Að kúka í fötu fyrir málstaðinn.

 Það verður fróðlegt að fylgjast með ferðalagi þessa barns, sem heimurinn hefur höndum tekið og umvafið fyrir umhverfisvitund sína. Hreint ótrúlega sjón og næmni þess fyrir ósýnilegum ögnum andrúmsloftsins og öllum þeim ómetanlegu skilaboðum sem það hefur látið hnjóta af vörum sínum til heimsbyggðarinnar, um væntanleg Ragnarrök.

 Mannskepnan má svo sannarlega fara að vara sig í sóðaskap sínum, svo mikið er víst og hefði mátt taka við sér mun fyrr í þeim efnum. Það ætti að vera keppikefli allra jarðarbúa að ganga vel um umhverfi sitt og sjálfa sig í leiðinni. Til að ná sátt um hvernig það sé best útfært og framkvæmt þarf vitræna umræðu, en ekki svona skrípaleik. Táknrænt á þetta sennilega að teljast, en hvar eru núna verndarar barna og mannréttindasamtök? 

 Má hvað sem er í hverju sem er í dag? Telst það eðlilegt að senda barnunga stúlkukind út á sextíu feta skútu yfir Atlantshafið, inn í haustlægðirnar og láta hana kúka í fötu alla leiðina innan um fullorðna, til þess eins að halda ræðu hinum megin hafsins? Er þetta ekki alvarlegt brot gegn ólögráða barni? Eru foreldrarnir með? Er búið að tryggja að áhöfnin sé í lagi? Eru jafnmargir karlmenn og konur um borð og svo framvegis jarí, jarí, jarí.

 Hvort svo barnið fer til baka sömu leið og það kom, verður athyglisvert að fylgjast með. Það er nefnilega ekki vænlegt til árangurs að fara bara aðra leiðina, kúkandi í fötu í nafni málstaðarins, ef flogið er hina leiðina með fullri þjónustu og vacumtoiletti. Vilji fólk láta taka sig alvarlega í baráttunni gegn mengun, er þetta sennilega aumlegasta tilraunin hingað til, til slíks. Hvort kalla beri þetta hræsni, eða hreinan fíflagang læt ég aðra um að dæma.

 Er ekki veröldin annars dásamleg?

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.


mbl.is Mun ekki láta sjóveikina á sig fá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband