11.11.2017 | 10:01
Stólarnir fyrst, málefnin þar á eftir!
Það er allt að því sorglegt að fylgjast með þessu brambolti stjórnarmyndunarviðræðna. Fyrst skal raðað í stólana, en síðan ræða hugsanlegan málefnagrundvöll og samstarf. Stór hluti baklands beggja flokka, bæði D og VG er án efa ekki sátt við þessi vinnubrögð og hætt við að stuðningur við báða formenn þessara flokka muni minnka verulega, ef fram fer, sem horfir. Framsókn situr hinsvegar hjá að venju, eins og portkona sem tekur hverju sem er, jafnvel á niðursettu verði, eða þægilegum raðgreiðslum.
Það er ekkert annað en lítilsvirðing við kjósendur og lýðræðið í landinu, þegar stjórnmálamenn leyfa sér að byrja á öfugum enda í stjórnarmyndunarviðræðum. Með öfugum enda á ég við, að stjórmálamennirnir sjálfir og þeirra flokkar eru settar skör ofar en almannahagsmunir og það jafnvel áður en nokkurt samtal hefur átt sér stað um málefnin, sem skipta þjóðina mestu máli. Flokkarnir vita ekki einu sinni hvort þeir geti starfað saman, en samt skal raða í ráðherrastóla, áður en viðræður hefjast! Hvers konar viðræður ættu það eiginlega að vera? Jú, sennilega á þann veg, að flestir kepptust um að ganga úr skaftinu, varðandi sín stefnumál, ef ráðherrastóll er í boði. Sveiattan bara!
Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og öllum þeim sem að koma, til ævarandi skammar. Hér sannast einn ganginn enn, að oft er flagð undir fögru skinni og "smælið" ekki alltaf ekta, fyrir og eftir kosningar.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
![]() |
Sætta sig við Katrínu í forsæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.