Básendaflóð og bryggjuhverfi!!

Plássleysi virðist hrjá bæjar og borgaryfirvöld á höfuðborgarsvæðinu. Reyndar svo alvarlega, að farið er að fylla fram fjörur með strandlengjunni, sem síðan á að nota til húsbygginga. Ekki nóg með þetta, heldur er nú enginn maður með mönnum nema byggja a.m.k. 8-30 hæðir og þá helst á fjörubrúnum framan við núverandi byggð, eða grænum svæðum, sem á skipulagi eru ætluð til útivistar og ánægju fyrir íbúana. Byggt neðst við strandlengjur, sem tryggir, að þeir sem innar, eða ofar í bæjunum búa, fá ekki notið sólar lengur. Ganga menn svo hart fram í þessum uppfyllingar og háhýsafasisma, að ekki er lengur hlustað eða tekið tillit til nokkurra mótbára. Grænir reitir meira að segja veðsettir í bönkum landsins, þó ekki hafi einu sinni fengist leyfi til bygginga á þeim. Upp skulu turnarnir og fjörurnar fylltar langt fram í Faxaflóa, með “draumabyggð á hafnarbakkanum”. Bryggjuhverfi, bryggjuhverfi, bryggjuhverfi. Meira að segja kynnt með myndum, þar sem börn eru að leik innan um bryggjupolla og allir brosa hringinn af hamingju. Ekki nema á bilinu 3-6 metrar niður í sjó (lóðrétt stálþil), eftir flóði eða fjöru, en gleymist yfirleitt alltaf að sýna á myndunum hvernig blessuð börnin eigi að koma sér aftur á þurrt, ef svo illa vill til að einhverju þeirra skriki fótur og falli í sjóinn við leik sinn. Hafflöturinn eins og heiðartjörn og voða voða gaman hjá öllum á myndunum. Sól í heiði og passað að ekki sjáist á kynningarmyndunum að skuggi hvílir yfir heilu og hálfu hverfunum á öðrum tímum, en rétt yfir blá hádegi miðsumars. Allt voða fallegt.

Fyrir margt löngu urðu hamfarir við suður og suðvestur horn landsins sem kenndar eru við Básenda. Svokallað Básendaflóð reið þá yfir mest allt suðvestur horn landsins með ógurlegum krafti og færði á kaf stór landsvæði, auk þess sem stórgrýti og sjógangur rauf gríðarstór skörð í strandlengjuna. Það fólk sem á þessum tíma varð fyrir barðinu á þessum hamförum brosti ekki hringinn eða lék sér fáklætt við bryggjupolla. Ef menn halda að nokkuð líkt Básendaflóðinu ógurlega geti ekki gerst aftur, vaða þeir hinir sömu í villu og svima. Sennilega mest þó gróðasvima. Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær slíkt gerist aftur. Það MUN gerast aftur, en það á bara að taka “sjensinn” og fylla móti sjó, byggja þar hús og vona síðan það besta! Það versta við þetta allt saman er það, að því miður selst þetta allt saman eins og heitar lummur. Sennilega vegna þess að þeir sem kaupa hafa aldrei á Básendaflóð heyrt mynnst, eða gera sér yfirleitt í hugarlund hver ógnarkraftur hafsins er. Megi allar góðar vættir vera með þessu blessaða fólki þegar ósköpin dynja yfir. Fáviska mannanna á sér greinilega engin takmörk og endalaust virðist hægt að selja allan fjárann. Meira að segja dauðagildrur!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góð færsla

Marta B Helgadóttir, 16.8.2007 kl. 00:44

2 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Athyglisvert. Peningar hafa meira gildi, vægi og segulstraum þegar verktakahálfvitar koma til bæjar-og sveitarfélaga og bjóða formúu í lóðir. Það skiptir engu máli þótt komið sé með mótbárur og rökstuddar með óhagstæðum byggingarmáta vegna veðurs eða hamfarahættu. Peningar fyrir sitjandi sveitarstjórnir er nr. 1, 2 og 3, oftast fyrir þeim eins og að detta í lukkupottinn og  peningarnir eru til að rétta af sjóðinn og ekki er verra ef smá afgangur verður!

Edda Agnarsdóttir, 16.8.2007 kl. 22:31

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Já maður..... nú fékk ég hugmynd.  Við bloggarar þurfum að koma manni á þing.  Þú ferð í framboð Halldór og ekkert tuð !

Anna Einarsdóttir, 16.8.2007 kl. 22:48

4 Smámynd: Bjarney Hallgrímsdóttir

Já, það er margt skrítið í kýrhausnum, ekki hægt að segja annað...

Bjarney Hallgrímsdóttir, 16.8.2007 kl. 23:04

5 Smámynd: Hjalti Garðarsson

Athyglisverð kenning hjá þér Halldór.  Bölsýni og neikvæðni skín reyndar yfir þessari grein þinni.  Þú minnir mig á frakkaklæddan mann með skilti hvar á stendur:"Heimsendir í nánd."

Hjalti Garðarsson, 18.8.2007 kl. 01:59

6 identicon

Athyglisverð grein.. og mikið til í því sem þú segir. Það sem reyndar fer líka afskaplega í taugarnar á mér þessa dagana svo ég fái nú að tuða aðeins líka er þessi endalaus bíla og tjaldvagna-húsbíla floti. Við erum með flesta bílana miðað við höfðatölu og að minnsta kosti 1/3 hluti landsvæðis á höfuðborgarsvæðinu fer undir bíla og skortur á bílastæðum er orðið alþekkt vandamál í hverju hverfi. Nú fjölgar tjaldvögnum og húsbílum og einhver staðar verða þeir að fá að vera.. þeir fylla nú þegar hin fáu lausu bílastæði og sitja þar fram yfir veturinn svo enn eykst bílastæðavandamálið sem aftur bitnar á okkar fáu grænu svæðum sem eftir er.. Hvar endar þetta? Og.. það sem meira er.. Hvernig samfélag viljum við búa í? 

Björg F (IP-tala skráð) 18.8.2007 kl. 14:26

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Sæll. Mig vantar að fá sendan frá þér bókartitil vegna leshringsins. Kveðja, Marta

Marta B Helgadóttir, 20.8.2007 kl. 11:52

8 identicon

Flott nýja myndin af þér  Hef ekkert gáfulegt til málanna að leggja hvað varðar skipulagsmál í augnablikinu - fannst bara svo langt síðan ég hafði kommenterað hér

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 19:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband