26.12.2007 | 23:52
Af "iðrasinfoníum" og "þarmaballettum".
Hún Jenný Anna megabloggari hefur enn á ný slegið í gegn með þrælgóðu bloggi um matarvenjur og óhemjuskap þann sem við leyfum okkur yfir jólahátíðina, sem nú stendur sem hæst. Hún snaraði sér í "þarmaballett" um tíma og er sennilega ekki sú eina um það. Ekki það að ég hafi fundið mikið fyrir ballett í vömbinni á mér yfir hátíðirnar, heldur hefur þetta frekar verið svona meira í líkingu við "iðrasinfoníu á endastöðinni" eftir allt reykta kjötið og brúnuðu kartöflurnar, rauðkálið og annað það "gasmyndunargjarna" meðlæti sem hreinlega ærir iðrin með tilheyrandi tóndæmum. Tóndæmum sem síðan "flauta" um hljóðfæri það, sem flest okkar kjósa að hlusta á í einrúmi, eða það sem meira er, gætum alveg hugsað okkur að sleppa við að hlusta á. Tóndæmi sem falla öðru fólki undantekningalítið, af skiljanlegum ástæðum, illa í geð. Gott ef þessi "tónlist" fer ekki bara líka í taugarnar á okkur sjálfum. Oftar en ekki, hefur maður neyðst til að fara eilítið afsíðis til að verða sér ekki til skammar með tónsmíðum þessum, þessi jólin sem önnur, þar sem óhóflega hefur verið innbyrt af reyktu kjöti með "tilbhörende" meðlæti. Nokkurskonar eins manns konsert hefur verið haldinn á korters fresti megnið af hátíðunum með mínu hljóðfæri og ég er eiginlega kominn á þá skoðun að næstu jól muni ég hafa eitthvað einfalt, auðmelt og "soundless" í matinn. Það eina sem gæti breytt þessari afstöðu minni væri það að einhver hljómsveit óskaði eftir að ráða hljóðfæraleikara sem sem sérhæfði sig í "iðrasinfonískum tóndæmum með óútreiknanlegum endi". Tek þó fram að um skammtímaráðningu yrði um að ræða, þar sem takmörk eru fyrir því hve mikið er hægt að spila á "endastöðina".
Lýsi hér með eftir einföldum uppskriftum að kjarngóðum jólamat, sem ekki krefst mikils "solo tónleikahalds" á eftir. Skemmir ekki ef tekur skamman tíma að elda og er ekki svo dýrt í innkaupum. Ristað brauð og soðinn fiskur telst ekki með, því sökum hversdagsleika þessara tveggja rétta, getur hvorugur talist hátíðarmálsverður, nema ef vera skyldi að sá sem neyta eigi, hafi "spilað yfir sig" á reyktu kjöti, jólin á undan. Smjúts á alla! og gleðilega rest. Guði sé lof að maður þarf ekki að éta flugelda. Það yrði nú meiri músikin, ja svona þannig lagað séð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.12.2007 kl. 02:08 | Facebook
Athugasemdir
Eins og ég sagði við þig ekki alls fyrir löngu Halldór, þá er gott að hlæja og það er ekki oft sem maður gerir það upphátt yfir bloggfærslum.
Hvað varðar þarmasinfoníuna og allt sem henni fylgir þá er hún best lágstemd og eiginlega ómöguleg öðruvísi, það er rétt hjá þér. Þegar hún svo endanlega vill láta ljós sitt skýna, þá er ráðið að læða henni hægt og rólega með vinstra lærinu án þess að á nokkru beri. Þá fyrst fara skilningarvit allra í gang og engin viðstaddur veit hver átti síðasta undurfagra tóninn, sem var ekki bara fallegur, heldur gaf líka frá sér undursamlega l.........
Jólakveðjur úr Kvosinni frá Kalla Tomm.
Karl Tómasson, 27.12.2007 kl. 00:18
Takk fyrir þetta Karl og góðar kveðjur héðan af hinum "endanum". Hljómar dulítið krankt en læt það gossa. Heldurðu annars að með því að læða síðustu tónunum eftir hægra lærinu hafi gert mér meira illt en gott?
Halldór Egill Guðnason, 27.12.2007 kl. 00:33
Í þínum sporum, myndi ég sækja um hjá Simfóníuhljómsveit Íslands, sem stjórnandi. Þar gætir þú látið hljómsveitina spila í takt við þína misfögru óma.... yrðir frægur í leiðinni og fengir innbyrt jólamatinn í ómældu magni.
Anna Einarsdóttir, 27.12.2007 kl. 00:55
Elsku Anna.: Sinfóníuhljómsveit yrði á mettíma kammersveit, síðan dúett og síðan að "one mans band" ef ég ætti að stjórna með þessum hæfileika einum saman. Tónlist er mér ekki í blóð borin og þetta hljóðfæri sem rætt er um, mun sennilega gera mig brottrækan um alla eilífð. Er ekki annars nóg komið af umræðu þennan fret, ha?
Halldór Egill Guðnason, 27.12.2007 kl. 01:04
Guðrún Jóhannesdóttir, 27.12.2007 kl. 02:03
Takk fyrir skemmtunina Halldór.
Marta B Helgadóttir, 27.12.2007 kl. 08:58
Þú ert yndislegur. Fáðu þér bara heilsubaunabuff frá Sollu á grænum kosti gefur góðan ballett en skilar niður ótrúlegustu hlutum
Ásdís Sigurðardóttir, 27.12.2007 kl. 13:11
hahaha.. góður pistill Í kvöld ætlum við mæðgurnar að hafa matarboð.. fjölskyldunni er boðið í hægðarlosandi mat.. Matarboðið heitir "látum það renna ljúft niður" undir tónlist Mosarts. Yður er velkomið að mæta
Björg F (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 11:59
Alveg grjótupplagt, getum við ekki sett saman hjómsveit á Rommýmótinu. Fengið Áskel Másson til að skrifa niður gott verk, enda heimsfrægur fyrir sín blásara, kammer og trommuverk.
Ingibjörg Friðriksdóttir, 28.12.2007 kl. 19:57
.... hafðu það gott um áramótin.......
Fanney Björg Karlsdóttir, 30.12.2007 kl. 12:26
Hafiði eitthvað heyrt af kallinum, er hann enn með corolluna í hringtorginu með stefnuljósin á og sjálfur uppi í hlýðinni í þarmaleikfimi?
Högni Jóhann Sigurjónsson, 30.12.2007 kl. 13:42
"Hurðu" Högni. Eftir tveggja daga árangurslausa kennslu á hringtorginu, var Corollan dregin niður í hesthúsahverfi og þar er Tuðarinn sennilega ennþá að snúa ofan sér, réttsælis altso.
Halldór Egill Guðnason, 30.12.2007 kl. 20:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.