24.5.2007 | 01:52
Argaþras og illar spár.
Mikið lifandis skelfingar ósköp er mörgum í nöp við nýju stjórnina okkar. Ekki vantar fúkorðaflauminn frá þeim sem krefjast lýðræðis manna og kvenna mest, en virðast þegar lýðræðið hefur ALGERAN meirihluta, ekki geta sætt sig við það. Menn og konur í nýrri stjórn nefnd öllum mögulegum og ómögulegum nöfnum og viðurnefnum og alveg á hreinu að þetta sé allt eitt allsherjar "fíaskó" allt saman fyrirfram og fólkið sem sest í nýja stjórn varla meira virði en skítur undir skó, sumt hvert. Pólitík er skrítin tík eins og ég hef áður sagt (og reyndar mér mikið meiri menn, löngu fyrr), en hún er að sjálfsögðu ekkert annað en málamiðlun, þegar upp er staðið. Gefum fólkinu frið til að sanna sig og sleppum öllum hrakspám og illmælgi um það sem ekki er orðið. Ef einhver efast um hve gott er að búa á Íslandi, skal ég glaður sýna þeim hinum sama hve lífið getur verið "skítt" annars staðar, gegn vægu gjaldi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvaða hvaða.. það eru nú flestir glaðir
p.s. mér og mínum tókst að selja allan klósettpappír á innan við viku..
næsta fjáröflunarsamkrull til styrktar ferðasjóðs hjúkrunardeildar H-1 (bestu og glæsilegustu hjúkrunardeildar á öllu íslandi) verður haldið 31.maí næstkomandi kl. hálf 2.
Þá ætlum við að vera með basar fyrir utan deildina okkar ( í garðinum á milli nýja hússins og gömlu byggingar Hrafnistu RVK) selja kökur, vera með bílskúrsölu, selja heimaunna vörur, 3 spákonur verða á svæðinu og spá í spil og bolla, tónlist spiluð og vöfflur og kaffi á boðstólnum. Allir velkomnir
p.s. ég þakka aftur tilefnið til að auglýsa..
Björg F (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 12:13
mér fannst einsog allir væru glaðir þartil ráðherralisti sjálfstæðisflokksins var birtur. Samstundis sá maður svartnættið leggjast yfir, amk í bloggheimum. En það er líka margt við þann lista að athuga og ýmis málefni eru lögð fram sem erfitt er að sjá hvert eiga að leiðast. En flestir eru tiltölulega vongóðir en það er ekki hægt að skipa fólki að sætta sig við hvað sem er af því að lífið er slæmt annarsstaðar. Það geta verið sömu hlutir að verki á báðum stöðum og mannkynið er allt eins, sama hvar drepið er niður fæti. Velmegunin á Íslandi er svo sannarlega ekki stjórnmálafólkinu að þakka, frekar því hvað hér er mikið pláss, landið er langt frá stríðsrekstri og við erum með góðan aðgang að vatni.
Hafðu það ætíð sem best kæri vin og ef þú ert glaður þá gleðst ég með þér
p.s og bara svo að það sé á hreinu þá kallaði ég Björn Bjarnason aldrei neinu illu nafni, ég sagði bara BB og fólk las sitt í það og sumir fóru alveg yfirum, hehe, en Guðlaugur greyið fékk verri útreið. Enda sagði ég strax á eftir að mér þætti það leitt.
halkatla, 24.5.2007 kl. 15:51
Björg F.: Fer að rukka fyrir auglýsingarnar. (he he) Held samt að síðan mín sé ekki vænleg til mikil árangurs, þannig að allri gjaldtöku er frestað um sinn. Anna Karen.: Ég er "ligeglad" með þetta allt saman og prísa mig bara sælann með nýju stjórnina. Hótaði nefnilega að flytja úr landi, fyrir kosningar, ef hér kæmist á vinstri stjórn. Kær kveðja til ykkar beggja kæru vinkonur, héðan úr sólinni á Spáni.
Halldór Egill Guðnason, 25.5.2007 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.