Fuglabjarg við Reykjanesbraut?

Vegarspottinn milli Nónhæðar og Vífilstaða á Reykjanesbraut er undarlegt mannvirki. Þar er risin einhver sú rosalegasta hljóðmön eða gryfja sem sést hefur á Íslandi og þó víðar væri leitað. Grjóthlaðinn veggur sem vírnetsgirðing heldur við og hafa þar verkamenn verið að spranga að undanförnu, sem í Látrabjargi væru. Kæmi ekki á óvart að bjargfuglar tækju sér bólfestu og verptu þarna næsta sumar. Svakalegur veggur  og ljóst að loka verður vel meðfram honum að ofanverðu ef menn og málleysingjar eiga ekki að eiga á hættu að hrapa til bana. Milli akreinanna er síðan moldarhaugur mikill sem er sennilega vel á fjórða meter að hæð, sem nýverið hefur verið sáð grasfræi í. Loks er trégirðing mikil sem kórónar þennan óskapnað, sem sennilega er ætlað að minnka hljóðmengun hjá íbúunum sem búa í Bæjargili og öðrum götum neðan Reykjanesbrautarinnar. Niðurgrafinn vegarkafli á einni fjölförnustu götu höfuðborgarsvæðisins!Glæsilegt, eða hitt þá heldur. Er búið að banna skafrenning og snjókomu á Íslandi eða eru verkfræðingarnir sem hönnuðu þennan óskapnað, eða þeir sem bera ábyrgð á þessu ekki með öllum mjalla? Undarlegur andskoti, þetta að þurfa sífellt að klippa bæjarfélög í tvennt með hraðbrautum, að ekki sé nú talað um með þessum hætti sem þarna er gert. Hefur enginn heyrt um stokka sem nota má í stað þessarar endaleysu? Stokkur fyrir umferðina var reyndar eitthvað í umræðunni, áður en framkvæmdir hófust á þessum vegarkafla, en þetta varð niðurstaðan. Ekki einasta að þetta sé ljótara en orð fá lýst, heldur er þetta svo vitlaust að engu tali tekur. Ég fer þessa leið tvisvar á dag og tuða út í eitt við sjálfan mig vegna þessara framkvæmda og því hve fáránlegt þetta er. Vandséð orðið hvort meiri þörf er fyrir þurrkur að innan eða utan á framrúðunni hjá mér og verður fróðlegt að sjá hvernig þessi snjókista kemur til með að stuðla að öruggari samgöngum. Þvílík og önnur eins endaleysa! Annar vegarkafli sem er lýsandi dæmi um fáránlega framkvæmd er kaflinn sem liggur frá Essóstöðinni í Hafnarfirði og gegnum holtið í átt að Keflavík. Sennilega eitt besta byggingarland í Hafnarfirði tekið undir hraðbraut og hálf hæðin sprengd í tætlur til að koma þar fyrir mislægum gatnamótum. Að setja holu í gegn? Nei ekki aldeilis á dagskránni. Hundruðir lóða fyrir bý, svo aka megi undir berum himni. Það er ekki öll vitleysan eins í vegagerð og ferlegt að þurfa að tuða um þetta, en mátti til.        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þetta var alveg sérlega áhrifamikið og innilegt Tuð Halldór.  Ég er snortin.    Ef þú ætlar í mótmælagöngu út af þessu máli, þá vil ég alveg taka þátt í svoleiðis labbitúr.

Anna Einarsdóttir, 27.8.2007 kl. 18:13

2 Smámynd: Marta B Helgadóttir

gott tuð hjá þér Halldór ... kem með ykkur í gönguna

Marta B Helgadóttir, 27.8.2007 kl. 18:24

3 identicon

Þetta tuð kom mér í stuð! Þrefalt húrra.. Þú Ert engu Tuði líkur..

Björg F (IP-tala skráð) 27.8.2007 kl. 18:45

4 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Um vitleysur í vegagerð

verður hann að tuða

með vinum vill í gönguferð,

stjórnvöld til að stuða 

Aðalheiður Ámundadóttir, 28.8.2007 kl. 12:01

5 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góð Alla !

Marta B Helgadóttir, 28.8.2007 kl. 20:13

6 Smámynd: Brattur

... Já, eigum við bara ekki að skella okkur í göngutúr með mótmælaspjöld, ja til er ég... þú ert mjög góður í þessu Halldór...

Brattur, 28.8.2007 kl. 20:54

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Kæru vinir.: Stuðningur ykkar er mitt veganesti í tuðinu. Mótmælagangan verður auglýst síðar.

Halldór Egill Guðnason, 28.8.2007 kl. 21:46

8 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Er ekki verið að gerum elgum erfitt fyrir?

Hrönn Sigurðardóttir, 30.8.2007 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband