4.9.2019 | 22:05
Elvis has just left the building.
Þegar erlendir þjóðhöfðingjar, eða þeirra næstráðendur, eða meðstjórnendur, heimsækja Ísland, er það ekkert annað en sjálfsögð kurteisi að taka vel á móti þeim og sýna þeim virðingu. Virðingu, sem við ætlumst til að erlendis sé sýnd okkar helstu leiðtogum. Vilji fólk koma skoðunum sínum á framfæri við heimsóknir sem þá, er keyrði samgöngur höfuðborgarsvæðisins í döðlur í dag, þá væri ekki úr vegi að muna, að skoðanir allra eru ekki þær sömu.
Sem betur fer, verð ég að segja. Ef allir væru steyptir í sama mótið, væri engin þörf á heimsóknum sem þessari. Allir hugsuðu það sama og engin ástæða til að flengjast um heiminn þveran og endilangan í samninga og kurteisisheimsóknir. Allir eins og málið dautt.
Hver leggja á línurnar til þess lags háttsemi, verður eilíft þrætuepli. Það hefur nefnilega enginn alltaf rétt fyrir sér og enginn er þess umkominn að fullyrða að hans eða hennar skoðun sé sú eina rétta. Það má rökræða og deila, stunda málþóf, mótmæla á torgum og garga úr sér lungun, en enginn hefur alltaf rétt fyrir sér.
Hvað um það. Eftir gláp á fréttamiðla ljósvakamiðlanna nú undir kvöld, er ein stétt sem stendur fremst á meðal trúða, eftir svona heimsókn. Það eru fréttamenn, sem eru á köflum svo æstir að halda mætti að Ísland væri að spila úrslitaleikinn í einhverju heimsmeistaramótinu, eða jafnvel öllum, eða löngu látinn Elvis hafi rétt í þessu yfirgefið bygginguna, eftir vel heppnaða tónleika.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Pence hefur yfirgefið borgina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.9.2019 kl. 00:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.