Hvar er krían mín?

Tuðarinn hefur starfað í syðsta hluta Argentínu undanfarið, á sjó. Fyrir einhverju síðan bloggaði ég um kríuræfil sem sennilega var á leið til Íslands, ásamt félögum sínum, fra Tierra Del Fuego (Eldlandinu) sem er syðsti hluti byggðs bóls, á jarðarkúlu vorri. Bað ég landsmenn um að senda mér línu ef sæist til einnar kríu með snúinn bláan fót og voru viðbrögðin slík, að tvær yndislegar manneskjur lofuðu að láta mig vita er þær lentu, án þess þó að "involvera" þá bláfættu. Önnur í Borgarnesi, en hin á Selfossi, eftir því sem ég kemst næst, án þess að sýnast einhver "stalker". Hún er allavega nálægt samkomusal og er ekkert sérlega vel við einhvern þvaglegg.

Það var eiginlega ekki gert ráð fyrir að ég kæmi heim fyrr en um miðjan maí, en sökum bilunar í búnaði skipsins, var kvikyndið sent mánuði fyrr heim, enda ekkert við að vera fyrir fullfrískan íslending á heimsenda í margar vikur, meðan viðgerð færi fram. Kom heim í síðustu viku, á föstudegi og það var náttúrulega ekki að spyrja að móttökunum. Það slokknaði á eldgosinu á Fimmvörðuhálsi, sem ég hafði hlakkað svo til að sjá! Varla voru glæðurnar þó að fullu slokknaðar, en nýtt og enn öflugra gos hófst og nú í alvöru eldfjalli, en ekki einhverju 4x4 helgarferðarquickloookræmu. Nú gýs og gýs og askan fer víða og tefur margan ferðalanginn, sem hyggst fljúga þetta, eða fljúga hitt. Þar sem ég slapp heim án teljandi vandræða, ef frá eru talin um það bil sjö samtöl við óþolandi breska öryggisfulltrúa hennar hátignar, um hvert ég væri að fara og hvaðan ég væri að koma og hvers vegna farangur minn væri svona lítill miðað við þetta og hitt og svo bla bla bla. ..Heathrow flugvöllur er VERSTI flugvöllur veraldar og rétt að sneyða með öllu framhjá þessum ömurlegheitum, ef fólk er að fara í frí að minnsta kosti. Það er mjög lítið mál að eyðileggja frí á Heathrow flugvelli! Ég vona hins vegar að þetta ástand vari svona sirkabát og hérumbil eina viku enn......svo krían mín eigi von um að komast alla leið heim.. Ég meina... getið þið ímyndað ykkur háloftahrærivélina sem fer af stað, þegar grænt ljós verður gefið á flug í Evrópu aftur? Það á ekki einn einsati farfugl "sjéns" í því brjálæði.! Það verður dúnn um alla Evrópu og þá þarf að stoppa allt flug á ný, því það er nokkuð ljóst að hvergi á byggðu bóli er til viðbragðsáætlun við "of miklum dún í háloftunum".
Karlinn hins vegar sprækur, kominn heim og orðinn "starfsmaður á bakvið" á ný. Elskurnar mínar fáið ykkur meiri ís.;-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

Ég rölti út í vorið í gær... aðal tilgangur ferðarinnar var að huga að kríu með bláan fót... ég tók með mér nesti, samloku með skinku og ost og appelsín því ég verð oft svo svangur úti í náttúrunni...

Fyrst sá ég slatta af vorflugum... pínulítil kvikindi sem öngruðu mig sáralítið, því ég veit að þær eru nauðsynlegar fyrir fugla og fiska... svo sá ég eitt stykki Krumma, tvær endur, tvær gæsir og tvær álftir sem syntu á ánni og voru greinilega hálf smeykar við mann í kríuleit...

Í vík einni við ánna var sandur og í sandinum voru spor eftir tófu eða hund... en svo... hjartað í mér barðist... voru spor eftir ísbjörn... ég hrökk við og gerði flóttaáætlun í huganum, stakk oddhvössum steini í vasann og hélt af stað í átt að bílnum... alltaf fannst mér einhver vera á eftir mér...

Ég slapp við að vera étinn en þessi óvænta uppákoma varð til þess að ég sá ekki kríu með bláan fót að þessu sinni...

Brattur, 18.4.2010 kl. 12:19

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Jú ég er á Selfossi ;) Ég ók yfir brúna um daginn sem leið lá..... sá ég þá hvar hnitaði hringi yfir ánni kría ein og svipaðist snarlega eftir fæti - en sá engan. Nema þetta hafi verið mávur?

Hrönn Sigurðardóttir, 19.4.2010 kl. 22:38

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

...já og velkominn heim!

Hrönn Sigurðardóttir, 19.4.2010 kl. 22:39

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þakka ykkur innilega kríuleitarsamstarfið Brattur og Hrönn. Það er gott að eiga góða að, þegar leita þarf einhvers, nú eða koma sér undan ösku og eimyrju eins og fyrir austan. Ég er hræddur um að krían mín hljóti þau dapurlegu örlög að annaðhvort splundrast inni í þotuhreyfli eða kafna í eldfjallaösku. Þokkalegar móttökur sem hún fær þetta grey, eftir allt erfiðið við að koma sér hingað norður eftir, en svona er þetta bara. Ég er alltaf að sjá það betur og betur að það er betra að vera maður en kría og þó hér spúi jörðin eldi og brennisteini annað veifið, er langbest að vera Íslendingur, hvað svo sem öðrum finnst nú um það.

Halldór Egill Guðnason, 20.4.2010 kl. 12:46

5 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Jú ég er sammála þér með það. En þótt það sé betra að vera maður en kría og betra að vera Íslendingur en hver annar maður þá er ég á því að krían hafi vinninginn þegar kemur að flugstíl.

Hrönn Sigurðardóttir, 20.4.2010 kl. 16:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband