9.1.2009 | 14:11
Bakborðs og stjórnborðs "Yfirvélstjórahalli".
Það er ekki að undra þó þeir fáu sem rekast inn á þessa síðu hvái, þegar þeir sjá þetta orð, yfirvélstjórahalli. Orðið á ekki við hallandi eða skakkan yfirvélstjóra, þannig lagað séð. Þetta orð er hins vegar lýsandi fyrir ákveðið ástand um borð í skipi úti á sjó og í einhverjum tilfellum í höfnum líka. Það er þannig til komið, að yfirleitt er hægt að átta sig á því hvorum megin niðurfallið í sturtunni hjá yfirvélstjóranum er, með því að kanna hvernig skipið hallar. Yfirvélstjórinn ræður mestu um það hvernig skipið er trimmað til og er í lófa lagið að halla því aðeins pínu pons svo vatnið í sturtunni sé ekki að velkjast um sturtuklefann lengur en þörf gerist. Af þessu er orðið yfirvélstjórahalli dregið. Skip semsagt hallar annaðhvort í bakborð eða stjórnborð, eftir því hvað hentar yfirvélstjóranum best. Tuðarinn er ljónheppinn hvað þetta varðar, á því skipi sem hann er á núna, því hann er í klefanum við hliðina á Roberto yfirvélstjóra og sá fer mjög pent í að sjá til þess að ekki sé óþarfa vatnsagi á gólfinu inni á baði. Rétt svo merkjanlegur stjórnborðshalli, en nægur samt til að halda þurru. Fyrir þá sem ekki vita hvort er bakborð eða stjórnborð, skal á það bent að bakborðsmegin er vinstra megin þegar horft er fram eftir skipi og stjórnborð því hægra megin. Eldhúsborð koma málinu hins vegar ekkert við. Það getur haft slæmar afleiðingar að halda að bakborð sé alltaf vinstra megin, sama hvernig maður snýr og vissara að hafa þetta á hreinu, svona ef einhver vissi þetta ekki fyrir. Það verða jú allir að vita Í hvort borðið þeir eiga að snúa sér. Einnig er mjög gott að vita hvað snýr fram og aftur á skipi, en ókunnugum til glöggvunar er stefnið að framan og skuturinn að aftan. Síðurnar eru síðan langsum, ekki þversum, sitthvoru megin, bæði bakborðs og stjórnborðsmegin, skiljiði? Ef einhver er sendur fram í ganginn bakborðsmegin að sækja eitthvað þýðir til að mynda ekki að hlaupa bara fyrst út í síðuna vinstar megin við sig og svo beint af augum. Sá hinn sami gæti hæglega endað í sjónum aftur af skutnum stjórnborðsmegin.Það held ég nú. Kær kveðja til allra heima á Fróni héðan úr suðurhöfum, þar sem albatrosar og sæljón leika við hvurn sinn fingur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir þessar mjög svo gagnlegur upplýsingar Halldór!
Ég hef lengi velt því fyrir mér hvar síðurnar séu? Það þýðir nefnilega ekkert að segja mér að eitthvað sé hægra megin við mig og annað vinstra megin......
Hrönn Sigurðardóttir, 9.1.2009 kl. 14:26
Vá.....
En ertu búinn að fara í sturtu?
Kv. Að heiman
Guðrún Erla Sumarliðadóttir, 9.1.2009 kl. 18:31
hmm... ekki laust við að maður sé hálf áttaviltur eftir þennan lestu... held þó að bakborði sé á vinstri hönd ef maður gengur afturábak eftir stjórnborðshliðinni... ekki rétt... ?
Brattur, 11.1.2009 kl. 13:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.