Hrikaleg draumaflugferð.

Þessi færsla er náttúrulega bara tóm della, en læt hana standa í dag að minnsta kosti. Hér á suðurhveli jarðar er þessa stundina vitlaust veður, þó heita eigi að komið sé vor og sennilega er það veltingurinn um borð sem fær mann til að láta svona vitleysu frá sér.. 

Mig dreymir stundum að ég fljúgi, án nokkurra hjálpartækja eða vélbúnaðar. Bara einn og sér, eins og ég kem fyrir. Undarlegt, en yfirleitt hefur mér nægt að spyrna hressilega í jörðina og við það tekist samstundis á loft. Til að halda mér síðan á lofti og ná góðu flugi, þarf ég hins vegar yfirleitt að grípa til hressilegra bringusundstaka til að viðhalda jafnvægi og koma mér í rétta flughæð og stefnu, því ekki gengur að fljúga bara eitthvað út í buskann í hvaða stellingum sem er. Maður verður jú að hafa stjórn á því hvert maður ætlar, hafi maður á annað borð planlagt það fyrir brottför. Einnig er mjög mikilvægt að bera sig vel og reyna að hafa ákveðinn „þokka" yfir flugstílnum. Það gengur náttúrulega ekki að að fljúga um loftin blá á hundasundi eða einhverju ámóta sprikli. Draumflugsloftaflsfræðin leyfir ekki slíkt. Í draumflugi gildir samhæfing, áræðni, stíll og styrkur. Ekki verra að vera búinn að æfa lendingu líka.

Síðastliðna nótt dreymdi mig eina af þessum furðulegu flugferðum. Flugtakið átti sér stað í Fákafeninu og var „norður-suður brautin" í átt að Mc Donalds valin, þar sem hæfilegur mótvindur til flugtaks þótti koma úr þeirri áttinni. Tilgang flugferðarinnar man ég ekki alveg, en held ég hafi verið sendur eftir ávöxtum, þó ég þori ekki alveg að fullyrða það. Man bara að ég ætlaði að vera eldsnöggur, því það var beðið eftir því sem ég var að fara eftir. Nema hvað, flugtakið tókst með ágætum og eftir nokkur hressileg bringusundstök var ég kominn á loft í hæga aflíðandi vinstri beygju yfir Bláu húsin og Olís í stefnu eftir Suðurlandsbrautinni í átt að miðborginni. Allsnarpur hliðarvindur af suðri kom mér hins vegar í opna skjöldu er ég nágaðist Glæsibæ og ljóst að annaðhvort yrði ég að setja afturbrennarann á til að halda mínum kúrs, eða þá að snarbeygja inn í Álfheima til norðurs og reyna síðan að snarbeygja aftur inn hjá Glæsibæ til vesturs og freista þess að skjótast á milli íþróttahúss TBR og nýja turnsins, sem ég var reyndar búinn að steingleyma að væri risinn þarna. Afturbrennari reyndist ekki vera einn af staðalbúnaði mínum í þessum draumi, þannig að snarlega var tekin skörp hægri beygja til norðurs og síðan rosaleg vinstri beygja til vesturs með alla flapsa úti og rudderinn í botni, hart í bak. Gott ef það læddust ekki með nokkur skriðsundstök hægri handar í seinni beygjunni. Þessi óvænti vinkill á flugferðinni tókst með ágætum og fyrr en varði var ég kominn aftur í hæga vinstri sveigju inn að Suðurlandsbraut aftur. Flughæðin temmileg, svona vel ofan allra staura og lítið um byggingar á hægri hönd á þessari stefnu og flugmaðurinn í fullkomnu jafnvægi. Aðeins Laugardalurinn með sinn Grasagarð, Fjölskyldugarð, Laugardalshöllina og sparkvelli á hægri hönd, en frekar lágreistar skrifstofubyggingar í röðum á vinstri hönd. Þá mundi ég að ég var að fara eftir einhverju ákveðnu og í Glæsibæ, sem ég hafði svo snilldarlega skotist framhjá, var hægt að kaupa það sem ég var sendur eftir.  Ákvað að hafa augun betur hjá mér og freista þess að koma auga á aðra verslun á þessari stefnu. Á móts við Nordica Hotel eða Hilton, eða hvað það nú heitir kom ég auga á eina af þessum klukkubúðum og ákvað að sveigja aftur til suðurs og lenda á planinu þar sem eitt sinn voru seldir Sítróen bílar. Í þann mund er ég kom fyrir hornið á Nordica-Hilton fékk eg þenna líka ofsavindstreng af suðri beint í fangið, svo lá við að ég brotlenti í anddyrinu á Pizza Hut. Með snarræði og ofursundtökum og spörkum rétt tókst mér að ná jafnvægi í flugið á ný, en varð jafnframt að taka rosalega uppsvingsbeygju undan vindinum, sem bæði snarhækkaði flughæðina með ógnarhraða og um leið vék mér af áætlaðri leið svo um munaði. Nú var Tuðarinn kominn í heljarinnar hæð og stefnan allt í einu orðin beint upp á Skaga! Svona hátt hafði kvikyndið aldrei flogið. Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að hnipra mig saman í kút og hrynja til jarðar eins og drusla, eða taka á því og snarbeygja upp í vindinn eins og albatros eða múkki og freista þess að reyna lendingu áður en illa færi? Í þann mund sem ég kem svífandi á ofsahraða yfir Grand Hotel turninn kemur mikil uppstreymishviða og „túrbúlans" sem skrúfar mér enn lengra upp á við í smástund, en svo var eins og væri steindautt svæði strax þar á eftir og ég tók svakalega dýfu, með spinni, tilti, slædi og öllu sem tilheyrir "listflugi". Ég var að hrapa! Hlaut að vera lentur í vakúmi! Það fór ekkert á milli mála. Ég féll eins og krossfiskur eða ónýtt frisbí, algerlega stjórnlaust. Jörðin nálgaðist með ógnarhraða og ég sá ekki betur en ég myndi lenda beint á miðjum gatnamótunum á móts við þar sem Klúbburinn stóð í gamla daga. Á sekúndubroti rifjuðust upp öll fimmtudagskvöldin þar. Stulli á barnum á þriðju hæðinni og allt það. Ég myndi ekki eiga möguleika á að halda lífi ef ég lenti á þessum gatnamótum, með allri þessari umferð. Þó ég lifði af fallið, var alveg á hreinu að það yrði grænt ljós hjá einhverjum ökufantinum, sem myndi án efa strauja beint yfir mig. Það er jú alltaf grænt ljós hjá einhverjum á svona gatnamótum! Nei, þetta skildi ekki verða. Á augabragði beytti ég stellingunni úr krossfiskpósu í teinrétta stöðu og tók að synda eins og ég ætti lífið að leysa, sem ég reyndar átti. Náði jafnvægi og kom eins og Spitfire orustuflugvél til árásar yfir gatnamótin í glæsilegri dýfu og síðan eldsnöggri vinstri beygju inn Borgartúnið fram hjá Kaupþingshúsinu og Höfðaborgarturninum og hvað þau heita öll þessi minnismerki fyrrverandi velmegunarinnar.  Tók mikið sving með tveimur snúningum yfir frímúrarahöllina og lögreglustöðina, lækkaði flugið og hægði á mér yfir Hlemmi og flaug í fullkomnu jafnvægi niður allan Laugaveginn. Heilsaði meira að segja manni og öðrum á leiðinni. Var orðinn svo öruggur með mig neðst á Laugaveginum, að á móts við Sólon snéri ég mér við og tók nokkur baksundstök. Ég hefði betur sleppt því. Í stærilætinu bar mig örlítið af leið og þar sem Laugavegur og Bankastræti verða seint kölluð breiðstræti, hlekktist mér að sjálfsögðu á.  Það skildi enginn reyna að fljúga niður Bankastræti á baksundi. Það endar bara uppi á þaki á Caruso eða niður tröppurnar í Núllinu. Ég brotlenti sem betur fer á þakin á Caruso. Var snöggur á fætur og lét sem ekkert væri þó allra augu beindust að mér. Þóttist vera að skoða þakið og flautaði svo bara bí bí og blaka. Eftir smá stund var enginn að horfa lengur. Ég tók nokkrar léttar Mullers æfingar og teygjur, eins og ég hafði séð Þórberg Þórðarson gera margoft í fjörunni vestur á Ægissíðu í gamla daga. Var fljótt orðinn funheitur og klár í nýtt „take off". Beygði mig í hnjánum og bjóst til að spyrna með ofsakrafti. Hringir þá ekki bölvaður síminn! Við þetta brá mér svo að ég fór að sjálfsögðu úr öllu jafnvægi og kútvalt niður af þakinu, beint niður á stétt. Fjarlægðin ofan af þaki og niður á stétt dugði náttúrulega engan veginn til að ná almennilegu rennsli fyrir nýtt flugtak, auk þess sem allur ballans var fyrir bí. Í símanum var konan mín sem spurði hvort ég væri ekki að koma með það sem ég var sendur eftir. Það væri fólk að bíða.

Ég tók leigubíl til baka en gleymdi að kaupa það sem ég var beðinn um, enda mundi ég það ekki lengur. Maður getur ekki munað eftir öllu.Blush

Getur einhver ráðið þennan draum fyrir mig?Whistling

Ætli séu engin takmörk fyrir dellunni sem mann getur dreymt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Hahahaha

Halldór Superman !  Ég get ekki ráðið þennan draum en ferlega fannst mér hann fyndinn.  "Það skyldi enginn reyna að fljúga niður Bankastræti á baksundi".    Frábært að eiga bloggvini sem vara mann við því...... mér hefði ekki dottið í hug að það væri hættulegt.

Anna Einarsdóttir, 7.12.2008 kl. 16:53

2 Smámynd: Brattur

... váááá ekkert smá draumur... þú áttir að fara að kaupa eitthvað en svo var draumurinn mest um ferðalagið í loftinu og ávöxturinn sem þú áttir að kaupa skipti ekki eins miklu máli... held að þetta þýði í raun eins og eitthvert spakmælið segir;

Það er ekki ákvörðunarstaðurinn sem skiptir mestu máli, heldur ferðin á leiðinni að honum.
Svo skaltu passa þig framvegis að horfa fram á við (bringusundið) og forðast að líta til baka (baksundið) þá mun þér vel farnast. 

Held samt að þú hafir verið flugfiskur í fyrra lífil...

Brattur, 7.12.2008 kl. 19:33

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

.....Svarti kassinn? Hvar er hann á þér?

Hrönn Sigurðardóttir, 7.12.2008 kl. 21:09

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Thakka ther radninguna Brattur besti vinur. Eina sem mer datt i hug var ad thad thyddi ekkert ad senda mig ut i bud. 

Halldór Egill Guðnason, 7.12.2008 kl. 23:15

5 Smámynd: Guðrún Erla Sumarliðadóttir

VÁ....

Ekki í fyrsta skiptið sem við hlægjum af draumum þínum. Yndisleg lesning.

Lofa að senda þig ekki aftur eftir ávöxtum elskan mín.

Kv. að heiman. Et. Erla

Guðrún Erla Sumarliðadóttir, 8.12.2008 kl. 01:47

6 Smámynd: Fanney Björg Karlsdóttir

... héddna...... á hvaða lyfjum ertu....???..

Fanney Björg Karlsdóttir, 10.12.2008 kl. 15:35

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Fanney.: Það er pro.. eitthvað. Ekki profeesinal, en eitthvað styttra orð. Held það endi ak.

Halldór Egill Guðnason, 11.12.2008 kl. 12:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband