Heimurinn og ég.

´´ Þess minnist ég, að mér og þessum heimi

 kom misjafnlega saman fyrr á dögum.

 Og beggja mál var blandað seyrnum keimi,

 því báðir vissu margt af annars högum.

 

 Svo henti lítið atvik einu sinni,

 sem okkur, þessa gömlu fjandmenn sætti:

 að ljóshært barn, sem lék í návist minni,

 var leitt á brott með voveiflegum hætti.

 

 Það hafði veikum veitt mér blessun sína

 og von, sem gerði fátækt mína ríka.

 Og þetta barn, sem átti ástúð mína,

 var einnig heimsins barn og von hans líka.

 

 Og við, sem áður fyrr með grimmd í geði

 gerðum hvor öðrum tjón og falli spáðum,

 sáum loks í ljósi þess, sem skeði,

 að lífið var á móti okkur báðum. ´´

 Steinn Steinarr.


Ó, þú sturlaða veröld!

 Í sýrlandi hafa fleiri fallið en sem nemur öllum íbúum Íslands. Í Afganistan og Írak eru tölurnar á reiki, en án efa svo stórar, að sennilega mun aldrei fást úr því skorið hve margir féllu og falla enn. Í Jemen eru hundrað þúsund manneskjur fallnar í átökum, sem Saudi Arabía bombar dag hvern, með stuðningi BNA, í formi nútímavæddustu drápstóla sem völ er á. Landið er við það að standa frammi fyrir algerri eyðingu, en enginn tekur eftir því lengur.

 Milljónir farast úr hungri og vosbúð ár hvert, en vesturlönd snúa sér ávallt á hina hliðina. Stinga dollar í söfnunarbauka og telja samviskunni borgið. Svona yfirleitt í kringum jólin, svo eyðsluruglið verði ekki eins áberandi. Fínt að geta gefið af sér, ekki satt? Þetta er jú að gerast langt frá okkur!?

 Fjölmiðlar vesturlanda hafa algerlega gleymt öðrum hörmungum heimsins, því veira hefur gert strandhögg inn í hin helgu vé þægilegheitanna. Það fer nánast sami tími í fréttaflutning af hörmungum mannskepnunnar í þessum faraldri og ástandinu á hlutabréfamörkuðum! Er hægt að gerast geggjaðri?

 Það er nú einu sinni þannig, að enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Það þarf ekki alltaf púður og skotvopn, til eyða samfélögum, eða lama þau. Það er hægt að stöðva loftárásir, en skaðleg veira er öflugri en nokkurt vopn. Hvernig hún fer af stað, er hinsvegar rannsóknarefni. 

 Í Afríku, Indlandi og öðrum fjölmennum svæðum, munu á næstu vikum og mánuðum, ef fram fer sem horfir, falla fleiri manneskjur, en í öllum stríðum og fellum mannkynssögunnar til þessa.

 “Tough times´s ahead”

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

 


mbl.is Fjöldi smita nálgast milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biden eða Trump?

 Í nóvember verður Joe Biden, blessaður velmeinandi karlinn, búinn að gleyma því, að hann er í framboði. 

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

 


mbl.is Veiran eykur vinsældir Trumps og Johnsons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokið kauphöllinni !

 Kauphöll Íslands er svo smá í stóra samhenginu, að það er allt að því grátlegt að fylgjast með “markaðnum” á degi hverjum. “Aldrei lokað fyrir öll viðskipti” segir forstjórinn hróðugur í viðtali og hallar sér upp að rauðu tölunum, skælbrosandi. “We are always open” Jíhaaaa!

 Eins og sé ekki nóg að hugsa um þá sjúku, reyna að hemja veiruna og annað, sem hlýtur að teljast í meiri forgangi en verð á hlutabréfum í nokkurra króna viðskiptum. Það er alveg nóg af slæmum fréttum, þó ekki sé í ofanálag fjallað á degi hverjum um það hve þetta eða hitt fyrirtækið sé að fara upp eða niður í viðskiptum dagsins, í fáránelgri kauphöll á hjara veraldar. Kauphöll er ekki rétta orðið yfir þetta míkróspilavíti, sem er ekki einu sinni í eigin húsnæði. 

 Lokið þessum andskota sem fyrst og setjið upp spilakassa í staðinn. Gagnið er það sama, fyrir þjóðfélagið sem heild.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband