2830 metrar verda ad 4,1 kilometer.

Humm..... er verid ad taka upp einhverja nyja lengdareiningu a Mogganum? Bara spyr.Whistling
mbl.is Lengsta brú í Þýskalandi vígð í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatn.

Vatn. Eitthvað sem við teljum svo sjálfsagt að eiga nóg af. Svo sjálfsagt að fyrir hvert glas sem við drekkum af því, látum við að minnsta kosti tíu til tuttugu renna í vaskinn þangað til það er orðið nógu kalt. Drekkum síðan hálft glasið og hellum restinni. Það er jú nóg til, ekki satt? Bara skrúfa frá og..... "vola". Á ferðum mínum erlendis hefur mér lærst að vera þakklátur fyrir þennan glæra hreina vökva, sem mér áður þótti svo sjálfsagður. Ef það er eitthvað sem við á Íslandi ættum að vera stolt af, er það vatnið okkar. Þegar maður skrúfar frá í hinum ýmsustu löndum, tvist og bast um heiminn, er það hreint með ólíkindum hvað hægt er að fá margar útgáfur af vatni. Saltað, klórað, brúnt, appelsínugult,sandblandað, sjóblandað og jafnvel á of mörgum stöðum, ekkert vatn. Við ættum að umgangast vatnið okkar af meiri virðingu en við gerum. Það er ekki víst að það verði alltaf til nóg af hreinu vatni. Ekki einu sinni á okkar ástkæra Íslandi.

Refurinn sem læðist (Felumynd).

Refurinn

Í pólitík þurfa menn að vera refir. Vera allsstaðar og hvergi og eiginlega eins og refurinn sem læðist, en fáir sjá fyrr en hremmir bráðina. Það er refur á þessari mynd, en eins og góðum ref sæmir, er hann vandfundinn og í felum.

Smjúts á alla og góða helgi.


"Hælbítar" í baklandinu?

Sennilega á margt eftir að koma á daginn varðandi þessa farsakenndu atburðarás alla. Menn eiga eftir að munnhöggvast um það, hvort faðmlög og handabönd áttu sér stað og annað álíka jafn gáfulegt. Fjölmiðlar eru komnir í feitt og margt sem hverfur í skuggan af þessu næstu daga. Menn deilir á um það hver gerði hvað, sagði hvað og hverjir eru mestu skíthælarnir og svikararnir. Björns Inga saga í þessu er eins og hún er. Það er erfitt að fela framsóknarfnykinn og þegar síðan Alfreð blandast í málið verður fnykurinn nánast því óbærilegur. Það er hins vegar eitt sem stendur ekki síður upp úr í þessu öllu og það er barnalegt upphlaup ungliðanna í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, sem í hysteríu sinni hlaupa grátandi á fund formanns Sjálfstæðisflokksins til að klaga Vilhjálm. Hvernig getur þessi, til þess að gera, reynslulitli hópur, sem þó myndaði bakland Vilhjálms í borgarstjórn, ætlast til þess að svona fíflagangur auki, eða viðhaldi trausti manna gagnvart þeim, eða Vilhjálmi? Að hlaupa á fund Geirs, án Vilhjálms, eins og þau gerðu, var í raun fyrsta skóflustungan að þeirra eigin gröf í borgarstjórn og aftaka á Vilhjálmi, sem borgarstjóra. Ætli orðið "hælbítur" eigi bara ekki nokkuð vel við um hópinn og undirstrikar það  að" Maður uppsker eins og maður sáir". Mistök, aulaleg ummæli, græðgi og klúður, er það sem blasir við hinum almenna borgara.

(Verður fróðlegt að fylgjast með nýjum meirihluta og hvernig hann tæklar þetta mál allt saman. Nú er lag fyrir þau að standa við stóru orðin og uppræta spillinguna. Ekki ætla ég að óska þeim til hamingju, en bíð spenntur eftir framhaldinu. Annar eins kokkteill hefur varla sést áður í borgarstjórn og barasta ómögulegt annað, en að framundan séu farsakenndar uppákomur sem aldrei fyrr.)


mbl.is Vilhjálmur borgarstjóri og Björn Ingi féllust í faðma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slökkvið á friðarsúlunni!!

Það er spurning hvort borgaryfirvöld ættu ekki að drífa það af að slökkva á blessaðri "friðarsúlunni" úti í Viðey? Borgin hefur nánast logað í ófriði eftir að kveikt var á henni, enda súlur umdeilt fyrirbæri hin síðari ár. Þar sem hinn nýji meirhluti er orðinn staðreynd, getur það reynst stórvarasamt að hafa logandi súlu áfram. Þá er bara hætta á annari borgarstjórn eftir viku og svo koll af kolli fram til 8. desember. Þessi meirihluti er lítið betur settur en sá fyrri, hvað fjölda fulltrúa varðar, svo vandséð er hvernig þetta samstarf getur blessast. Framsóknarfnykurinn liggur nú yfir borginni og spurning hvort hann nær að kæfa friðarljósið. Kemur í ljós.  


mbl.is Samkomulag um nýjan meirihluta handsalað klukkan 14
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tuðarans - Langorðakeppni!

Jæja.:

Langorðakeppnin hefst með meðallöngu "orði". Snýst sem sagt um að.: Annað hvort lengja þetta orð,(eða benda á galla þess, eða koma með önnnur sem eru miklu lengri).:

Hafnarfjarðarómyndarhverfishneyksliseftitrmálaumræðugrundvallarumræðuvettvangurinn.

Það verður að setja bandstrik í orðið annað veifið og skipta milli lína. Annars fer orðið bara yfir tölvuna við hliðina á ykkur.

Ok elskurnar mínar, nú er bara að koma með lengsta orð sem hægt er að framkalla á ÍSLENSKU.

Njet polski, njet ruski eta njet tailendski, only Islandski.

 Whistling


"Hafnarómyndarhverfi" Hafnarfjarðar.

Nú er verið að leggja lokahönd á "gámastæður með gluggum" við Norðurbakkann í Hafnafjarðarhöfn. Búið er að girða fyrir gömlu bæjarímyndina, með gömlu húsunum og sjarmanum sem þeim fylgdi. Nú sést varla  í þessi hús, en í stað þeirra blasir nú við einhver ömurlegasti kassahaugur sem sést hefur við nokkra höfn hér á landi. Held svei mér þá að gámarnir á athafnasvæði Eimskipa í Sundahöfn hafi meiri sjarma en þessi "kubbahaugur" sem stendur þarna fram á bryggjuendann. Fyrir opnu hafi, með tilheyrandi seltu og ágangi sjávar, hlýtur að vera draumastaðsetning hverjum þeim er langar í nýja íbúð. Gluggaþvottamenn landsins sjá fram á gósentíð ef heldur sem horfir í þessu fjörubrölti byggingarverkatakanna. Meira að segja farið að fylla fram í fjörur svo troða megi fleiri kössum í flæðarmálið og byrgja þannig örugglega öllum þeim sem innar búa í bænum útsýni og sólarljós. Gáfulegur andskoti eða hitt þó heldur. Fæ seint nóg af því að tuða um þennan ósóma, en það hefur að sjálfsögðu ekkert annað upp á sig en að vera sífúll og eilíflega tuðandi. Áf ótta við of háan blóðþrýsting og hjartastopp, ætla ég því ekki að hætta mér í umræðu um turnafárið við Skúlagötuna í Reykjavík. Þann skandal gæti maður nú bara.......nei, hættur........sprengitafla........glump!Angry

"Gey" dómari.

Í tilefni þess að bikarkeppninni lauk í dag, er ekki úr vegi að skoða það hvort ekki megi lífga aðeins uppá boltann með mönnum eins og þessum dómara. Til hamingju FH með bikarinn. Það er alveg óhætt að hafa hljóðið vel hátt með þessu myndskeiði. Hér er enginn hrekkur á ferðinni. "Smjúts" á alla og megi helgin verða ykkur góð.(Getur tekið smá stund að hlaða inn myndskeiðið.)


Að mála sig á rauðu ljósi.

Fyrir framan tuðaran, á rauðu ljósi, er lítill bíll og í honum kona. Hún snýr speglinum þannig að hún sjái vel framan í sig og er að mála sig. Ljósið verður gult og tuðarinn lyftir fætinum af bremsunni og gerir sig kláran í að gera það sem ALLIR eiga að gera, þegar ljósið síðan verður grænt. Konan í litla bílnum er hins vegar ekki að fara neitt! Tuðarinn situr á sér með að flauta á hana, en gefur eitt leiftursnöggt blikk með háa geislanum. Vill ekki að hún máli út fyrir. Ekkert gerist. Litli bíllinn hreyfist ekki og konan heldur áfram að setja upp andlitið. Engu líkara en hún sé búin að færa baðherbergið niður á Kringlumýrarbraut. Tuðarinn flautar pent, einu sinni. Ekkert gerist. Tuðarinn flautar, ekki svo pent, tvisvar. Ekkert gerist. Það er flautað fyrir aftan tuðarann og þar fyrir aftan og þar fyrir aftan. Ekkert gerist. Nú er tuðarinn orðinn tæpur á því og ég leggst á flautuna og blikkar ljósum. Hún leggur frá sér snyrtidótið, tekur fótinn af bremsunni, en þá er líka komið gult ljós og síðan rautt. Hún fer ekki neitt, þessi elska. Allt á suðupunkti fyrir í röðinni, en ekkert hægt að gera í stöðunni annað en vona að blessuð konan sé kominn með andlit og taki nú af stað um leið og græna ljósið kemur næst. Konan í litla bílnum teygir sig í græjurnar á ný og stillir spegilinn að sér til áframhaldandi málningarvinnu. Tuðarinn fylgist með hinum ljósunum og veit að styttist á ný í grænt ljós hjá sér. Hann blikkar og flautar eins og óður maður um leið og ljósið verður gult. Konan í litla bílnum leggur rólega frá sér málningardótið, lyftir fæti af bremsunni og ekur löturhægt af stað. Tuðarinn er innan við eitt fet á eftir á sínum bíl og viti menn, það er löngu komið rautt aftur. Við Suðurver er tuðarinn stöðvaður af laganna vörðum og sektaður fyrir að fara yfir á rauðu ljósi, en konan á litla bílnum, með andskotans málninguna í andlitinu, heldur sína leið til vinnu, eða hvert svosem hún var að fara. Tuðarinn er því ekkert sérlega vel fyrirkallaður þennan föstudag, en biður að heilsa öllum vel máluðum konum, ef þær bara klára andlitið heima hjá sér, en ekki á rauðu ljósi. 

Dásamlegur bíltúr.

Smá rólegheit fyrir svefninn. Gott að hafa hljóðið svolítið hátt. Góðar stundir.Devil


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband