Niðurlæging í útlöndum.

Tuðarinn er nýkominn aftur til landsins eftir hátt í sjötíu daga fjarveru á hjara veraldar. Ferðalagið heim var bæði langt og strangt. Eftir tæplega fimmtán tíma flug frá Buenos Aires til London, var kvikyndið tekið í "Rutine Check" af yfirvöldum á ömurlegasta flugvelli veraldar, Heathrow. Niðurlægingin og skömmin sem ég mátti þola var slík að það var varla orðinn einn einasti fersentímeter á kroppnum, sem ekki bogaði af sviti. Var "pikkaður" úr röðinni eftir vegabréfaeftirlitið og látinn setja töskurnar á langt spegilgljáandi ryðfrítt stálborð og látinn opna þar handtöskuna, auk þess sem embættismaður hennar hátignar skar með hníf plastfilmuna utan af stærri töskunni, svo hægt væri að opna hana. Töskuna nota ég sennilega ekki aftur, þar sem hnífsegg embættismannsins risti hana svo illa. Ekki var farið afsíðis með mig, heldur fór þetta allt saman fram fyrir framan farþega sem gengu hjá í hópum og hafa sennilega álitið mig stórhættulegan terrorista sem verið væri að taka á teppið. Hver einasta spjör rifin upp úr töskunum, bæði skítugar og hreinar, auk þess sem breitt var úr skjölum og pappírum eftir endilöngu borðinu. Þar lágu áður en yfir lauk, trúnaðarskjöl og skýrslur innan um skítugar nærbuxur og illa lyktandi sokka. Embættismaðurinn lét sem hann hefði handsamað Osama Bin Laden og bókstaflega tætti í sig farangurinn, auk þess sem hann kallaði til fíkniefnahundaliðið og lét fartölvuna á gólfið með tómri handtöskunni svo hundurinn gæti þefað af herlegheitunum. Meðan á þessu gekk, gengu farþega framhjá okkur sem "eftirlitsmaðurinn" rak áfram með hrópum og köllum eins og algera vanvita. Hvað gerir maður annars þegar framan við mann liggur fartölva og ferðataska, annað en að hægja á sér og kanna málið? Skoða illmennið sem verið er að "bösta" og renna augunum yfir farangur hans sem ligggur eins og nýlistarverk eftir endilöngu spegilfægðu stálborðinu? Eftir því sem betur varð ljóst að saklaus sál ofan af Íslandi, hafði ekkert vafasamt meðferðis, var eins og embættismaðurinn gerðist enn staðráðnari í að auka á niðurlæginguna. Háværar spurningar um allt og ekkert og alls kyns bendingar og líkamstjáning þessa valdsins manns urðu á köflum slíkar, að Tuðarinn beið bara eftir því að verða járnaður af sérsveitarmönnum og snúinn í gólfið. Það gerðist þó ekki og hraðar en maður hnerrar, var sagt "you can go" og eftir stóð ég eins og ég veit ekki hvað við borðið, með allan farangurinn og mátti gjöra svo vel að pakka honum einn og í smærri hópum. Leið eins og ég hefði orðið fyrir eldingu. Sópaði saman spjörunum og ætlaði að moka þeim í töskurnar, en þá voru þær allt í einu ekki nógu stórar, altso töskurnar. Mundi þá að þegar ég pakkaði, var hver einasti ferrúmsentímeter þaulskipulagður og öllu raðað í röð og reglu. Fékk skyndilega nóg, henti því sem ekki var talið bráðnauðsynlegt í ruslatunnu, lokaði töskunum, raðaði þeim saman og hélt áfram í sam"floti" með þeim sem runnu framhjá. Gekk gegnum hurð og fram í stóran sal, leitaði að auðu sæti, settist og reyndi að byrgja inni öskrið. Það tókst og eftir klukkustundar"afslöppun" hélt ég áfram göngu minni um þennan ömurelgasta fluvöll veraldar. Þessi andskoti hlýtur að hafa átt reikning hjá ICESAVE hugsaði ég og komst að þeirri niðurstöðu að niðurlæging mín væri sennilega tveimur "Úlfum" að kenna, ásamt fólki af svipuðu kaliberi. Andskotinn bara að þurfa að vera íslendingur þessa dagana og ferðast um heiminn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

Þetta er rosaleg frásögn Halldór... maður þykist bara vera Dani þessa dagana í útlöndum... en ég komst bara í vont skap fyrir þína hönd að lesa þessa um þessa framkomu við þig... arg...

Hvernig er annars Buenos Aires ? Á mér þann draum að heimsækja þá borg einhverntímann.

Brattur, 14.10.2009 kl. 22:18

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Já Brattur, þetta var verulega "töff". Fyrir hlédrægt og feimið kvikyndi sem aldrei hefur gert flugu mein, var þetta sennilega það næsta sem maður kemst því að vera tekinn í....þú veist. Ömurleg niðurlæging.

Buenos Aires er hins vegar óborganleg og þar mætti eyða mörgum dögum, án þess einu sinni að sjá  nema brot af því sem borgin hefur upp á að bjóða, en líka það sem borgin hefur ekki boðið allt of mörgum sem þar búa og hafast við. Öfgarnar eru algerar, en það er nú ekkert nýtt. Til að trúa, þarf maður að sjá og eftir að hafa séð bæði gott og slæmat við borgina, átta ég mig sífellt betur á því, hve gott er að búa á Íslandi.

Halldór Egill Guðnason, 15.10.2009 kl. 01:20

3 Smámynd: Karl Tómasson

Ótrúlega skemmtileg lesning minn kæri. Afsakaðu hlátur minn, bókstaflega upphátt við lesningu þessa pistils af hrakförum þínum.

Þú ert skemmtilegur penni Halldór og færð mann alltaf til að lifa sig vel inn í atburðarásina.

Bestu kveðjur úr Tungunni frá Kalla Tomm og kó.

Karl Tómasson, 15.10.2009 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband