tuðarinn lagði sig akkúrat ekkert eftir að hlusta á, frekar en endranær, enda Edgardo með málglaðari mönnum og talar yfirleitt á hraða sem hvaða íþróttafréttaritari gæti verið stoltur af og auk þess er ekki að marka helminginn af því sem hann segir. Tuðarinn vatt sér því hugsanalítið að síðasta fuglinum, náði góðu taki og gekk út að lunningu þar sem fuglinn fékk frelsið á ný. Sem Tuðarinn sleppir blessuðum fuglinum niður með skipshliðinni kemur Edgardo askvaðandi, hrópandi „Master Dori, no no no no!. its a pidjun“!!! Heyrði ekki alveg nógu vel né skildi hvað hann var að hrópa, en fannst fuglinn taka frelsinu hálf undarlega, þar sem hann svamlaði í sjónum. Engu líkara en að hann kynni ekki að synda. Þegar Edgardo var kominn alveg upp að mér, leit hann niður á hafflötinn og horfði síðan sorgmæddur í augun á mér. „Master Dori.: Lúk at this púr pidjun. Ðer it is svimming in the osjen, but pidjuns kan not svim, so as jú kan sí, sí is drávning. Dónt you nó a pidjun from an albatros, master Dori?“  Það var hreint ekki laust við að Tuðarinn skammaðist sín, er það rann upp fyrir honum að hann hafði rétt í þessu hent dúfu út í rauðan blautan dauðann. Blessunin gafst fljótlega upp á sundinu og við horfðum á hana örmagnast og síðan fjarlægjast hreyfingarlausa aftur með skipshliðinni.Það var engin þörf á orðum, með svipnum sem Edgardo horfði á Tuðarann með. „Björgunarhóparnir“ gengu þögulir sitt hvora leiðina til baka inn í vistarverurnar. Annar „hópurinn“ með nagandi samviskubit yfir fljótfærninni og aulaháttnum í sér, en hinn með tár á hvarmi vegna dúfu, sem drekkt var af kjána ofan af Íslandi.      


Skjaldborg um stjórnarheimilið?

Eitthvað virðist hafa skolast til þetta innantóma kjaftæði vinstri flokkanna með að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Það er deginum ljósara að þar var greinilega átt við stjórnarheimilið og ekki snefil umfram það. Það liggur ekkert á, er það nokkuð? Gæti tekið svona viku í viðbót! Okkur liggur ekkert á. Það þarf að leysa brýnasta mál allra mála, ESB, ESB, ESB, ESB, ESB, ESB, ESB, ESB, ESB, ESB......því það reddar öllu sem hendi væri veifað. Allar skuldir hverfa eins og dögg fyrir sólu og atvinnuleysi verður óþekkt með öllu. Enginn fer á hausinn og allir verða voða "gúddí gúddí."

Hér er greinilega allt í "góðum gír" og engin þörf á að vera neitt að drífa í að finna lausnir á vandanum. Er kannski enginn vandi sem að steðjar?

Það er greinilega sama rassgatið undir öllum pólitíkusum, sama hvar í flokki þeir eru. Frussss.. á þetta lið allt saman.

ÞJ'OÐSTJ'ORN STRAX!!!!!!! 


mbl.is Hlé á viðræðum í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískir drullusokkar og amlóðar.

Pólitískir drullusokkar og amlóðar eru til af ýmsum  gerðum og að upplagi. Flestir eiga það þó sameiginlegt að þeir virðast ekki í neinum vandræðum með að varpa hugsjónum sínum og markmiðum fyrir róða, ef það mætti verða til þess að fá að verma eins og einn þingmanns eða jafnvel ráðherrastól. Að maður tali nú ekki um ef hugsanlega mætti maka krókinn, sér og sínum einkavinum til handa. Gefandi skít í allar stefnur, hugsjónir og heill þjóðar sinnar hafa pólitískir drullusokkar og óværa þeim tengd vaðið uppi hér á landi undanfarin ár. Vinnustaður þeirra hefur verið við Austurvöll í Reykjavík, en baktjaldamakk, brask, gjafagjörningar á ríkiseignum til vina og vandamanna og annar miður góður gjörningur, hefur farið fram vítt og breitt um bæinn. Drullusokkum þessum hefur tekist að knésetja þjóðina á undraskömmum tíma með athæfi sínu, en því fer fjarri að þeir hafi mætt einhverri mótspyrnu, sem heitið geti, af amlóðum þeim, sem bæði unnu með þeim í niðurrifsstarfsseminni og andstöðuamlóðunum sem unnu í sama húsi við Austurvöll og áttu að veita þeim aðhald og mótspyrnu. Bæði drullusokkarnir og amlóðarnir virtust una þokkalega sáttir við sitt, með smá misklíð endrum og sinnum, enda flóði fyrirgreiðsla þeim og vinum þeirra til handa úr bönkum og sjóðum landsmanna sem aldrei fyrr, þar til einn góðan veðurdag, að veislan var skyndilega á enda og sjóðþurrð brostin á. Veisluhöldunum lauk nánast á einni helgi og nú situr þjóðin öll eftir í sárum, með allt niður um sig og mannorð sem er minna virði en víxill í Nígeríu. Þúsundir  manna og kvenna án atvinnu, bankakerfið hrunið, atvinnulífið á heljarþröm og fátt sem bendir til að verið sé að aðhafast mikið af viti til að forða okkur frá frekari skelfingu. Drullusokkarnir fengu hressilega á baukinn í nýafstöðnum kosningum og nú virðist sem boltinn sé hjá amlóðunum að láta til sín taka og hefja land og þjóð til vegs og virðingar á ný. Taka hressilega á þeim sem fóru yfir strikið, mylja undir atvinnuuppbyggingu á ný og koma hjólum efnahagslífsins í gang er verkefni dagsins og ljóst að þar er við ramman reip að draga, enda aðstæður skelfilegar. Þjóðin ól með sér von um að með brotthvarfi drullusokkanna myndu amlóðarnir loks bretta upp ermar og taka ærlega til verks, en eitthvað hefur sennilega skolast til hjá báðum, þ.e. amlóðum og þjóð. Amlóðarnir ætla nefnilega að láta það verða forgangsverkefni fram yfir gröf og dauða að koma okkur inn í samevrópskan skriffinskuklúbb, sem nú reyndar flýtur sjálfur að feigðarósi vegna efnahagsþrenginga sinna eigin meðlima. Vel má vera að í klúbb þennan sé hægt að sækja einhverja aura seinna meir, en það er ekki það sem land og þjóð þarf á að halda NÚNA! Ef amlóðarnir láta ekki af þessari vitleysu fljótlega og fara að taka til hendinni í því sem skiptir okkur mestu máli, verður ekki lengur þörf á að skipta starfsfólki OKKAR við Austurvöll í drullusokka og amlóða. Þar verða ekkert nema drullusokkar ef þetta heldur svona áfram. Það er nefnilega hægt að svívirða þjóðina á fleiri máta en bara stela af henni peningum.

ÞJ‘OÐSTJ‘ORN, EKKI SEINNA EN STRAX!!!     

Hvað meira en ESB?

Vissulega hefur orðið róttæk breyting á pólitísku landslagi á Íslandi, eftir þessar kosningar. Því verður ekki neitað. Vonandi að hverjir svo sem flokkarnir verða sem mynda ríkisstjórn ( Sem virðist nú frekar augljóst, þrátt fyrir stórkalla og kellingalegar yfirlýsingar um aðra möguleika) nái þeir að hefjast handa við uppbyggingu efnahagslífsins á Íslandi og björgunaraðgerðir til handa þeim sem illa standa eftir hrunið mikla. Enn hefur lítið sem ekkert farið fyrir vitrænni umræðu um það hvað skuli til bragðs taka hér heima, annað en að taka þurfi á vandanum. Eins og hverju mannsbarni sé það ekki ljóst. Alveg með hreinum ólíkindum hvað Samfylkingarfólki tekst að lesa út úr niðurstöðu kosninganna. Bætti SF við sig 10 þingmönnum, eða hvað? Var það ekki VG sem bætti mest við sig? Ekki hafa ESB sinnar riðið þar um garða, svo mikið er víst. Virðist engu skipta við hvern er rætt úr röðum SF, öll sjá þau ESB sem patentlausn á öllu saman og virðist sem þeim sé algerlega fyrirmunað að svo mikið sem nefna vandann sem steðjar að hér heima. Mér vitanlega var ekki verið að kjósa um aðild að ESB og ef þessi málflutningur er eina innleggið í endurreisnina, gef ég lítið fyrir það. Fram að þessu hefur málflutningurinn verið innantómt glamur og ekki ein einasta haldbær útlistun komin fram af hálfu SF, hvernig taka eigi á efnahagsmálunum. Eintómt ESB kjaftæði út og inn, fram og til baka og allt um kring. Sjálstæðisflokkurinn átti skilið þá útreið sem hann fékk, en það er skýlaus krafa kjósenda að þeir sem nú taka við, horfi til lausnar vandans hér innanlands, en hætti að slá ryki í augu fólks með einhverju  endalausu ESB kjaftæði. Það forðar ekki eignum frá nauðungarsölum, né fyrirtækjum frá því að fara á hausinn. Sýnið hvað í ykkur býr og hættið þessu óbermis ESB kjaftæði. Sá þingmaður eða fulltrúi SF sem kemur opinberlega fram næstu sjö daga og nefnir EKKI ESB, fær að launum argentínskt rauðvín frá Tuðaranum þegar hann kemur til landsins aftur, í júníbyrjun.     
mbl.is Ljóst að kjósendur óska eftir aðildarviðræðum við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sextán snjóhvítar trönur.

                                   

Rétt í þann mund sem sólin sýndi sig í morgun, í fyrsta sinn í marga daga, settust sextán snjóhvítar trönur á þilfarið hjá okkur. Sennilega til hvíldar á löngu flugi norður á bóginn til heitari svæða. Virkilega fögur sjón og á vissan hátt dulítið myndræn og absúrd, svona í morgunnepjunni. Mong , kínverskur aðstoðarmaður minn, kallaði þegar í stað á landa sína sem þustu upp á dekk til að sjá þessa fögru sjón og það var engu líkara en þeir hefðu unnið í happadrætti. Þeir beinlínis hoppuðu af hrifningu og kæti . Mong sagði mér að þetta boðaði mikla lukku og því gleddust þeir svona innilega. Það væri búið að vera nánast árviss viðburður  að hvítar trönur settust á skipið á þessum árstíma,  einmitt á þessum slóðum, en aldrei hefðu þær verið svo margar sem nú. Vonandi reynist það rétt hjá þeim blessuðum, að þetta sé gæfumerki. Nú fer í hönd Hokinhalavertíð hér  suður og austur úr Eldlandinu og er óskandi að við náum að reka  í stór höl af þeim fiski næstu vikurnar. Hvernig maður setur síðan  árangurinn af vertíð lokinni, í samhengi við sextán hvítar trönur, verður bara að koma í ljós.  Það hlýtur að verða hægt að deila með, draga frá, margfalda eða bæta við tölunni sextán með einhverjum hætti. Leikur að tölum er jú þjóðaríþrótt, ekki satt?  

Gleðilegt sumar kreppukútarnir mínir á norðurhjaranum . Kjósið ykkur nú ekki til óbóta um helgina. Vetrarkveðja úr suðurhöfum.    


Samfylking og VG redda þessu.

Elskurnar mínar, þarna uppi á Skaga, verið ekki að hafa áhyggjur af þessu öllu saman. Samfylkingin og VG redda þessu strax að loknum kosningum. Talsmenn Samfylkingarinnar eru jú opinberlega búnir að tilkynna að brýnasta verkefnið að kosningum loknum sé að ganga í ESB. Það hlýtur að höggva snarlega á þessa skuldasúpu alla saman og laga neikvæða eiginfjárstöðu alls þess fólks, sem nú berst í bökkum og horfir á eigur sínar að engu verða. Rollubóndinn af Langanesinu ætlar síðan að damla með og sjá til. Þetta hlýtur að reddast einhvernveginn allt saman, eða er þaki? Ekki það að aðrir flokkar séu neitt líklegri til neinna afreka, þannig lagað séð. Það er meira og minna sama rassgatið undir öllu þessu liði, sama hvar í flokki það er.  

Skítt með komandi kosningar! Þjóðstjórn strax!


mbl.is Þörf á tafarlausum aðgerðum í þágu heimila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Snillingur" tjáir sig um krónuna.

Loks geta landsmenn andað léttar! Fyrrum viðskiptahrunsráðherra hefur tjáð sig um framtíð krónunnar. Batamerki gjaldmiðilsins blasa við, að hans sögn. Þá vitum við það. Að fá að heyra þessa speki hnjóta af vörum snillingsins, sem ásamt samstarfsfólki sínu á þingi setti þjóðina á hausinn, með sofandahætti og aumingjaskap, hlýtur að róa alla þjóðina. Eða hvað..? Eitt af því sem Tuðarinn hefur lært í hruninu er það, að ef þessi mannvitsbrekka opnar munninn segir að eitthvað sé hvítt, þá er það alveg örugglega svart. Krónan er sem sagt alveg örugglega á leið til andskotans. Það hefur hér með fengist staðfest af snillingnum, sem því miður virðist ætla að rata á þing á ný, fyrir atbeina staurblindrar alþýðu, sem snúið er eins og snældu af fjölmiðlum og æsingafólki sem slær um sig með innantómum frösum og skrumi, lofandi öllu fögru, sem vandséð er hvernig standa á við.

ÞJÓÐSTJ'ORN !, ekki seinna en sem fyrst!    


mbl.is Krónan mun styrkjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn fullkomni fáránleiki.

Í dag er 15. apríl. Enn er ekki komið alveg á hreint hvaða flokkar bjóða fram til Alþingiskosninga eftir örfáa daga! Tuðarinn kaus í lok mars, utankjörstaðar, eins og áður hefur verið tuðað um. Vel má vera að ég sé að gera úlfalda úr mýflugu, en fáránleikinn varðandi þessar kosningar er slíkur, að þeim hárum fer nú sífellt fækkandi sem tolla á hausnum á mér. Gott ef þau eru jafnvel ekki farin að toga á móti. Maður á kannski ekkert að vera að reyta hár sitt vegna þessa, en umræðan um Ísland og það sem þar hefur átt sér stað er slík, þar sem ég hef farið, að það er farið að hafa veruleg áhrif á sálartetrið, svo ekki sé meira sagt. Meira að segja hér í Argentínu er hlegið að Íslandi og þeim fávitagangi sem þar á sér stað. Talað um að taka Ísland inn í samtök ríkja í Suður-Ameríku og annað í þeim dúr. Hér borgar sig að segjast bara vera frá Finnlandi eða Færeyjum, nema ef vera skildi að maður kærði sig um að verða skotspónn fimmaurabrandara og fá á sig skot og skæting fyrir að vera Íslendingur. Svei mér ef ég hef ekki lækkað líka um einhverja sentímetra. Ég sem eitt sinn gekk stoltur og sperrtur Íslendingur um götur og torg, skáskýst nú eins og hálfopinn vasahnífur milli húsasunda og er helst ekki á ferðinni, nema eftir að skyggja tekur.

 Megi allar góðar vættir blessa land og þjóð í komandi kosningum og gefa sem flestum kjark og þor til að skila auðum atkvæðaseðlum á kjördag. Íslendingar hafa ef til vill ekki áttað sig alveg á því enn, en það er nánast sami pakkinn í framboði og setti með aulagangi og amlóðahætti, þjóðina á hausinn. Svei þeim sem sátu á þingi, hvar svo sem í flokki þau eru. Vei þeim sem kjósa þau aftur! Þeir eiga ekki skilið annað en að þjást.

 Kveðja frá Eldlandinu.  


mbl.is Flestir framboðslistar gildir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldaraáhlaup á Nýja Kaupþing?

Þegar SPRON fór á hausinn var nánast öllu sem þar var verið að sýsla með, mokað inn í hið "Nýja Kaupþing". Að sögn forsvarsmanna NK var að mestu um skuldir að ræða. Eftir stóð netbanki SPRON og einhver útibú, sem MP fjármögnun gerði síðan tilboð í og fékk fyrir um átta hundruð milljónir króna. Nú ber svo við að menn óttast áhlaup fyrrum viðskiptavina SPRON á NK sem ekki væri hægt að standa undir! Menn óttast það semsagt að skuldararnir geri áhlaup á NK og hirði þaðan skuldirnar sínar, eða hvað? Er búið að snúa bankakerfinu algerlega við, þannig að nú geti skuldarar bara labbað inn í sinn banka og sótt skuldirnar sínar? Gott væri, ef satt væri, en sennilega langt í land að svo verði, enda yrðu þeir sem skulda mest sennilega frekastir í að sækja sitt og það gengur ekki upp. Það má hins vegar lesa á milli línanna að NK er svo gott sem á hausnum, ekkert síður en gamla SPRON og vandséð annað en stefni hér í bankahrun númer tvö. Þeir sem telja að við séum komin á leið upp úr öldudal´efnahagsþrenginganna ættu að fara varlega í tali sínu og bíða um stund með að fagna. "You aint seen nothing yet" sagði forsetafroðan forðum og það eru því miður orð að sönnu sem enn munu bylja á okkur aumingjunum, sem sitjum eftir með reikninginn og þurfum að borga.     
mbl.is Óttast áhlaup á Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránleg utankjörstaðarkosning!

Í fyrramálið brunar Tuðarinn áleiðis til Eldlandsins á ný, eftir rúmlega tveggja mánaða "afslöppun" í kreppulandinu, hér á hjara veraldar. Eitt af síðustu embættisverkum kvikyndisins fyrir brottför var að kjósa til Alþingis hjá fógetanum í Reykjavík. Þar tóku á móti mér elskulegar konur sem afhentu mér tilskilin gögn og upplýsingar, svo ég gæti nú notað þetta auma atkvæði mitt til að velja á komadi þing. Meðal gagnanna var upptalning á þeim listum sem komnir eru fram og fengið hafa listabókstaf. Þetta var hellingur af bókstöfum fyrir hina ýmsu lista og ljóst að það er bara þó nokkuð margt í boði, þó misgott sé. Það er hins vegar algerlega fáránlegt að frestur til að skila inn framboðslistum og sækja um listabókstaf RENNUR ÚT 16. APRÍL.! Með öðrum orðum gæti sú staða komið upp að einhverjir þeirra lista sem búnir eru að fá listabókstaf, nái ekki tilætluðum meðmælendafjölda og svo hitt að enn er möguleiki á að fram komi listi sem Tuðaranum og jafnvel fleirum sem kjósa utan kjörfundar, líki ef til vill best af öllum, en geta ekki kosið þar sem listinn var ekki til, er utankjörfundur fór fram og atkvæðaseðlinum var rennt niður í kjörkassann. Tuðarinn veltir því nú fyrir sér hvort hægt sé að finna fjandans umslagið með atkvæðinu hans, gera það ógilt og krefjast þess að fá að kjósa aftur ef fjöldi framboða eykst fram að 20. apríl. Þetta er ekkert annað farsi og ekki nema von að umheimurinn hlægji að okkur vesalingunum hér á "bestasta landi í heimi". Er hægt að drulla öllu meir í brækurnar í kosningum en láta kosningar hefjast, ÁÐUR EN LJÓST ER HVERJIR ERU 'I FRAMBOÐI?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband