Fleiri burt!

Það er skynsamleg ákvörðun Árna að koma sér af vettvangi stjórnmálanna. Sennilega hefur yfirreið hans um kjördæmi "sitt" leitt honum í ljós að þar átti hann ekki nokkurn minnsta möguleika á að ná kjöri á ný. Tæpast í prófkjöri og enn síður í kosningum til Alþingis. Sumt geta jafnvel hörðustu sjálfstæðismenn engan veginn fyrirgefið, þó um samflokksmenn sé að ræða. Tuðarinn er eitilharður fylgjandi sjálfstæðisstefnunnar. Það var jú ekki stefnan sem brást. Það var fólkið sem fór með völdin í nafni stefnunnar. Það er von Tuðarans að fleiri þingmenn og fyrrverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fari að dæmi Árna og dragi sig í hlé. Framundan er eitthvert mesta uppgjör sögunnar hér á landi og þá gagnast lítið að tefla fram þeim mannskap sem svaf á verðinum, meðan undirstöður efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar sviðnaði og brann fyrir allra augum, nema þeirra. Það er ekki nokkurt mál að segjast axla ábyrgð. Það er hins vegar ekki sama hvernig sú ábyrgð er sýnd. Orð vega lítið ef sama fólkið og brást, heldur að það geti síðan haldið áfram að hjakka í sama farinu áfram og allt sé bara "gúddi gúddí". Sú tíð er liðin og best að menn og konur fari að átta sig á því. Hvað aðra flokka en Sjálfstæðisflokkinn áhrærir, getur Tuðarinn ekki séð að um mikla "öxlun ábyrgðar" sé að ræða. Ekki það að ég sé enn sáttur við minn flokk. Langur vegur frá. Í raun brást þingheimur allur og ekki úr vegi að ALLIR flokkar taki nú ærlega til í sínum ranni og andskotist til að varpa eiginhagsmunapoti og fortíðarkarpi fyrir róða. Framtíðin er það sem allt snýst um og mér er slétt sama hvaðan lausnir koma á vandanum sem við blasir, ef þær aðeins koma okkur á beinu brautina á ný. Sú auma tík, pólitík eins og hún hefur byrst okkur undanfarin ár og áratugi, er liðin undir lok og framundan eru viðsjárverðir tímar þar sem þjóðin hefur ekki efni á einu einasta feilspori af hendi þeirra sem stjórna eiga. 

  


mbl.is „Nú fer ég að líta í kringum mig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

... ekki alveg sammála þér núna kæri Halldór... vissulega brást fólkið en ég held að stefnan hafi líka brugðist... t.d. sú stefna að selja bankana með þeim hætti sem gert var flokkast að mínu mati undir mistök... þessi sala á bönkunum leiddi svo til bankahrunsins örfáum árum eftir gjörninginn...

Annars er ég spakur...

Brattur, 27.2.2009 kl. 22:06

2 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Einmitt ENDURNÝJUN en EKKI endurvinnslu og burtu með fleiri.

Ég hef reyndar áhyggjur af tónlistarnámi barna Árna Math. því að það ku víst hafa verið niðurgreitt af Rangárþingi Ytra en nú stefnir í að atvinnulaus fjölskyldufaðirinn verði að standa undir náminu.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 28.2.2009 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband