Vatnsþynnt og aukaefnalaus gagnrýni

Heldur var hún vatnsþynnt og kraftlítil gagnrýnin sem Kompás kom með í kvöld varðandi íblöndunarefni í matvælum. Staðfest að allt að 20% af verði margra vörutegunda er fyrir vatn og allt í góðum gír. Hversu margir ætli hafi til að mynda vitað að það væri sykur í úrbeinuðum kjúklingabringum? Ég bara spyr. Ekki minnst einu orði á að samhliða innsprautun á alls konar sulli í vöruna er hún einnig viktuð í umbúðunum að því loknu. Hvað ætli sé notað mikið af umbúðum alls konar utan um matvæli á Íslandi á ári? Þau eru eflaust mörg tonnin af alls kyns plasti sem sem vegna þessara aðfara er selt á allt að 2500 krónur kílóið. Sýnir enn og aftur hve auðvelt er að hafa okkur að elgerum rötum og ekki einu sinni hægt að taka hressilega á málinu af þeim sem telja sig besta í að fletta ofan af alls konar misfellum í samfélaginu. Kompás á margt gott skilið en eitthvað virtist mér nálin í honum flöktandi og illa stillt á kúrsinn í kvöld. Beið spenntur eftir þættinum þar sem þetta sull með matinn okkar hefur lengi farið fyrir brjóstið á mér. Sat eftir hundsvekktur og fannst lítið til um efnistök Kompásfólks koma. Hefði til að mynda mátt steikja einn hamborgara á "sértilboði" og fylgjast með honum engjast sundur og saman en þó aðallega saman á pönnu eða grilli þar til hann væri kominn niður í þá stærð sem ég fullyrði að er meiri en sem nemur 20% rýrnun. Vikta síðan leifarnar og reka mismuninn ofan í þá sem segja rýrnunia aðeins vera þetta svona sirka bát hérumbil umþað bil 7-10 % eða þar um bil hérumbil bla bla bla. "Þungbrýnd" (en jafnframt algerlega áhrifalaus fyrir löngu) ásjóna forustumanns Neytendasamtakanna skelfir ekki nokkra sál í þessum iðnaði frekar en hún stappi stálinu í okkur neytendabjálfana sem ekkert aðhöfumst frekar en fyrri daginn. Við neytendur erum sjálfsagt eftir sem áður mestu ratarnir að gera ekkert með þetta mál og sennilega bara gott á okkur að úðað sé í og yfir matvæli okkar allskonar virðisaukandi glundri. Þetta íblöndunarhlutfall sem prósenta er nokkuð sem við erum jú orðin vön ekki satt? Við borgum vexti í bönkum sem liggja á þessu bili þannig að það er kannski bara ágætt að hafa þetta svona áfram. Þá muna að minnsta kosti allir hvaða prósenta er í gangi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband