Mávaskrattar, mannanna sorp, holur, hólar og útsýni.

Búinn að skola af bílnum a.m.k. þrisvar í dag! Fljúgandi, drullandi, rottur í mikilli hæð hafa hér drullað reglulega yfir planið hjá okkur frá því í gærkveldi. Já, mávaskrattar sem sækja enn lengra inn til landsins með ári hverju. Ekki einu sinni hægt að bóna bílinn, hér lengst inn til fjalla, án þess að eiga á hættu að hann sé útdrullaður af þessari bévítans pest, sem þessi lánlausi fugl er, þ.e.a.s mávurinn. Sennilega mannskeppnunni að mestu um að kenna, sem sífellt grefur drulluna úr sjálfri sér lengra inn til landsins, eða þar sem hún heldur að enginn taki eftir.
Hér í Mosfellsbænum hafa bæjarbúar sætt sig við "urðun" sorps í Álfsnesi í allmörg ár. Það hefði sennilega átt að útskýra orðið "URÐUN" betur í því samkomulagi sem sveitarfélögin gerðu sín í milli varðandi losun úrgangs af öllu höfuðborgarsvæðinu, áður en samþykkt var að "URÐA" það allt í Álfsnesi, norðan Mosfellsbæjar.
Urðun telst vera samkvæmt ÖLLUM orðabókum, hola sem síðan er mokað yfir. Urðun í þessu samkomulagi virðist hins vegar vera "STÖFLUN" þar sem síðan er mokað "OFAN Á" allt gumsið.
Nú þegar fnykinn leggur yfir Mosfellsbæ í norðanáttinni, er það sennilega ekki það alversta sem gerst hefur. Það hefur nefnilega komið í ljós að "ÚTSÝNI" hefur minnkað til norðurs og þar sem húseigendur áður sáu Kjalarnesið langt og sætt og Snæfellsjökul í baksýn, blasir í dag við HÓLL eða HRYGGUR!
Sorp er ekki lengur og hefur ekki í langan tíma verið urðað í Álfsnesi að neinu viti. Því hefur verið STAFLAÐ OFAN á jarðveg og síðan mokað yfir herlegheitin, með þeim árangri að pabbi og mamma mín sjá ekki lengur upp á Skaga, þó það útsýni hafi sérstaklega verið tiltekið í söluyfirlitinu á húsinu þeirra, þá er þau keyptu.

Semsagt, án þess að bollaleggja frekar um þetta tiltekna málefni.: Nýr staður óskast fyrir sorp af Höfuðborgarsvæðinu. Áhugasamir viðtakendur sendi tölvupóst á nánast öll sveitarfélög á Höfuðborgarsvæðinu.

Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Svo vekja þessir skrattar mann með hæðnislegum hlátri fyrir klukkan fimm á morgnana. Eða ætti ég að segja nóttunni?

En kallinn minn - það er ekki bara sorp frá höfuðborginni sem er urðað í Álfsnesi. Þangað er keyrt rusl langa vegu úr sveitinni.

Hrönn Sigurðardóttir, 30.5.2012 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband