13.3.2022 | 00:24
Afvegaleiddur leiðtogi.
Ber sér á brjóst núverandi fjármálaráðherra, sökum klikkaðrar umræðu um umsókn að esb frá Loganum. Ekki beint beittasti hnífurinn í skúfunni, karlinn sá, altso Loginn. Ekki frekar en Bjarninn, sem nú hneykslast á Loganum.
Umsókn í dag, sem er jafngeggjuð og þegar hann sleit bernskuskónum innan flokksins og taldist efnilegur stjórnmálamaður og jafnvel formannsefni og lagði til að sótt væri um inngöngu. Altso Bjarninn, sem nú er aðal söguhetjan.
Sami maður og hvatti til að Icesave eitthvað yrði samþykkt og svo videre. Sannur föðrlandsvinur, eða hitt þó heldur. Gullfiskaminni landans er aumkunnarvert.
Á einhvern óræðan hátt hefur þessi maður útvatnað skoðanir sínar og markmið undanfarin ár, eftir því sem hentar. Svo mjög reyndar að forysta Sjalfstæðisflokksins míns, hljómar í kór ver en kratískustu kratar. Heldur hann að sannir flokksmenn séu allir haldnir alvarlegri heilabilun og minnisleysi, eða gleymsku um upprunaleg markmið og stefnu Sjálfstæðisflokksins? Nafn flokksins gefur ákveðna skýrskotun í það um hvað hann var stofnaður, en það gefur hann skít í.
Hvar ók núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins út í krataskurðinn? Beygjuna þá sem því olli er full ástæða til að merkja vel, með öllum þeim viðvörunarskiltum sem tiltæk eru, sönnum Sjálfstæðismönnum til viðvörunar. Hann atar menn auri, sem nú vilja ganga í esb, en gleymir fortíðinni, þá hann sjálfur hélt fram svipaðri ósvinnu. Síðan eru mörg ár og formaðurinn jú orðinn andhverfur öllum gildum eigin flokks. Hugsjónin horfin og eiginhagsmunir orðnir ofar þjóðarhag. Á talsverðum tíma hefur hann sogast inn í regluverkið frá bulluseli og safnað að sér söfnuði lítt reyndra jáara og sett í forystuhlutverk Sjálfstæðisflokksins. Esb reglum er hrúgað gegnum Alþingi án nokkurra mótbára, því það hentar hirðinni umhverfis hann og honum sjálfum, auk vina og vandamanna.
Þessi maður, sem í uppgangi sínum sem efnilegur pólitíkus hér á àrum áður, gekk fremstur í ungliðastarfinu og lagði til aðild að esb, hefur nú af einhverjum sökum algerlega gleymt ´´ bernskubrekum ´´ sínum, en á sama tímabili leyft öllu sem frá bulluseli kemur að þjóta gegnum Alþingi.
Sorglegra dæmi um tækifærismennsku í pólitík er vandfundið í Îslenskri stjórnmálasögu. Hugsjónageldingin alger og ekki svo mikið sem vottur af andakt eða virðingu fyrir stefnumálum flokks, sem stofnaður var á sínum tíma öllum stéttum til hagsældar.
Stétt með stétt, náði greinilega aldrei inn í þennan mann, enda aðeins einni stétt kynnst, með silfurskeið í munni. Sjálfstæðismaður getur hann trauðla talist lengur, frekar en uppskafinn söfnuður hans, sem samanstendur mestmegnis af óreyndum og meðfærilegum einstaklingum, auk hauka sem bíða síns færis, á kostnað samlanda sinna, kostandi andvaraleysið og hugsjónaauðnina. Það eru jú tækifæri handan hornsins, ef rétt fólk er skipað í hagkvæmar stöður, ekki satt?
Nú er hún Snorrabúð stekkur, virðast ætla að verða örlög Sjálfstæðisflokksins míns, nema eitthvað sögulega mikið gerist. Forystan mestöll annað tveggja, á heima í öðrum flokkum, eða svo gjörsamlega sjálflæg, að engu tali tekur. Hvoru tveggja banabiti, sem erfitt verður að kyngja.
Valhöll var ekki reist fyrir flokksgæðinga. Hún var reist af flokksmönnum í sjálfboðavinnu, fyrir hugsjón um jöfnuð og frelsi einstaklingsins. Þar naglhreinsaði ég timbur og skóf spítur. Tilhugsunin um að þar valsi nú um allar hæðir sjálfumglaðir, hugsjónageldir eiginhagsmunaseggir, vekur með mér vorkunn um þeirra hag og sorg í huga og eigin verka sem engu skiluðu, ekki svo að það sé eitthvað nýtt.
Aldrei mun ég frá minni hugsjón ganga sem sannur Sjálfstæðismaðurr og bið því liðhlaupana að hypja sig sem fyrst til sinna dilka eftir eyrnamerkjum sínum. Formanninn fyrstan!
Góðar stundir, með kveðju að sunnan, frá sönnum Sjalfstæðismanni.
Umræðan um ESB-aðild með ólíkindum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:50 | Facebook
Athugasemdir
Tek undir allt hér ad ofan.
Snilldar pistill og svo sannur.
Takk fyrir.
Sigurður Kristján Hjaltested, 13.3.2022 kl. 00:42
Já nú er Snorrabúð stekkur eintómir krata frasar sem flögra á hvorn annan í gullfiskaminninu, sem varir í c.a. níu sekúndur, og íslensk pólitík aldrei komist á eins lágt plan og síðustu árin.
Góður pistill sem því miður á við allt of margt í okkar samfélagi.
Magnús Sigurðsson, 13.3.2022 kl. 07:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.