22.1.2008 | 15:48
Að villast í Shanghai.
Þá er lokið Kínaferð hjá Tuðaranum og dagurinn í dag nýttur til að vinda ofan tímamismuninum sem er átta klukkustundir. Verð orðinn "fír og flamme" á morgun og klár í slaginn á ný.
Það er varla hægt að lýsa Shanghai með orðum, svo stórkostleg er þessi borg á margan hátt. Ekki laust við að beri á smá hálsrýg eftir ferðina, þar sem gónt var til himins hvert sem farið var, í von um að sjá efstu hæðir húsanna í miðborginni. New York og aðrar stórborgir beinlínis fölna í samanburði við Shanghai. Og mannfjöldinn, maður lifandi! Okkur var sagt að í borginni byggju þrjátíu milljónir manna og ætla ég ekki að efast um það. Aukin velmegun undanfarinna ára hefur leitt til stóraukinnar bílaeignar og er nú svo komið í miðborginni, að betra er fara sinna ferða á tveimur jafnfljótum, en í bíl, á sumum tímum dags. Þetta fengum við ferðafélagarnir að reyna, svo um munaði. Eftir verslunarferð í eina af verslunarmiðstöðvum borgarinnar var tekinn leigubíll og bílstjóranum sýnt á korti hvar hótelið okkar væri. "Ok ok" sagði bílstjórinn brosandi og ók af stað. Eftir skamma stund fór okkur að finnast sem eitthvað væri blessaður maðurinn ekki alveg með það á hreinu hvert hann væri að fara, en ákváðum að hinkra aðeins með athugasemdir. Hann gæti ef til vill verið að stytta sér leið með okkur. Þegar ekið hafði verið í um tuttugu mínútur, stansaði bílstjórinn fyrir framan gult hús í lægri kantinum, leit brosandi afturí til okkar og sagði "OK?". "NO!" svöruðum við báðir einum rómi. "NOT OK" og sýndum honum aftur kortið. Eftir skamma stund, hafandi snúið kortinu á alla kanta, virtist sem honum væri skyndilega ljóst hvert við ætluðum okkur. Brosandi rétti hann okkur aftur kortið og ók af stað á nýjan leik. Við Halli litum hvor á annan og dæstum. Áfram var ekið vítt og breytt um borgina og ef eitthvað var, fannst okkur sem við fjarlægðumst enn meir miðborgina, þar sem hótelið okkar var. Enn á ný stöðvaði karlanginn bílinn og í þetta skipti fyrir utan matvöruverslun! "OK?" spurði hann. "NO NOT OK!!!!!" svöruðum við einum rómi enn á ný. Nú voru góð ráð dýr. Ef fjandans bílstjórinn rataði ekki á hótelið okkar, hvernig í áranum ættum við þá að geta það? Enn á ný var kortið dregið fram og nú var legið yfir því dágóða stund. Að því loknu var ekið af stað á ný og áfram var þvælst um stræti og breiðgötur borgarinnar. Tuðarinn er að öllu jöfnu góður á geðinu og lætur ekki svona smámuni pirra sig að ráði, fyrr en í fulla hnefana. Öðru máli gegnir hins vegar um Halla ferðafélaga. Nú var honum nóg boðið og var farinn að iða í sæti sínu af illsku og bölva þessum fjandans bílstjóra sem ekkert virtist vita í sinn haus. Bilti Haraldur sér og snéri í sætinu svo grimmt, að um tíma virtist sem bíllin ætlaði útaf. Þegar bílstjórinn stöðvaði síðan bílinn fyrir utan enn eina vitlausa byggingu og snéri sér við og sagði "OK?", var gargað úr aftursætinu "NO, NOT OK!!!!!!!!!!!!" Spennan í bílnum var nú orðin ansi mögnuð, svo ekki sé meira sagt. Einskonar milliríkjadeila var hér greinilega í uppsiglingu, en eftir smá stund var fundin lausn á þessu öllu saman. Halli hringdi í móttökuna á hótelinu, lét bílstjórann hafa símann og hann var síðan lóðsaður alveg upp að dyrum. Löng ökuferð var á enda og lá við að hliðin Hallamegin félli saman þegar hann skellti hurðinni á eftir sér. Við brosum að sjálfsögðu að þessu núna, en pirringurinn var orðinn talsverður meðan á þessu stóð.
Það má síðan geta þess, að í Shanghai aka leigubílar þrjár milljónir ferða, dag hvern. Það gera níutíu milljónir ökuferða á mánuði, takk fyrir. Vonandi að það villist ekki nema lítið brot af bílstjórunum. Ég segi nú ekki annað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.1.2008 kl. 08:46 | Facebook
Athugasemdir
Velkomin frá landinu fagra. Þegar tölur eru komnar í milljónatal fer ég alveg á límingunum því ég skil ekki svona háar tölur hvað þá þegar þær eru komnar upp í 90 miljónir manna á mánuði sem nota leigubíla.
Edda Agnarsdóttir, 22.1.2008 kl. 21:10
Jú Edda..... gerum ráð fyrir að meðaltal farþega sé 3. Þá erum við að tala um 30 milljónir leigubíla. Lítið og einfalt reiknisdæmi.
Velkominn heim Halldór. Gott að þú fannst þig í mannmergðinni og komst þér til Íslands aftur. Do you like hrísgrjón ?
Anna Einarsdóttir, 22.1.2008 kl. 21:18
There are 9 billion bicycles in Bejing la la la la allt of háar tölur fyrir mig, þessvegna hef ég aldrei átt meira en milljón í einu. Velkomin heim og fáum við myndir úr túrnum??
Ásdís Sigurðardóttir, 22.1.2008 kl. 21:29
Blessaður gamli, þakka fyrir góða ferð, má til með að skjóta því á þig að við værum eflasut enn týndir í Shanghai ef ekk væri fyrir mitt góða skap!!!
Hallifax, 22.1.2008 kl. 23:48
Velkomin heim... öfunda þig reyndar.. vær alveg til í einn svona "skreppitúr" líka..
Björg F (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 23:54
Velkominn heim, þetta hefur verið skemmtileg ferð, það verður eitthvað svona að koma uppá gerir ferðina skemmtilegri og svo sér ferðamaðurinn meira og gefur meira af sér.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 23.1.2008 kl. 00:19
Velkominn heim, gaman að sjá almennilegt tuð hérna á blogginu aftur.
Marta B Helgadóttir, 23.1.2008 kl. 00:31
Iss, ég er viss um að þú hefur verið orðinn alveg jafnpirraður og Halli....
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 19:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.