21.11.2007 | 16:53
Bévítans auglýsingapésaflóð.
Hvernig er það eiginlega, er ekkert í lögum þessa lands sem hægt er að bera fyrir sig til að afþakka eða neita þessu hábölvaða, déskotans, árans auglýsingapésaflóði sem gubbast inn um lúguna hjá manni dag hvern? Þarf maður að leggja jarðsprengjur í innkeyrsluna eftir að moggaguttinn er farinn til að losna undan þessu? Djöfull sem þetta fer í pirrurnar á mér. Svo ef maður bregður sér af bæ í nokkra daga liggur við að það þurfi að fara á jeppanum gegnum útihurðina til að ryðja veginn inn í hús. Nokkra daga í burtu og 11 kíló af pappír í forstofunni, já 11 kíló, takk fyrir af auglýsingapésarusli, þar sem auglýst er akkúrat allt sem mig vantar ekki! Þetta er bara bilun! Ætli sé hægt að rukka þá sem troða þessu inn um lúguna hjá manni fyrir vinnuna sem það kostar að losa sig við þetta, ha? Meira að segja með Mogganum lauma þessir andskotar bæklingum og sneplum sem límdir eru á forsíðuna! Ekki nóg með að jólin valdi manni kvíða strax í október þegar IKEA heldur að við fíflin gætum kannski gleymt jólunum ef við erum ekki minnt á þau tímanlega. Ég skal aldrei inn í þá verslun stíga. Maður ræður ekki einu sinni hvaða hring maður labbar þar inni. Hlýtur að standa orðið "hálfviti" á enninu á okkur öllum. Ég segi það satt.
Jæja, ég ætla ekki að romsa eða tuða meira að sinni, en mátti til að kíkja hér aðeins inn og tilkynna að kvikyndið væri ennþá á lífi og ekki búinn að gleyma hvernig á að tuða. Jólin eftir mánuð og strax búinn að fá leið á þeim og fíflaganginum sem fylgir þeim. Mikið lifandis ógnar skelfing er þessi þjóð orðin biluð. Ég segi það nú bara og jamm og já.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Alltaf gaman að kíkja á smá tuð en það er ekkert mál að losa sig við svona póst. Þú ferð bara á pósthúsið í þínu hverfi. Skrifar undir plagg þess eðlis að þú viljir ekki fjölpóst og færp gulan miða í verðlaun sem þú límir á lúguna þína.
Hrönn Sigurðardóttir, 21.11.2007 kl. 17:01
Já það mætti reyna að útbreyða frídag neytenda og hafa þá nokkra á árinu, þ.e. kauða ekkert daga. Sjá nánar um þennan merka dag á http://laugardalur.blog.is/blog/laugardalur/entry/371097/
Guttormur, 21.11.2007 kl. 17:15
Gott að þú ert kominn aftur, þú ert besti tuðari landsins og þó að víðar væri leitað. En ég styð þig þessir leiðinda bæklingar eru að sliga mig fullorðna konuna, ég ber þá út daglega í hverfinu mínu.
Hinsvegar eru jólin byrjuð á síðunni minni, sjáumst!
Ingibjörg Friðriksdóttir, 21.11.2007 kl. 17:20
Hrönn; ég fór um daginn að fá svona gulan miða á pósthúsinu - mér var sagt að það væri ekki hægt, það væri verið að athuga hvort það væri löglegt! Það er sem sagt löglegt að troða hverju sem er í póstkassann minn en ég virðist ekki hafa lögin mín megin ef ég vil stöðva það. Urrrrrrrrrrr.
Tek að mestu undir tuð höfundar hér.
Halldóra Halldórsdóttir, 21.11.2007 kl. 18:39
Ertu ekki glaður að vera komin heim... (spyr ein með smá heimþrá!!)
Annars fannst mér frásögnin hennar Halldóru svo útrúleg að ég fór að kanna málið og viti menn, þetta er víst tilfellið. Sjá m.a. þessa frétt
http://www.visir.is/article/20071114/FRETTIR01/71114068
Þetta er náttúrulega fáranlegt, þar sem þetta er þjónusta sem var í boði fyrir viðskiptavini Íslandspósts, bæði þá sem eru þiggjendur pósts, en líka hina sem senda póstinn. Þeim er boðið upp á að sleppa því að senda auglýsingapésa á þá sem henda þeim hvort eð er bara beint í ruslið. Minna upplag, ódýrara, allir glaðir... Á sínum tíma var Íslandspóstur afar tregur til að bjóða þessa þjónustu en lét að lokum undan þrýstingi frá neytendum, og ýmsum frjálsum félagasamtök (m.a. Neytendasamtökunum og Landvernd). En nú virðist þeir hafa skipt um skoðun - kannski einhver búinn að reikna út að pósturinn tapi einhverjum aur?
Ég veit ekki til þess að það sé neitt í lögum sem bannar þetta - en Íslandspóstur virðist hafa tekið þann pól í hæðina að það þurfi að vera lög sem beinlínis taki fram að þetta megi.
Hm... það væri nú vandlifað ef ekki mætti snúa sér í hring nema tékka fyrst hvort stæði í einhverjum lagabálknum: "heimilt er að snúa sér í hring...."
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 20:37
Auður þú ferð á kostum
Marta B Helgadóttir, 21.11.2007 kl. 23:09
Halldór velkominn úr bloggfríinu, það er leiðinlega e-ð tuðlaust hérna þegar þú ert ekki.
Marta B Helgadóttir, 21.11.2007 kl. 23:10
Mér þykir nú verst hvað það fara mörg tré í þetta. Bara leikfimi að hlaupa með þennan óþarfa út í endurvinnslutunnu.
Guðrún Erla Sumarliðadóttir, 22.11.2007 kl. 15:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.