Hringtorg og stefnuljós.

Hringtorg eru snjöll lausn og bráðnauðsynleg. Umferðin "flæðir" jafnt og þétt og yfirleitt er ekki löng bið eftir því að komast áfram leiðar sinnar. Þau draga einnig úr hraða á gatnamótunum, sem aftur eykur öryggi þeirra sem þar fara um. Sumir hafa tuðað og tuldrað yfir fjölda hringtorga víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu, en ekki skil ég þá gagnrýni. Það væri ljóta öngþveitið ef umferðarljós yrðu sett í stað allra hringtorganna.

Önnur bráðsnjöll uppfinning er stefnuljós. Já stefnuljós. Til að lesendur átti sig betur á þessu fyrirbæri vil ég stafa það hægt og með stórum stöfum til aðgreiningar frá öðrum texta í þessu tuði.: S T E F N U L J 'O S. Ég vona að þeir sem ekki hafa heyrt þetta fyrirbæri nefnt áður geri sér far um að kynna sér það nánar og það helst sem fyrst. Vanalega er stjórnbúnaði þessa merka fyrirbæris komið fyrir vinstra megin og framan við stýri bifreiða og er yfirleitt um litla stöng að ræða sem ýtt er annað hvort upp, ef beygja á til hægri, eða niður, ef beygja á til vinstri. Athöfn þessi krefst ekki mikils líkamlegs atgerfis og er í raun sáraeinföld og sársaukalaus, hverjum þeim sem NENNIR. Stefnuljós nýtast mjög vel í hringtorgum ef þau eru rétt notuð. Það vantar hins vegar mikið upp á þau séu notuð þar. Allt of margir nota stefnuljós bara alls ekki og halda ávallt að allir hinir séu alltaf með það á hreinu að þeir séu að fara til hægri eða vinstri eða bara beint áfram.

Ef einhver sem les þetta tuð telur sig þurfa  kennslu eða frekari fræðslu um notkun hringtorga og stefnuljósa, skal á það bent að ég verð á hringtorginu ofan við Olís í Mosfellsbæ milli klukkan 1730-1800 bæði í dag og á morgun á grárri Corollu og mun þar leika listir mínar í hringtorgaakstri. Ef einhver vill fá að sitja í nokkra hringi og fylgjast með snillingnum, er sá hinn sami beðinn um að standa við skiltið sem vísar til Lágafellskirkju og veifa þar rauðum klút. Aðgangur er ókeypis og öllum frjáls, sem hafa gilt ökuleyfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Gott tuð!!

Ég banka yfirleitt í rúðuna hjá mér til að benda fólki á stefnuljósabúnað bifreiða sinna, við mismikinn fögnuð farþega minna. 

Hrönn Sigurðardóttir, 21.12.2007 kl. 11:30

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hún flæðir nú ekki allsstaðar vel þar sem torg eru, sumir kunna ekki á hringtorg.  Stefnuljós, hvað er það. ??

Ásdís Sigurðardóttir, 21.12.2007 kl. 16:03

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Gleðileg jól og takk fyrir skemmtilega "viðkynningu" á blogginu.

Marta B Helgadóttir, 21.12.2007 kl. 17:33

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þú ert nú líklegur til að geta hringsólað í hringtorgum hring eftir hring eftir öllum kúnstarinnar reglum.  Oh, ég fer næstum því í Mosó á morgun til að missa ekki af þessari stórkostlegu sýningu. 

Anna Einarsdóttir, 21.12.2007 kl. 23:16

5 Smámynd: Brattur

... var einmitt að uppgötva þetta með stefnuljósin... mikið þarfaþing... hefði viljað fatta þetta fyrr búinn að keyra leigubíl í 25 ár... eða þannig... annars væri ég til í að keyra með þér nokkra hringi í Mosó... þú keyrir og ég drekk rauðvínið...

Brattur, 21.12.2007 kl. 23:20

6 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Gleðileg jól og takk fyrir skemmtilegt bloggár :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 22.12.2007 kl. 01:01

7 identicon

Loksins, loksins, þessu er ég búin að halda fram lengi, lengi. Þ.e.a.s. að hringtorg séu frábær og yfirleitt alltaf til þess fallin að liðka fyrir umferðinni. En ég hef verið að vorkenna öllum þeim sem aka um á bráðfínum bílum án þess að hafa hugmynd um að stefnuljósin séu biluð........

Kristbjörg Clausen (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 11:30

8 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Hvar sástu til mín .

Ég hefði þegið þessa kennslu, fæ reyndar oft tiltal frá húsmóður og ungu ökumönnunum á heimilinu, enn ég er svo gott sem inná hálendi svo ég ætla að eiga inni hjá þér námskeiðið.

GLEÐILEG JÓL til þín og þinna og farsælt komandi ár og takk fyrir góð samskipti á árinu.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 22.12.2007 kl. 13:10

9 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Algjörlega frábært og orð í tíma töluð.

Stefnuljósanotkun Íslendinga fær ekki góða einkunn, og takk fyrir þetta innlegg og ekki síst fyrir að ætla að kenna okkur notkun þeirra.   Ég er búin að biðja Magga Einars og Óla Palla að koma tilkynningu um að þú verðir í Mosfellsbænum (nánari staðsetning á blogginu þínu.) í dag kl. 17:30 - 18:00.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 23.12.2007 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband