16.2.2008 | 00:47
Að kveðja hús.
Það er dálítið undarleg tilfinning að standa í tómu húsi sem verið hefur heimili manns um langan tíma og kveðja það. Sérstaklega ef manni hefur liðið vel í því og tengir það mörgum af sínum lífsins bestu stundum. Iðandi líf upp á hvern dag og nánast ekkert annað en góðar hugsanir og minningar sem renna gegnum hugann. Að standa síðan í tóminu, búið að flytja allt út og að allt í einu búi maður hér ekki lengur, er dálítið"spes". Margir ef ekki flestir sem flytja búferlum finna sjálfsagt til þessarar tómlegu kveðjustundar með söknuð í hjarta, en svo eru líka þeir og þær sem er alveg sama. Þegar ég flutti í þetta yndislega hús, sór ég og sárt við lagði að fara héðan láréttur út. Helst saddur lífdaga og í börum sveipaður hvítu líni og borinn af einum, tveimur eða þremur mönnum í svörtum jakkafötum með bindi, allt eftir lokadagsþyngd minni.
Um þessa helgi geng ég hins vegar sjálfur út í hinsta sinn úr þessu húsi og þá vonandi með ómældan fjölda lífdaga framundan og hús sem bíður mín með áframhaldandi gleði og lífi. Nýja húsið ber með sér góðan þokka og vonandi að þaðan geti Tuðarinn kannski hundskast út láréttur. Tíminn einn leiðir það í ljós. Undarlegt að taka svona nærri sér að kveðja hús, eða hvað? Ekki gott að segja, en góða helgi til allra. Merkilegt hvað maður er annars að verða meir með aldrinum. Er eitthvað til sem heitir breytingaraldur hjá körlum? Bara spyr.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:15 | Facebook
Athugasemdir
Þetta var fallegt tuð.
Kannast við svona tómlegar kveðjustundir, hús, uppáhaldsbíll, uppáhaldsveski, uppáhaldsskór, svo ég tali nú ekki um það sem börnin manns eru vaxin uppúr og maður hefur látið ganga áfram til yngri barna í fjölskyldunni.
Það er sagan manns, seð við sjálf höfum skapað, sem við erum að kveðja...kannski frekar en dauðir hlutir...þeir eru þarna sem tákn fyrir ákveðið tímabil ævinnar. Það þarf góða sál til að kunna að meta það sem gott hefur verið í tilverunni.
Svo haldið þið bara áfram að skapa góða sögu á nýja staðnum.
Svona er nú lífið æðislegt, maður getur mótað það að miklu leyti sjálfur ...eins og ef það væri úr leir í mismunadi litum OG ALLT
Marta B Helgadóttir, 16.2.2008 kl. 01:08
Æ tudarinn minn, þú ert nú svo mikill tilfinninga poki og bara yndislegur, fallega skrifað hjá þér. Megirðu njóta margra hamingjuríkra daga í nýja húsinu. Gæfan fylgi ykkur.
Ásdís Sigurðardóttir, 16.2.2008 kl. 13:17
Góðar stundir á nýjum stað.
Það er það leiðinlegasta og sorglegasta af öllu sem ég geri að flytja - ég þoli það ekki, ég er búin að búa í húsi 2 og 1/2 ár og er ekki sátt ennþá.
Edda Agnarsdóttir, 16.2.2008 kl. 13:47
Ef þú ert kominn á breytingaaldurinn Halldór, viltu þá reyna að passa að breytast ekki mjög mikið. Þú ert svo fínn eins og þú ert.
Anna Einarsdóttir, 16.2.2008 kl. 17:44
Bestu kveðjur kæru Halldór, Erla og fjölskylda hafið það sem allra best á nýja heimilinu ykkar.
Kær kveðja frá Kalla, Línu, Óla og Birnu.
P.s. Halldór minn, ég hef í ára raðir haft þann sið að kyssa hluti bless sem ég hef átt í áraraðir, sama hvort það eru skór, bíll, hús eða jakki. Þetta athæfi mitt hafa nokkrir séð og furðað sig á en vittu til það slær á mesta söknuðinn.
Karl Tómasson, 16.2.2008 kl. 22:16
Þessa tilfinningu þekki ég vel, gleymi því ekki þegar mamma og pabbi skyldu, og við fluttum út úr fallega húsinu okkar í Smáíbúðahverfinu.
Ég var sautján ára, önnur í röð fjöggurra systkina. Ekki bara mig dreymdi um húsið okkar, heldur okkur öllum sem bjuggum í því.
Ég lét drauminn ráðast, keypti kofann þegar ég var 49 ára, (sá hann auglýstan í Moggablaðinu) og ég hef ákveðið að úr því fer ég ekki sjálfviiljug, verð borin út með lappirnar á undan, þegar þar að kemur.
Halldór, kannski kaupir Strunnzan þín, húsið ykkar, einn daginn.
Til hamingju með nýja húsið!
Ingibjörg Friðriksdóttir, 17.2.2008 kl. 17:26
Nú er kominn valkostur fyrir þá sem vilja vera lausir við auglýsingar á bloggsíðum sínum. Sjá hér
Marta B Helgadóttir, 19.2.2008 kl. 17:20
Ingibjörg Friðriksdóttir, 24.2.2008 kl. 19:18
Breytingaskeiðið hjá körlum kallast "grái fiðringurinn"! Hann herjar á suma..... Gangi þér vel í nýja húsinu.
Vilborg Traustadóttir, 25.2.2008 kl. 21:39
Getur verið svolítið skrýtið að flytja, alveg sammála, stundum fær maður þó eitthvað betra í staðinn, sem betur fer.
Ég fleygði þér algjörlega óvart út þegar ég var að vesenast í bloggvinum, fleygði út öllum bloggvinum sem eru hættir (nema Hrólfi, held enn í vonina að hann byrji aftur) og henti þeim sem voru tvisvar inni og hviss bang, þú hvarfst og það í báðum eintökum. Vona að þú fyrirgefir mér þetta.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 26.2.2008 kl. 16:41
Til hamingju með nýja heimilið
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 26.2.2008 kl. 17:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.