Veggjöld án skipulagðrar innheimtu?

 Jón Gunnarsson er undarlegur stjórnmálamaður, ef þessi frétt er rétt, en ekki hugarburður lélegs "blaðamanns", sem því miður hvarflar allt of oft að manni þessi dægrin. Annað hvort taka "fréttamenn" illa eftir eða taka bara fréttatilkynningar og slengja þeim í loftið eins og aular í góðri innivinnu, eða bulla hreinlega hvert viðtalið eftir því sem þeir muna best og fellur að þeirra skoðunum. Bæta jafnvel við, ef svo ber undir. Fréttamennskan er, skulum við segja á mjög viðkvæmu tímabili þessi dægrin, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

 Veggjöld skulu semsagt lögð á sem fyrst, en enginn virðist hafa hugmynd um framkvæmdina. Hvernig innheimta skuli gjöldin, hvar eða hvernig. Gjöldin skulu lögð á, sama hvað tautar eða raular. Blaðamaður spyr að sjálfsögðu einskis og þar með hefur Jón Gunnarsson komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Ekki öll svo galin, en trúverðugleikann skortir og enginn spyr neins.

 Tuðarinn hefur ekkert á móti gjöldum fyrir veitta þjónustu, eftir að hún er veitt. Þegar hinsvegar hérlendir stjórnmálamenn lofa mér einhverju og krefjast fyrirframgreiðslu, setur að mér ugg. Uggur sem vissulega er réttlætanlegur, því sjaldan er ein báran stök og aldrei eins mikið og þegar hérlendir stjórnmálamenn ljúga og lofa út um eyrun á sér, með bros á vör og standa síðan ekki við nokkurn skapaðan hlut, kjörtímabil eftir kjörtímabil.

 "You pay now, we deliver later" hugnast mér ekki hætis hót, komandi úr munni atvinnupólitíkur og dreift af vafasömum fjölmiðli, þar sem pallíettur áramótadansleikjanna og þvælukennt gjálífisrugl einskisnokkurs, virðist mest lesið. Ég meina, hverjum er ekki sama um það hvort einhver hollívúd stjarnan hafi áhyggjur af appelsínuhúðinni á lærunum á sér, eða hvort rassinn á kardasían draslinu hafi stækkað eða minnkað, hún éti gras eða kjöt? Einhver? Eru virkilega allir orðnir svo steiktir af þessu brjálæði, að þeir láti skattheimtu liggja hjá garði?

 Álögur, í nafni álagna, hugnast mér ekki. Álögur fyrir veitta þjónustu, greiði ég glaður. Veggjöld án vega tek ég ekki í mál. Brosandi Jón, þoli ég hreinlega ekki og finnst trauðla róttækara íhald, en ég sjálfur. Hvurn fjandann fór flokkurinn minn eiginlega og þær hugsjónir, sem hann eitt sinn stóð fyrir?

  Góðar stundir, með kveðju að sunnan.


mbl.is Liggur fyrir að málið sé umdeilt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband