4.12.2019 | 23:04
Eigin lestir, ruv og Samherjaskjöl.
Tuðarinn fylgist með þjóðfélagsumræðunni eins og honum er best kostur búinn hverju sinni. Langtímum saman utan allrar umræðu um málefni dagsins, dettur kvikyndið af og til inn í heitar umræður líðandi stundar og er oft orðið svo mál að láta heyra í sér, að ekki sér ávallt til sólar í bullinu sem upp úr honum vellur. Oft langar hann að öskra á ritvellinum, á fálesinni síðu sinni, um hin ýmsu málefni. Fyrr á tíð lét hann gamminn geysa og hefur eflaust oft á tíðum misstigið sig í blótsyrðum um menn og málefni. Hreytt ónotum í fólk og verið sannast sagna bölvaður ritsóði.
Við þeim misgjörðum öllum gengst Tuðarinn algerlega og biður alla, sem hann hefur sært eða meitt með orðum sínum innilegrar fyrirgefningar, nema að sjálfsögðu þeim sem áttu það svo innilega skilið. Punktur.
Fyrirgefningarkafla lokið. Mál að hefja annan, sem sennilega þarf að byðjast fyrirgefningar á síðar meir, en látum það liggja milli hlutar.
´´Samherjaskjölin´´ tröllríða nú flestallri umræðu og fram á rit og umræðuvöll pólitískrar vinsældaumræðu ösla nú misheppnaðir burtreiðarsveinar glataðra hugsjóna, steingeldir af heilbrigðri skynsemi eða svo miklu sem hinum minnsta skilningi á því hvernig kaupin gerast á Eyrinni um víða veröld. Veröld sem aldrei hefur snert þessa vinsældasæknu hugsjónageldinga svo mikið sem eina sekúndu fram að þessu.
Nú rekur á fjörur þeirra vopn og í vandlætingu sinni og fordæmingu, koma þeir upp um eigin aumingjaskap og fákunnáttu. Samherja skal knésetja með öllum ráðum og helst koma því svo fyrir að namibíska þjóðin svelti, sökum misgjörða Samherja! Áttatíu prósent þjóðarinnar búi í bárujárnskofum, því Samherji veiðir hrossamakríl í landhelgi þeirra. Það er nefnilega það. Trauðla gerist ´´fréttasnápsmennska´´ömurlegri.
Samherji er ekki óvinur namibísku þjóðarinnar. Versti óvinur namibísku þjóðarinnar eru Namibíumenn. Þeirra eigið fólk. Gerspilltir pólitíkusar sem svífast einskis, allt frá lægst setta kvikyndinu sem stimplar pappíra, upp til forseta landsins og öllu sem honum fylgir.
SWAPO er hið eina sanna mein, enda sósalískt hugsandi stjórnmálasamtök, þar sem svínin eru ávallt ´´aðeins rétthærri´´ en hin dýrin. Hafa haft taglir og haldir frá því landið hlaut sjálfstæði. Grafið um sig hægt og bítandi. Það er hinsvegar ekki talin ástæða til að kanna það neitt frekar, því niðurgreiddir, ríkisreknir fréttasnápar frá Íslandi telja sig nú hafa fundið ástæðu eymdarinnar í Namibíu. Samherji skal sökudólgurinn vera og með niðurgreiddan ríkisfjölmiðil að vopni arka nú rúvískir fréttasnápar um auðnir efnahagslífs Namibíu og fá það út að fólk svelti og búi í bárujárnsskúrum, því íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki sá sér leik á borði að nýta rándýr atvinnutæki sín til verðmætasköpunar. Nokkuð sem stríðöldu svínunum auðnaðist aldrei. Til að svo mætti verða, varð að fóðra elítuna. Ekkert nýtt við það. Þeir sem halda öðru fram, hafa hvergi verið, hvergi farið, ekkert markvert upplifað, eða séð út fyrir heimóttalegan túngarð sinn og hugmyndasnauð steingeldra hugsjóna sinna. Svo ekki sé nú minnst á fullveldisafsalsdrauma sama slektis. Ömurlegri verður tæpast umræðan.
Fróðlegt væri að taka saman hvar fréttasnápar kveiks voru, árin 2009 til 2011, þegar þúsundir fjölskyldna í þeirra eigin heimalandi, voru bornar út á götu og settar í ígildi namibískra bárujárnsskúra, í nafni hinnar fyrstu tæru vinstristjórnar Gránu gömlu og Þistilfjarðarkúvendingsins?
Hvar var seljanið þá, eða kveikurinn? Hvursu margir þættir hafa verið framleiddir af RÚV um framsal tæru vinstri stjórnarinnar á skuldbindingum húsnæðiseigenda, eða hvernig lánasöfnin voru nánast gefin hrægömmunum á brotabrotsverði, til þess eins að þeir gætu rukkað inn skuldina að fullu, með tilheyrandi hörmungum, en bónusum fyrir þá sem innheimtu? Hvar var skítseiðið seljanlega þá? Hvar var seljan-legið þegar bjálfinn Árni Páll fann upp 110prósentin? Hvers vegna er Þistilfjarðarkúvendingurinn Forseti Alþingis í dag?! Hver gerði Gerði greiða um árið, hver gerði Gerði bommsíbomsíboms? Hver bjargaði Sjóva sjóvá sjóvá? Hver geldur greiða í dag fyrir gamla greiða. Hvar liggja mörkin spillingar? Namibía, Ísland, Argentína.......sami grautur í sitthvorum pottinum.
Tuðaranum liggur við uppsölum af lestri fyrirsagna og fullyrðinga fólks, sem minna veit en ekki neitt og eins hinna sem telja sig allt vita, en vita í raun minna en ekkert annað en það sem snýr að eigin rassgati. Það er nú ekki merkilegur sjóndeildarhringur, en sósíalismanum og fullveldisafsalssinnunum samkvæmur.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.