7.7.2014 | 01:55
Íslendingar eru furðulegt fólk.
Tuðarinn er tengdur rekstri tveggja fyrirtækja, nálægt þeim stað, er eldsvoðinn í kvöld átti sér stað. Um leið og boð bárust um þennan eldsvoða straujaði kvikyndið sér á staðinn, til að loka gluggum, slökkva á loftræstikerfum og öðru slíku, sem auðséð var að þyrfti að gera. Á leiðinni á staðinn glumdu skilaboð í útvarpinu til borgarbúa, um að halda sig fjarri vettvangi brunans, svo tryggja mætti aðgengi lögreglu og slökkviliðs, auk björgunarsveita, því ljóst þóttti, að hér var STÓRBRUNI í gangi.
Hvað blasir svo við Tuðaranum, þegar hann nálgast svæðið? Jú, það er engu líkara en kominn sé 17. júní og allir á staðnum til að "njóta" gleðinnar. Þvílíkt og annað eins samansafn af fólki hefur ekki sést í þessum bæjarhluta, frá því annar stórbruni varð þar sem Tuðarinn rekur nú sitt hafurtask. Eina sem vantaði í þetta sinn, var hoppukastali fyrir börnin.
Þið verðið bara að fyrirgefa mér, samborgarar góðir, en þó sjónvarpsdagskráin sé léleg, er svona fjöldasamkoma fáránleg!
Í kvöld töpuðu eigendur fyrirtækja, sem brunnu, óheyrilegum fjármunum og vinnu. Að horfa upp á það að slökkvibílar og lögregla komist ekki leiðar sinnar, sökum "BJÁLFA", er ömurlegt. Þegar slökkvibíll Reykjavíkurflugvallar kom á svæðið, þurfti hann að bíða í hringtorgi, með öll ljós logandi og þegar slökkvibíll slökkviliðsins í Sandgerði reyndi að komast að, komst hann hvorki lönd né strönd, fyrir bjálfum, sem datt í hug að bjóða sjálfum sér eða öðrum fjölskyldumeðlimum í eyðileggingar "on the spot" bíltúr.
Kvikyndið sem þetta ritar er svo gjörsamlega dolfallið, yfir fíflagangi samborgara sinna, að það á ekki orð. Þvílíkur sirkús!
Slökkvilið, lögregla og björgunarsveitir eiga hins vegar heiður skilinn, fyrir frammistöðuna.
Borgarar Reykjavíkur falla algerlega á prófinu og fá ekki einu sinni -1, hvorki fyrir frammistöðu eða viðleitni.
Hvað gerist ef GÝS í borgarlandinu? Fara þá allir í bíltúr?
Góðar stundir.
Hlustið, færið ykkur! | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.