Undarlega lágar bætur.

 Það hlýtur að teljast í meira lagi undarlegt, að bæturnar skuli ekki hafa verið ákvarðaðar hærri í þessu hörmulega máli.

 Það eru nefnilega ekki nema nokkrir dagar síðan ónefndri konu voru dæmdar tuttugu milljónir (20.000.000.- kr.) í bætur, fyrir það eitt að fá ekki starf sem hún sótti um. 

 Hér er eitthvað mikið að, svo ekki sé meira sagt.

 Góðar stundir, med kveðju ad sunnan.


mbl.is Hjón fá fimm milljónir í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífsstílsblogg.

 Á blogginu má lesa marga pistla frá lífsstílsráðgjöfum allskonar, sem virðast hafa nánast allar lausnir sem þarf, við hinum ýmsustu vandamálum líkamshulstursins og handa sálartetrinu sem þar hýrist innanhúðar. Af nógu er að taka, hvort heldur fjallað er um hreyfingu, mataræði, slökun, hugarró eða annað tengt daglegu lífi nútímamanneskjunnar.

 Einn ráðgjafi leggur til að allir sleppi morgunmatnum, meðan annar telur málsverð þann hinn mikilvægasta fyrir komandi dag og síðan eru allskyns ráðleggingar um matmálstíma, tíðni máltíða, hollustu, hreyfingu, keto, vegan og hvað þetta nú allt saman heitir. Hvernig maður á að hugsa jákvætt og láta gott af sér leiða og jari jarí jarí. Semsagt allskyns ráðleggingar um allt milli himins og jarðar, sem leiða á til betra lífs.

 Tuðarinn hefur svosem ekkert út á þessar ráðleggingar að setja, þannig lagað séð, en þegar hann rak augun í þá ráðleggingu að maður ætti að kúka minnst tvisvar til þrisvar á dag var honum öllum lokið. Þetta grey sem hefur bara kúkað þegar honum er mál, er eiginlega bara alveg neðar sér yfir þessu. Samkvæmt flestöllum öðrum ráðleggingum  á maður að vera duglegur að hreyfa sig, stilla matarneyslu sinni í hóf, en síðan er ofsaskita ráðlögð í kjölfarið!

 Nú steinhætti ég að lesa lífsstílsblogg. Það er alveg kristalklárt.

 Held mig bara áfram við að borða það sem mig langar í þegar ég er svangur og kúka þegar mér er mál. Ég þarf engan “owners manual” um það.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.


Þvælujöfnun Orkusölunnar.

 Orkusalan framleiðir ekkert rafmagn. Ekki eitt einasta volt. Nema ef vera kynni 12 volt í “alternator” forstjórabílsins. Þar af leiðandi ættu frorsvarsmenn fyrirtækisins ekki að gera sig fleðulega og breiða, flaggandi einhverri kolefnisjöfnun á móti framleiðslu sinni, sem engin er. Halda þessir menn að allur almenningur sé algerlega heiladauður? Þvílík og önnur eins déskotans vitleysa og ófyrirleitni.

 Orkusalan er ómerkilegt heildsölufyrirtæki, sem selur rafmagn sem aðrir framleiða. Orkasalan er eitt þeirra fyrirtækja sem varð til við innleiðingu orkupakka eitt og tvö, sem áttu að koma af stað “eðlilegri samkeppni” á raforkumarkaði, sem sér rúmlega þrjú hundruð þúsund sálum fyrir rafmagni. Markaði sem sjálfur hafði byggt upp framleiðslu og dreifikerfi síns rafmagns í áratugi og notið góðs af einföldu innheimtukerfi og hreinum línum um það hverjir áttu staurana, línurnar og virkjanirnar. Stofnun Orkusölunnar og annara svipaðra heildsölufyrirtækja í raforkugeiranum hefur haft eitt og aðeins eitt í för með sér.: Hærra rafmagnsverð til neytenda og hinna einu sönnu eigenda orkunnar! 

 Orkusalan og önnur svipuð fyrirbæri eru ömurlegir og algerlga óþarfir milliliður sem kosta sitt. Það þarf forstjóra, fjármálastjóra, ritara, og móttökuritara og skrifstofur og bíla undir mannskapinn og svo þarf náttúrulega að auglýsa eigið ágæti út um rassgatið á sér, helst oft á dag, svo það fari nú ekkert á milli mála hversu ómissandi þjóðþrifafyrirtæki þessi óþarfnaðaróskapnaður er. 

 Það skal jú eltast við reglugerðafarganið frá Brussel út í hið óendanlega, sama hvað tautar og rausar og alveg sama hvað það kostar almenning og hérlend fyrirtæki. Hérlendir stjórnmálamenn eru orðnir að steinrunnum hugsjónageldum skjalastimplurum evrópusambandsins og Orkusalan og annar ámóta ófögnuður ein af afleiðingum þess.

 “Orkusalan kolefnisjafnar eigin raforkuframleiðslu”.......þvílíkt og annað eins andskotans kjaftæði og hananú og það held ég.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.


mbl.is Orkusalan kolefnisjafnar eigin raforkuvinnslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimskan er fundin.

 Stórviðri gengur yfir ákveðinn hluta landsins. Í óveðrinu brotna rafurmagnsstaurar og samskipti fara úr skorðum, þar sem veðrið er verst. Allt hið versta mál. 

 Á einhvern óútskýranlegan hátt, fær formaður einsmálsflokksins það á sinnið, að byggðaójöfnuður hafi afhjúpast í óveðrinu. 

 Óveðrið skall á ákveðin byggðalög með ofurþunga og því varð tjónið þar mest. 

 Óveðrið hafði ekki teljandi áhrif á önnur byggðarlög en þau, sem það skall harðast á.

 Af þessu dregur þessi ámátlegi forkólfur einsmálsflokksins þá niðurstöðu að ef allir stæðu jafnir í nafni kratismans, hefðu allir átt að verða fyrir jafnmiklu tjóni í óveðrinu, sama hvort blés eins og hjá andskotanum og snjóaði, eða gekk á með dimmum éljum og hægum vindi.

 Ef þetta er ekki heimska, þá fyrirfinnst hún ekki.

 Þar sem heimskan er fundin, er gott að vita hvar hún er.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.


mbl.is Byggðaójöfnuður hafi afhjúpast í óveðrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband