18.12.2008 | 15:59
Skötuna inn á þing!
Ekki vorkennir Tuðarinn þingheimi hætishót að slafra í sig skötu í vinnunni. Helst að sjóða hana líka í þingsalnum sjálfum og byrja á því strax í dag, vel kæsta að vestan og bjóða einnig uppá selflot með til hátíðarbrygða. Er það eitthvað náttúrulögmál að þingheimur fari ávallt í frí á tilsettum tíma, sama hvernig árar? Sem atvinnurekandi þessara manna og kvenna tilkynni ég hér með að jólafríið í ár verður með alstysta móti og helst ekki nema rétt á milli kl 1800 - 2130 á aðfangadag. Séð verður um að sækja og senda þau sem þess óska. Þau geta bara sleppt ísnum og eftirréttunum og hundskast til að taka ábyrgð á aumingjaskapnum og undanlátsseminni sem einkennt hefur þessa stofnum um allt of langan tíma. Hvert mannsbarn í landinu finnur nú brenna á sínu skinni afleiðingar sauðsháttarins og meðvirkninnar sem stór hluti þessa vinnuflokks okkar þegnanna hefur leyft sér að ástunda úr hófi fram undanfarin ár. Gott ef forseti vor ætti ekki jafnvel að standa yfir skötupottunum, á meðan komist er að því hvernig taka skuli á málum með þeim hætti að hér verði yfir höfuð búandi áfram. Það er ekki eingöngu fámennur hópur sjálftökumanna, föðurlandssvikara og braskara, sem er um að kenna, heldur er þingheimur einnig meira og minna meðsekur, með einum eða öðrum hætti. Nú er síðan karpað um hvar eigi að skera niður og hvar ekki og að sjálfsögðu er enginn ánægður með neinn niðurskurð! Settar eru fram tillögur um hvar skuli spara af einum hópi, en jafnharðan rís annar upp á afturlappirnar og mótmælir, en hefur síðan engar tillögur fram að færa hvar beri að spara eða skera niður í staðinn. Þetta er málefnalegt lið, eða hitt þó heldur, sem við höfum ráðið í vinnu, samlandar góðir! Frusssss.... bara á þennan lélegasta vinnuflokk sögunnar allan saman og megi jólin verða þeim vel kæst, illa lyktandi og helst vind og verkaukandi í eftirrétt.
Annir á Alþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:05 | Facebook
Athugasemdir
Vá flott grein, - ég er dauðhrædd við skötuna og alveg sammála því að hún eigi vel við inná þingi
En ég hef samt aldrei fundið þessa margumtöluðu skötulykt, né séð skötu, og þessvegna fylgist ég alltaf spennt með þegar fólk er að ræða þessi mál yfir jólin
En hvað er selflot? vonandi er það ekki búið til úr litlum selum?
halkatla, 18.12.2008 kl. 16:36
Nei nei Anna mín. Flotið er bara gert úr stórum selum.
Halldór Egill Guðnason, 18.12.2008 kl. 16:40
... þau þurfa ekkert að sleppa ísnum... koma bara við í góðri ísbúð og fá sér bragðaref... hlýtur að skerpa hug og hönd...
Brattur, 20.12.2008 kl. 19:10
Eru ekki allar betri ísbúðir lokaðar á þessum tíma?
Hrönn Sigurðardóttir, 20.12.2008 kl. 23:48
Og hananú! Skarpur.
Gleðileg jól og vonandi gott nýtt ár.
Edda Agnarsdóttir, 21.12.2008 kl. 13:06
Bragðarefurinn klikkar aldrei í ísbúðinni sem sjaldnast lokar, já eða er oftast opin, Brattur minn. Gleðileg jól til allra nær og fjær.
Halldór Egill Guðnason, 21.12.2008 kl. 20:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.