29.12.2017 | 23:10
"Sjálfseignarstofnun". Hvað er nú það?
Jú, sjálfseignarstofnun er stofnun sem á sig sjálf, eins og liggur í orðanna hljóðan. Um hana gilda engin skynsamleg lög og þeir sem komast á stjórnunarspena í slíkri stofnun, geta hagað sér nánast að vild, eins og mýmörg dæmi sanna.
Það er engin stjórn, það eru engir hluthafar, það er nánast ekkert til, sem kemur böndum yfir stjórnendur sjálfseignarstofnana. Þeir geta setið í sínum stöðum eins lengi og þeir vilja og makað krókinn að eigin listisemdum og losta. Ósnertanlegir með öllu, að því er virðist, svo ótrúlegt sem það hljómar.
Eitt ömurlegasta dæmi, sem tengist sjálfseignarstofnun á Íslandi, er hörmungarfyrirbærið Eir. Þar var öldruðu fólki lofað áhyggjulitlu ævikvöldi, gegn vænni greiðslu. Öllum ævisparnaði og elju, áratuga strits. Það loforð var svikið illilega og fjölmargir eldri borgarar sem báru þar verulega skertan hlut frá borði. Þegar rýnt var nánar í stjórnunarhætti stjórnendanna, kom margur daunillur sannleikurinn í ljós. Gjálífi, stöðum og munaði var úthlutað til vina og vandamanna, með óheyrilegum kostnaði. Reksturinn virtist litlu máli skipta og ákvarðanir og aðhald ekkert, því sporslurnar runnu sjálfkrafa inn á einkareikninga stjórnenda, í ýmsu formi. Allt á kostnað þeirra heldri borgara, sem töldu sig hafa klofið það og séð út við sjóndeildarhringinn að geta eytt síðustu árum ævi sinnar í tryggu og vinsamlegu umhverfi.
Að ekki hafi verið tekið á þessu fáránlega fyrirbæri, sem sjálfseignarstofnun er, er algerlega óskiljanlegt. Jón og Gunna væru löngu komin bak við lás og slá, ef þau dirfðust að eiga sig sjálf svona mikið.
Hvaða rök er hægt að færa fyrir því, að ekki hafi verið tekið á þessum óþverra?
Hver er að vernda hvern?
Eru hérlendir pólitíkusar svo innmúraðir í viðbjóðinn, að þeir hafi sammælst um að hreyfa ekki við þessari óværu?
Spyr sá sem ekki veit, en grunar margt.
Góðar stundir og sprengið ykkur ekki í tætlur um áramótin, með kveðju að sunnan.
Ráðherra taki á skilaskussum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.