Útsölulegur léttleiki tilverunnar og gjafakortin.

Þá er komið að blessuðum útsölunum eitt árið enn. Allar vörur og jólaglingrið lækka um 20-80% frá því sem það var í jólabrjálæðinu, að okkur er sagt, en einhver brögð að því að í sumum verslunum hafi verðið verið hækkað fyrst, en svo lækkað aftur til að fá út hærri prósentulækkun frá "fyrra" verði. Úlpan sem ég gaf dóttur minni í jólagjöf kostar í dag 1/3 af því sem hún kostaði fyrir jól og andskotans VISAð ekki einu sinni komið á gjalddaga. ARRRG! hvað maður getur verið vitlaus. Ætlaði ekki að brenna mig á þessu aftur, en undurfagurt augnaráðið og ítrekaðar beiðnir um blessaða úlpuna bræddu hjarta tuðarans og hann lét til leiðast. Nú sýpur maður seiðið af eftirlátsseminni og bölvar í hljóði yfir eigin heimsku. Fer að sjálfsögðu í svarta örgustu fýlu í hvert skipti sem þessi elska klæðist síðan úlpufjandanum, en það er ekkert annað að gera en taka þessu sem hverju öðru hundsbiti. Er hins vegar með það alveg á hreinu hvað öll mín börn fá í jólagjöf næstu jól. Gjafakort er málið. Það verður splæst í gjafakort á þau öll fjögur og gott ef maður dritar þeim ekki bara líka á afabörnin í leiðinni. Þau geta síðan þrætt útsölurnar eftir áramótin og keypt það sem þau helst vilja á miklu lægra verði en ef tuðarinn hefði vaðið búð úr búð og svitnað og blánað yfir dýrtíðinni, vitandi það að öllu heila gumsinu yrði síðan mokað á útsölu, í þann mund sem síðasta konfektmolanum væri sporðrennt. Það eina sem ég óttast er að það verði frekar tómleg og flöt pakkastæða undir jólatrénu, en það verður bara að hafa það. Ég pakka bara inn blöðrum og falspökkum og næ þannig upp stemmingunni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Þú gætir klippt út myndir af úlpum og öðru sem er á óskalista barnanna, límt þær utan á misstóra pappakassa og pakkað svo öllusaman inn í jólapappír... og gjafakortinu með auðvitað - til að redda þessu með flatneskjuna undir trénu.

Marta B Helgadóttir, 4.1.2008 kl. 12:48

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Brilliant hugmynd Marta. Takk fyrir þetta. Verður örugglega nýtt í einhverri mynd næstu jól.

Halldór Egill Guðnason, 4.1.2008 kl. 14:10

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Marta B Helgadóttir, 4.1.2008 kl. 21:01

4 Smámynd: Marta B Helgadóttir

...hef einu sinni fengið svona gjöf, mynd af armbansúri og gjafakort saman í litlum kassa, svo átti ég að fara og velja sjálf það sem mig langaði í. Svínvirkaði

Marta B Helgadóttir, 4.1.2008 kl. 21:03

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

He, he, ég var svo klár að nota kortin ekkert og kaupa ekkert af gjöfum. Gaf pening og sagði börnunum að nota þá eftir jól, enda eru þau vön því að mamma sé sparsöm. Ég fer í bæinn á morgun, kannski ég kíki aðeins í Smáralind, pabbi býr við hliðina.  Hættu svo að láta plata þig kall.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.1.2008 kl. 21:43

6 Smámynd: Brattur

... það er eitt öruggt, Halldór... þú átt ekki eftir að deyja ráðalaus... en þú með þitt milda hjarta verður ekki með platjólagjafir næstu jól... ég skal veðja... kassa af rauðvíni...

Brattur, 4.1.2008 kl. 23:48

7 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Keyptu bara jólagjafirnar í janúar maður !

Anna Einarsdóttir, 5.1.2008 kl. 00:31

8 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Já Halldór minn, ég skil mæta vel gremjuna í þér, ég hugsa mikið um þetta. En Mörtu tillaga er mjög góð.

Ein svona raunasaga um jólaagjöf. Sonur samstarfskonu minnar keypti kápu á sína konu í jólagjöf. Kápan var of þröng. Arkað var í búðina og reynt að fá stærra, það var ekki til, búið eða eikkað. Þá báðu þau um innlagsnótu, þegar búið var að skrifa nótuna, hljóðaði nótan upp á 30% lægri tölu en kápan kostaði, þau leiðréttu upphæðina og þá var þeim bent á það, að annað hvort tækju þau þessa innlagsnótu eða fengju rétta verðið en mættu ekki nota fyrr en við útsölulok!

Útsalan byrjaði þarna strax eftir jól!

Hvað finnst þér um þetta eða ykkur sem lesa þetta?

Edda Agnarsdóttir, 5.1.2008 kl. 17:43

9 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Halldór, nú er rétti tíminn til að kaupa jólagjafirnar.  Allt á hálfvirði, og þá  verður hægt að fá bland í poka fyrir afganginn um næstu jól.

Ég gaf bæði bónus og kringlukort í jólagjöf, pakkað inn á all sérstakan máta, sem ég mun kynna fyrir ykkur á næsta móti.

Nenni aldrei á útsölur, því ég læt næstum lífið og vatnið ef ég þarf að standa í röð.  Ég er þessi leiðinda týpa sem vil fá það núna eða strax.

Hlakka til að tuða með þér á árinu.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 6.1.2008 kl. 22:48

10 identicon

Í fyrsta lagi; Farðu ALDREI á útsölur þar sem þú hefur verslað fyrir jólin bara til þess að svekkja þig á að vörurnar hafi lækkað... þarna ertu bara að keyra masókisman af fullum trukki í belginn á þér..

í öðru lagi: Gjafakort? flottasta gjöfin.. engin spurning.. dúndraðu þeim í skókassa og pakkinn verður stór

Björg F (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 02:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband