Færsluflokkur: Bloggar

Kosningar um skoðanakannanir?

Kosningar á næstu grösum og enn bíður undirritaður eftir því að einhver flokkanna leggji nú fram málefnalista af einhverju viti og skynsemi. (Mun sennilega fyrr frjósa í neðra en að maður upplifi eitthvað þesslegt) Flestir flokkar niðurgrafnir í skoðanakannanpælingum og megnið af tíma fjölmiðla varið í að spá fyrir um hverjir myndi stjórn ef þessi eða hin árans könnunin gangi nú eftir. Og þessar líka "ofurvönduðu" kannanir, eða hitt þó heldur. Má vera að ég standi vel undir nafni sem einn af verri tuðurum sem finnast, en finnst kominn tími til að flokkarnir og þeir sem að þeim standa fari að leggja fram matseðil næstu fjögurra ára, svo hægt sé að fara að gera upp hug sinn og velja úr þessari flokkasúpu sem í boði er. Örfáar vikur til kosninga og ekki einu sinni búið að stilla upp listum hjá nýjasta afsprenginu í pólitíkinni. Ekki rætt um annað en umhverfismál og annað nánast komið út af kortinu að því er best verður séð. Hver svo sem niðurstaðan verður munum við öll þurfa að hlýta henni, en það breytir ekki því að það er lágmarkskrafa okkar aumra kjósenda að það liggi fyrir í stærstum dráttum að minnsta kosti, hvað menn ætla sér að gera næstu árin ef þeir ná á þing. Það er ekki nóg að predika stöðvun á atvinnuuppbyggingu til sjávar og sveita en geta ekki bent á úrræði sem nýtast landslýð, í stað þess sem stöðva á eða fella niður. Hef sagt það áður og best að segja það einu sinni enn.: Finnst að ætti hreinlega að banna þessar árans kannanir 50-60 dögum fyrir kosningar og leyfa fólki að hafa frið til að ákveða sig, en ekki síður til að neyða flokka og frambjóðendur til bera á borð ætan málefnagrundvöll, sem ræddur yrði af einhverju viti þessa daga. Einnig leyfi ég mér að setja stórt ? við að hægt sé að koma fram með ný framboð svona skömmu fyrir kosningar, en það er að sjálfsögðu bara árans tuð eins og annað hjá mér.  

Vatnsþynnt og aukaefnalaus gagnrýni

Heldur var hún vatnsþynnt og kraftlítil gagnrýnin sem Kompás kom með í kvöld varðandi íblöndunarefni í matvælum. Staðfest að allt að 20% af verði margra vörutegunda er fyrir vatn og allt í góðum gír. Hversu margir ætli hafi til að mynda vitað að það væri sykur í úrbeinuðum kjúklingabringum? Ég bara spyr. Ekki minnst einu orði á að samhliða innsprautun á alls konar sulli í vöruna er hún einnig viktuð í umbúðunum að því loknu. Hvað ætli sé notað mikið af umbúðum alls konar utan um matvæli á Íslandi á ári? Þau eru eflaust mörg tonnin af alls kyns plasti sem sem vegna þessara aðfara er selt á allt að 2500 krónur kílóið. Sýnir enn og aftur hve auðvelt er að hafa okkur að elgerum rötum og ekki einu sinni hægt að taka hressilega á málinu af þeim sem telja sig besta í að fletta ofan af alls konar misfellum í samfélaginu. Kompás á margt gott skilið en eitthvað virtist mér nálin í honum flöktandi og illa stillt á kúrsinn í kvöld. Beið spenntur eftir þættinum þar sem þetta sull með matinn okkar hefur lengi farið fyrir brjóstið á mér. Sat eftir hundsvekktur og fannst lítið til um efnistök Kompásfólks koma. Hefði til að mynda mátt steikja einn hamborgara á "sértilboði" og fylgjast með honum engjast sundur og saman en þó aðallega saman á pönnu eða grilli þar til hann væri kominn niður í þá stærð sem ég fullyrði að er meiri en sem nemur 20% rýrnun. Vikta síðan leifarnar og reka mismuninn ofan í þá sem segja rýrnunia aðeins vera þetta svona sirka bát hérumbil umþað bil 7-10 % eða þar um bil hérumbil bla bla bla. "Þungbrýnd" (en jafnframt algerlega áhrifalaus fyrir löngu) ásjóna forustumanns Neytendasamtakanna skelfir ekki nokkra sál í þessum iðnaði frekar en hún stappi stálinu í okkur neytendabjálfana sem ekkert aðhöfumst frekar en fyrri daginn. Við neytendur erum sjálfsagt eftir sem áður mestu ratarnir að gera ekkert með þetta mál og sennilega bara gott á okkur að úðað sé í og yfir matvæli okkar allskonar virðisaukandi glundri. Þetta íblöndunarhlutfall sem prósenta er nokkuð sem við erum jú orðin vön ekki satt? Við borgum vexti í bönkum sem liggja á þessu bili þannig að það er kannski bara ágætt að hafa þetta svona áfram. Þá muna að minnsta kosti allir hvaða prósenta er í gangi.

Svínarí á kjötmarkaði!

Skilst að í Kompási annað kvöld verði tekið á máli sem löngu er orðið tímabært að hrist væri ærlega upp í. Íblöndun á alls kyns þyngdaraukandi og vatnsaukandi efnum í matvöru og þá sérstaklega í nánast öllu kjöti bæði af fuglum sem fjórfætlingum. Hver kannast ekki við hamborgaraómyndina sem verður nánast eins og baun á grillinu og þarf eiginlega að troða þremur í eitt brauð svo úr verði ærlegur munnbiti. Að auki er lögurinn sem lekur úr þessum ófögnuði þræleldfimur svo maðu má hafa sig allan við reyna að hemja eldhafið samhliða steikingunni. Þessi sami hamborgari sem að ummáli var álíka mikill og svert rör áður en kom að steikingu.

Það er nánast alveg sama hvaða kjöt er tekið fyrir hér á landi. Það er meira og minna orðið þrútið af allskonar efnum og vatni til þyngdaraukningar. Vonandi hristir Kompás vel upp í umræðunni um þetta. Nöturlegt að þurfa að greiða á þriðja þúsund krónur fyrir vöru sem að einum fjórða eða jafnvel meiru er bara vatn og aukaefni og ef bjóða á fjórum í mat þurfi ávallt að kaupa mat fyrir fimm til sex manns svo allir fái nóg. Vonandi verður tekið hressilega á þessu.   


Vantar eitt núll á Íslandi?

Það er ekki af Kananum skafið. Annað hvort allt eða ekkert hjá þeim. 800 ár er náttúrulega fáránleg tale en tryggir að þessi ógæfumaður mun aldrei úr fangelsi sleppa það sem hann á ólifað. Hér á landi komast menn hins vegar upp með fremja samskonar voðaverk tíu tuttugu sinnum hljóta dóm og afplána en byrja síðan á ný er út er komið. Sé ekki annað en að það vanti eitt núll aftan við tímalengd refsirammans hér á landi ef við eigum að miða okkur við aðrar þjóðir eins og svo vinsælt er. Jafnvel þó heimild sé til að dæma menn í mun lengra fangelsi en gert er í dag er það ekki gert því þetta hefur bara einhvern veginn alltaf verið svona. Kominn tími til að breyta þessu og það ekki seinna en í gær. 
mbl.is 800 ára fangelsi fyrir kynferðislegar misþyrmingar á þrem börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forgangsfrétt?

Klúðraði einni færslu og sendi út í buskann rétt áðan um það að mér fyndist undarlegt að dauði Önnu Nicole og afsögn eða uppsögn aðalmannsins hjá Cartoon Network væri talið mikilvægara fréttaefni hér á mbl.is en þessi niðurstaða Héraðsdóms. Hver á mest í Mogganum? Jú einn af þeim sem hvítþvegnir voru í dag fyrir tilstuðlan máttleysis og roluháttar ákæruvaldsins. 

Ekkert mál.

Dálítið skrítið hvað þessi frétt er slegin hratt niður á forgangsfréttalista forsíðunnar hér á mbl. Afsögn forkólfs hjá Cartoon Networks og dauði Önnu Nicole Smith virðast liggja nær ritstjórninni að hafa sem uppsláttarfréttir í forgangi. Ekki dónalegt að geta falið þessa frétt um frávísun Héraðsdóms í máli á hendur eins af aðaleigendum blaðsins á bak við stórviðburði sem þessa þarna í Ameríkunni. Hissa á að fólk finni vonda lykt af þessu öllu saman? Nei ekki aldeilis.

Til hamingju Ísland!!

Jæja góðir hálsar. Til hamingju Ísland! Það er komin fram á sjónarsviðið pottþétt uppskrift fyrir hið fullkomna samráð í viðskiptum sem enginn af þeim sem samráðið hyggjast framkvæma þarf að hafa áhyggjur af að verða nappaður fyrir. Ísland er að sjálfsögðu hinn kjörni vettvangur enda hægt orðið að gera nánast hvað sem er hér á landi og komast upp með það eins og dæmin sanna undanfarna daga vikur mánuði ár áratugi og jafnvel heilu aldirnar. Hér ekki einu sinni til staðar ákæruvald sem getur matreitt borðleggjandi svínarí og lagabrot með þeim hætti að hægt sé að lögsækja skúrkana sem brotlegir gerast.  Svei réttarfarinu á Íslandi og nánast öllum sem að því koma bæði framkvæmda og dómsvaldi. Spilling.... hvernig dettur nokkrum manni í hug að hún viðgangist hér í draumalandinu?  Fusssssssumsvei á þetta allt saman.   


mbl.is Máli gegn olíuforstjórum vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndislegt faðmalg?

Yndislegt faðmlag. Lengra en nokkurn mann eða konu getur órað fyrir. Vona bara að það hafi verið innilegt og með góðum vilja en ekki þvingað á altari fornrar fórnar. Ef innilegt og óþvingað--falegasta faðmlag allra tíma.
mbl.is Í faðmlögum í 5.000 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íran USA og ógnin

Dálítið merkilegt hve kananum tekst að gera alla sem honum ekki líkar að algerum djöflum. Hef verið í Íran og þó pólitísk refskák standi nú yfir milli "mannvinarins" Georhe Bush og Íranstjórnar um sjálfstæði þess síðarnefnda til eigin orkuframleiðslu get ég ekki með nokkru móti séð hvernig "Bushmenn" geti leyft sér að hafa slíkt ægivald á öllum alls staðar að jafnvel efnahagskerfi alls heimsins þurfi að þjást fyrir. Íranar eru yfir 70.000.000. að tölu. Ætlar heimurinn bara að fylgja ofstækismanninum í Wasington að ystu mörkum veraldar og halda að með því sé björninn unninn? Það eru ekki nema 10-20 ár í það að Kína verði orðið öflugra en USA og þá kann að verða erfitt að réttlæta fylgispeki við þennan ofstopamann sem titlaður er sem valdamesi maður í heimi.

Hlustum á hvað Íran hefur að segja og liggjum ekki flöt fyrir einsleitum fréttaflutningi vestrænna miðla sem í allt of mörgum tilfellum er litaður af blindri þjóðernishyggju og gagnrýnislausum fréttafutningi af "ameríska draumnum"

Alveg eins og við hér á klakanum viljum halda okkar sjálfstæði ætti öllum öðrum annars staðar í veröldinni að vera gert kleift að láta rödd sína heyrast. Ef einhver er þessu ekki sammála er það í góðu lagi. Frelsi til að segja það sem manni finnst er þá alltént enn til staðar og það er það sem málið snýst um.

 


mbl.is Larijani segist ætla að ræða við vestræna erindreka í Munchen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulag og "nýbúar" í Mosfellsbæ.

Það er heitt í kolunum í  Mosfellsbænum þessa dagana. Ný tengibraut sem tengja á hið nýja hverfi sem rísa á í landi Helgafells er orðið að meiri háttar hitamáli og hefur reyndar kraumað undir niðri í talsverðan tíma innan bæjarfélagsins. Sitt hefur hverjum sýnst um ráðagerð þessa og hafa bæjarbúar skipað sér í tvær fylkingar óháðar pólitík um það hvort gjörningur þessi eigi rétt á sér eður ei. Það sem vekur furðu mína er að þetta skipulag sem hefur verið til staðar í ansi langan tíma með tilheyrandi lögboðnum kynningum og umhverfismati og Guð má vita hverju án þess að til neinna róttækra aðgerða eða teljandi mótmæla hafi verið gripið fyrr en nýlega. Einhver kurr hefur reyndar verið um framkvæmdirnar en án þess að mikið hafi fyrir því farið. Það virðist sem fólk átti sig aldrei á neinu fyrr en jarðýturnar mæta á staðinn og hefja á framkvæmdir. Þar er engum öðrum um að kenna en íbúum sjálfum sem eiga að vera vakandi yfir því sem yfirvöld bera á borð og hyggjast framkvæma. Það að sveitarfélög auglýsi eftir athugasemdum og kynni fyrirhugaðar framkvæmdir virðist ekki á nokkurn hátt hreyfa við velflestum fyrr en kemur að því að framkvæma. Sárafáir senda inn athugasemdir við flestu því sem framkvæama á og gildir litlu hvar á landi það er. Síðan ætlar allt vitlaust að verða þegar kemur að stóra deginum er framkvæmdir eiga að hefjast.  Þá rjúka ýmsir upp til handa og fóta og kunna sér varla hófs í djöfulganginum. Þegar kemur að því að mótmæla er öllu til tjaldað og ekki slæmt að eiga fyrrverandi sendiherrafrú sem nýlega hefur úthúðað bænum sem skítugri vegasjoppu fra Ameríku sem undanfara í fínum pels framan við jarðýturnar. Af greinarskrifum pelsklædda forkólfsins er ekki með nokkru móti hægt að sjá hvað í veröldinni hún og hennar ektamaki sem reyndar nennir ekki að búa í þessari skítugu kanasjoppu eru eiginlega að hefja upp raust sína í þessu máli. Alltaf gaman að finna til sín á ný en spurning hvar og hvenær það hentar best.

Sé ekki að þessi vegalagning að nýja hverfinu þurfi að vera neitt stórmál sem krefjist þess að nýbúar bæjarins fari hamförum í fjölmiðlum með skítkasti á bæjarfélagið sem þau völdu sér. Okkur hinum sem í bænum búa er hjartans sama hvort þau eru meðal vor eitt sér eða í smærri hópum sem ekki nenna að búa hér.

Einföld lausn varðandi þennan vegfjanda væri að leggja hann ofan við núverandi efstu byggð bæjarins og lágmarka þannig rask sem ávallt fylgir nýjum hverfum. Þeim sem ekki líkar bæjarímyndin og eru þess umkomin að kalla bæinn skítuga ameríska vegasjoppu ættu að koma sér aftur á vesturgötuna eða eitthvað annað í 101. Þar er jú elítan og engin hætta á að þurfa að óhreinka fínu pelsana framan við jarðýtur eða annað óþarfa drasl.   


mbl.is Vegaframkvæmdir í Mosfellsbæ kynntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband