24.4.2009 | 11:20
Sextán snjóhvítar trönur.
Rétt í þann mund sem sólin sýndi sig í morgun, í fyrsta sinn í marga daga, settust sextán snjóhvítar trönur á þilfarið hjá okkur. Sennilega til hvíldar á löngu flugi norður á bóginn til heitari svæða. Virkilega fögur sjón og á vissan hátt dulítið myndræn og absúrd, svona í morgunnepjunni. Mong , kínverskur aðstoðarmaður minn, kallaði þegar í stað á landa sína sem þustu upp á dekk til að sjá þessa fögru sjón og það var engu líkara en þeir hefðu unnið í happadrætti. Þeir beinlínis hoppuðu af hrifningu og kæti . Mong sagði mér að þetta boðaði mikla lukku og því gleddust þeir svona innilega. Það væri búið að vera nánast árviss viðburður að hvítar trönur settust á skipið á þessum árstíma, einmitt á þessum slóðum, en aldrei hefðu þær verið svo margar sem nú. Vonandi reynist það rétt hjá þeim blessuðum, að þetta sé gæfumerki. Nú fer í hönd Hokinhalavertíð hér suður og austur úr Eldlandinu og er óskandi að við náum að reka í stór höl af þeim fiski næstu vikurnar. Hvernig maður setur síðan árangurinn af vertíð lokinni, í samhengi við sextán hvítar trönur, verður bara að koma í ljós. Það hlýtur að verða hægt að deila með, draga frá, margfalda eða bæta við tölunni sextán með einhverjum hætti. Leikur að tölum er jú þjóðaríþrótt, ekki satt?
Gleðilegt sumar kreppukútarnir mínir á norðurhjaranum . Kjósið ykkur nú ekki til óbóta um helgina. Vetrarkveðja úr suðurhöfum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þversumman af 16 er jú 7, en hvað sjö þýðir í þessu samhengi er nú ekki gott að vita... hafðu 7 í huga næstu daga og láttu mig vita hvort hún eigi ekki eftir að vera áhrifavaldur um borð...
Brattur, 24.4.2009 kl. 22:54
Gleðilegt sumar Brattur sæfari! Hvítar trönur hljóta að boða góðan saltfiskafla....
Hrönn Sigurðardóttir, 25.4.2009 kl. 11:04
Röng ráðning hjá ykkur báðum. Þingmannafjöldi Sjálfstæðisflokksins! Meira að segja trönurnar í suðurhöfum sáu útreiðina fyrir hjá flokknum. Hræddur um að sumir séu hálf Hokinhalalegir, nú í morgunsárið, þegar úrslit liggja fyrir. Ég skal barasta segja ykkur það! Vona bara að pottaglamursbyltingin éti ekki börnin sín. Tuðarinn ætlar að minnsta kosti að bíða með að fagna.
Halldór Egill Guðnason, 26.4.2009 kl. 10:17
Má þá ekki segja að þessir 16 hafi tranað sér inn á Alþingi ?
Anna Einarsdóttir, 26.4.2009 kl. 15:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.