Sprengingar á átakasvæði.

Tuðarin hefur undanfarna daga verið að koma sér fyrir í nýju húsi í hinni vinalegu Álafosskvos. Yndislegur staður og sjaldgæft að því er hagvanir segja, að nokkurn tímann hreyfi vind í þessum unaðsreit. Í versta falli lagður vegstubbur endrum og sinnum, en þess utan ekki mikið sem raskar ró íbúanna á þessum slóðum, eða fær þá til að verða "tens". Í kvöld brá hins vegar svo við að Kvosarhúsið utan um tuðarann var alveg við það að takast á loft vegna djöfulgangs í veðrinu. Vatn frussaðist inn um flesta glugga og vindurinn slíkur að ekki var stætt á að vera mikið utandyra. Eiginlega bara tóm vitleysa að vera á ferðinni "svona yfir höfuð", hvað svo sem það nú merkir. Brattur besti vinur á eflaust skýringu á þessu undarlega orðatiltæki. Milli klukkan níu og tíu í kvöld klikktu veðurguðirnir út með því að senda þvílíka eldingu og sprengingu í kjölfarið á þennan dýrðarstað miðjan, að Tuðarinn nánast mé þar sem hann stóð og er þar engu um logið. Allt varð uppljómað eina örskotsstund og strax í kjölfarið kom þessi líka ofboðslega sprenging. Sem sagt elding og þruma beint í æð! Nánast við hliðina á Tuðaranum og hann þessi líka djölfusins kveif, þegar rafmagn er annars vegar! Skar eitt sinn hérumbil af sér nefið við fikt í rafmagni, en það er hins vegar efni í aðra færslu síðar meir. Ekki að sökum að spyrja með kvikyndið þegar blossinn og bomaban riðu yfir. Hann bókstaflega tókst á loft og reyndi af veikum mætti að koma sér í skjól, en það er fátt um felustaði í tómu húsi. Engin borð að henda sér undir, hvað þá rúm eða aðrir felustaðir sem mælt er með undir kringumstæðum sem þessum, af Almannavörnum ríkisins. Ekki kom til greina að hlaupa út í fasið á rafmagnsbombunum, svo skíthræddur Tuðari tók sér tak, sló sig utanundir og sannfærði sjálfan sig um að elding og síðan þruma, vörðu  yfirleitt ekki nema brot úr sekúndu og því engin ástæða til að hlaupa undir rúm, borð eða annan húsbúnað sem var hvort eð er ekki einu sinni á staðnum. Að loknum einhverjum erfiðum sekúndum eða mínútum, þegar hjartað hafði verið dregið neðan úr vinstri buxnaskálminni á sinn stað, ákvað Tuðarinn að hlaupa út í bíl og reykspóla heim í hitt húsið, þar sem nóg er af rúmum og borðum að skríða undir. Það hafðist og meira að segja alla leið að tölvunni, en þaðan á líka að demba sér undir rúm eins og ónefnd vinkona mín fyrir austan fjall er gjörn á að gera.

Magnaður fjandi hvað veðrið getur orðið snælduvitlaust annars.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ertu svona ofbeldisfullur ?    Sláðu þig strax aftur til baka... þú lætur ekki fara svona með þig !

Anna Einarsdóttir, 8.2.2008 kl. 23:05

2 Smámynd: Brattur

... "svona yfir höfuð" þýðir að eldingin sé mjöööög nálægt höfðinu á þér og svíði af þér hárið... og þá verður þú kollóttur... þá kemur löggan og kærir þig... því það er stranglega bannað að vera kollóttur...

þ.e. helv.... löggan kærir þig kollóttan, kæri Halldór...

Brattur, 8.2.2008 kl. 23:13

3 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Vonandi ertu hættur þessum slagsmálum, of þröngt undir rúmum.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 8.2.2008 kl. 23:20

4 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Marta B Helgadóttir, 9.2.2008 kl. 00:56

5 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Það hefur mikið gengið á Halldór minn! Þú verður að hringja í okkur sveitavarginn oog biðja um aðstoð til að róa þig!

Edda Agnarsdóttir, 9.2.2008 kl. 01:17

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hér komu margar eldingar - ég slökkti strax öll ljós, alltaf að spara, og skreið undir rúm

Hrönn Sigurðardóttir, 9.2.2008 kl. 10:38

7 identicon

Ég hélt þú værir kominn í friðargæsluna þegar ég sá fyrirsögnina...

Geri annars ekki lítið úr ótta við veðrið. Þegar ég var á Sri Lanka, þar sem sprengingar voru daglegt brauð, varð ég aldrei jafnhrædd og þegar regntímabilið var að byrja. Það hafði ekki komið dropi úr lofti mánuðum saman. Bara alltaf sól og heiðskírt. Svo allt í einu heyrist þessi líka svakalega sprenging, rafmagnið fór af og ég man ég hugsaði: "Þetta er búið. Nú er verið að sprengja húsið í loft upp!". Ég stökk á fætur og hljóp fram í aðalrými skrifstofubyggingarnar, titrandi og skjálfandi. Þar voru fyrir allt innlenda starfsfólkið, og sem bókstaflega veltist um af hlátri yfir hræðslunni í mér. Það var sem sagt bara að byrja að rigna og hávaðinn var ekki sprengja heldur þruma....

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 11:42

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hér voru sko þrumur og eldingar í gærkvöldi og rosa fjör, mér finnst þetta svo spennó, því meiri hávið því betra. Settist út í glugga til að bíða eftir blossa og bombum.  Já, ég er skrítin. 

Ásdís Sigurðardóttir, 9.2.2008 kl. 22:11

9 Smámynd: Karl Tómasson

Þessi tegund sprenginga er óalgengari á vesturbakkanum.

Bestu kveðjur frá átakasvæðinu.

Karl Tómasson, 10.2.2008 kl. 08:26

10 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Þessi bomba var nú ætluð öðrum en þér, svo ég tek undir með formanninum.  Sláðu þig strax til baka og lumbraðu svo á þeim sem eldingunni var ætluð.

Varstu einn heima?  Þú ert heppinn að eiga í fleiri hús að vernda, og svo áttu þessa líka frábæru bloggvini, sem eru örugglega tilbúnir að róa þig niður, eða veita þér áfallahjálp að hætti hússins. Eitthvað gott að drekka og snakk með.  

Siggi stormur segir veðrið verða með svipuðum hætti út febrúar, en þann 14. mars  verður það gengið niður þannig að okkur bloggvinum með tattoo er ekkert að vanbúnaði. 

Ingibjörg Friðriksdóttir, 10.2.2008 kl. 09:46

11 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég sé að þetta hefur verið ívið verra veður en þegar konan sagði,, það er ekki hundi út sigandi hann pabbi þinn fer,,

Högni Jóhann Sigurjónsson, 10.2.2008 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband