5.5.2009 | 10:23
El "Pidjun".
Í hvassviðrum og hríðarbyljum, eiga fuglar það til að sækja í ljós skipa á hafi úti og fljúga á stög, möstur og annað, með þeim afleiðingum að þeir liggja annað hvort dauðir eftir, eða illa vankaðir. Það er frekar dapurlegt að horfa uppá þetta, en fátt hægt að gera til að koma í veg fyrir þetta. Einstaka sinnum er hægt að slökkva vinnuljósin, en oftast þurfa þau þó að loga á fiskiskipum, hvernig sem viðrar. Þar sem vetur gengur nú í garð hér á hinum enda veraldarinnar, hefur tíð verið rysjótt, svo ekki sé meira sagt og í síðustu viku gekk hér á með SV-55-60 hnúta vindi ásamt snjókomu um tíma, svo varla sást fram á stefni og því síður aftur að skut. Þegar lægði og rofaði til, voru allmargir fuglar á dekkinu sem höfðu blindast af ljósunum og brotlent hér um borð. Tuðarinn tók sig til, ásamt Edgardo II stýrimanni og hélt í vettvangskönnun, enda báðir yfirlýstir og barasta nokkuð virtir fuglavinir hér um borð. Ekki voru nema tveir fuglar dauðir, en okkur til allnokkurrar furðu voru flestir hinna bara vel sprækir og var því hafist handa við að elta þá uppi, taka þá upp og sleppa þeim út fyrir lunningu á ný, þar sem þeir urðu flestir frelsinu fegnir. Margir sjófuglar eiga það nefnilega sameiginlegt að geta engan veginn tekið á loft eða haldið flugi, nema að sjá sjóinn, svo undarlegt sem það nú er. Á dekkinu kenndi ýmissa grasa hvað varðar tegundir, bæði af stórum sem smáum fuglum. Tuðarinn og Edgardo gengu rösklega fram í björgunaraðgerðunum og áður en langt um leið var nánast búið að ná og sleppa öllum fuglunum aftur. Einungis þrjú stykki eftir og skiptum við félagarnir okkur í tvo hópa til að klára dæmið. Edgardo átti sjá um tvo og Tuðarinn um einn. Er við skildumst að tuldraði Edgardo eitthvað um pidjun eða eitthvað álíka sem Tuðarinn lagði sig akkúrat ekkert eftir að hlusta á, frekar en endranær, enda Edgardo með málglaðari mönnum og talar yfirleitt á hraða sem hvaða íþróttafréttaritari gæti verið stoltur af og auk þess er ekki að marka helminginn af því sem hann segir. Tuðarinn vatt sér því hugsanalítið að síðasta fuglinum, náði góðu taki og gekk út að lunningu þar sem fuglinn fékk frelsið á ný. Sem Tuðarinn sleppir blessuðum fuglinum niður með skipshliðinni kemur Edgardo askvaðandi, hrópandi Master Dori, no no no no!. its a pidjun!!! Heyrði ekki alveg nógu vel né skildi hvað hann var að hrópa, en fannst fuglinn taka frelsinu hálf undarlega, þar sem hann svamlaði í sjónum. Engu líkara en að hann kynni ekki að synda. Þegar Edgardo var kominn alveg upp að mér, leit hann niður á hafflötinn og horfði síðan sorgmæddur í augun á mér. Master Dori.: Lúk at this púr pidjun. Ðer it is svimming in the osjen, but pidjuns kan not svim, so as jú kan sí, sí is drávning. Dónt you nó a pidjun from an albatros, master Dori? Það var hreint ekki laust við að Tuðarinn skammaðist sín, er það rann upp fyrir honum að hann hafði rétt í þessu hent dúfu út í rauðan blautan dauðann. Blessunin gafst fljótlega upp á sundinu og við horfðum á hana örmagnast og síðan fjarlægjast hreyfingarlausa aftur með skipshliðinni.Það var engin þörf á orðum, með svipnum sem Edgardo horfði á Tuðarann með. Björgunarhóparnir gengu þögulir sitt hvora leiðina til baka inn í vistarverurnar. Annar hópurinn með nagandi samviskubit yfir fljótfærninni og aulaháttnum í sér, en hinn með tár á hvarmi vegna dúfu, sem drekkt var af kjána ofan af Íslandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Facebook
Athugasemdir
hahahaha þessi Edgardo virðist vera asskoti fyndinn kappi. u verður nu að taka mynd af kvikindinu og syna manni þennan gaur sem u ert alltaf að segja sögur af jæja farðu nu að drífa þig heim gamli þín er sárt saknað héðan af klakanum, etta er bara vitleysa að vera þarna i essu veðri.
Kv Gunnar
Sumarliði Gunnar Halldórsson, 8.5.2009 kl. 02:29
Heyrðu frændi, ég verð að hitta þennann Edgardo...! Hefurðu ekki pláss fyrir háseta??? eða kokk....
Snæbjörn Björnsson Birnir, 8.5.2009 kl. 20:38
Sæll kæri Halldór.
Vissulega er sagan sorgleg um dúfuna en það sem upp úr stendur er að þú ert dýravinur. Það er göfugt og gott minn kæri. Reyndar efaðist ég aldrei um það að þú værir það.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.
Karl Tómasson, 9.5.2009 kl. 20:57
Nei Halldór! Vertu sem lengst! Það eru svo góðar sögurnar úr suðurhöfum
Hrönn Sigurðardóttir, 10.5.2009 kl. 23:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.