Uppreisn æru.

 Það er sanngjarnt að menn og konur, sem misstigið hafa sig á lífsins leið, tekið út dóma sína og horfið af braut villu sinnar, fái uppreisn æru. Það þarf þó að setja einhver mörk um þetta og skilgreina brot, eftir alvarleika þeirra. Kynferðisafbrotafólk á enga samúð eða uppreisn æru skilda. Ekki frekar en morðingjar. Á Íslandi hefur morðingja verið veitt uppreisn æru! Morðingja! Smákrimmar og fólk sem braut af sér í eitt eða tvö skipti, án þess að skaða neinn, nema þá helst sjálfan sig, eiga að geta endurvakið mannorð sitt, hagi þau sér óaðfinnanlega, að afplánun lokinni. 

 Næstkomandi mánudag verður gerður opinber listi yfir alla sem hlotið hafa uppreisn æru, heil tuttugu ár aftur í tímann! Meðmælendur þeirra einnig og umsögn þeirra. Hvurs konar andskotans nornaveiðar og mannorðsbresti er verið að boða hér? Þetta nálgast það að geta kallast fasismi andskotans, sem keyrður er áfram af ömurlegum fjölmiðlum, sem dansa eins og fávitar í takt við undirspil fávísra og oft á tíðum andþjóðfélagssinnaðra pólitískra fífla, á Alþingi. Tækifærissinna og anarkista.

 Amlóða sem eru svo gersamlega úr takt við allt annað en rassgatið á sjálfum sér, að þau telja stjórnarskrárbreytingu nauðsynlega til breyta reglum um uppreisn æru, þegar einföld lagabreyting nægir! Breyting sem þessir sömu siðferðispostular og æsingamenn og konur hafa haft yfirgengilega nægan tíma til að leggja fram, en.....ekkert. Ekki heyrst múkk frá þeim, fyrr en núna!  Eru þessir bjálfar á ólöglegum lyfjum, eða eru þetta samantekin ráð, til þess eins fallin að skapa sem mestan glundroða og óöryggi meðal borgaranna? Skipulagt og djöfullega úthugsað plott stjórnleysingja og tækifærissinna? Spyr sá sem ekki veit. 

 Hefur einhver leitt hugann að því hvað opinberun allra nafna, sem hlotið hafa uppreisn æru, undanfarin tuttugu ár, getur haft í för með sér? Ekki aðeins fyrir þá sem æruna endurheimtu, heldur einnig í þeim tilfellum þar sem fórnarlömb eiga í hlut? Höfum í huga að í mörgum tilfellum var aðeins um geranda að ræða, en ekkert fórnarlamb, annað en lagabókstafinn sjálfan!

 Múgsefjun hefur heltekið samfélagið og öll umræða ber það með sér að ill öfl og andþjóðfélagsleg, hafi yfirtekið hana. Skynsemin virðist hafa verið rekin út í hafsauga og dómstóll götunnar látinn taka við. Það eru ekki spennandi tímar framundan, eins og sumir hafa haft á orði. Það eru vandrataðir tímar framundan. Nánast einstigi. Á því einstigi má enginn misstíga sig, eða láta glepjast af afvegaleiddri umræðu og umfjöllun. Nú þurfa Íslendingar aðeins að taka sig saman í andlitinu og hugsa sjálfstætt, hver fyrir sig, án truflunar frá niðurrifsöflum og populistabjálfum. Mannorð rúmlega þrjátíu einstaklinga liggja undir, sem veð fyrir vandaðri umræðu. Það skilur upplausnar og populistaskríllinn ekki, að því er virðist. Íslendingar eiga ekki að þurfa að vera flóttamenn í eigin landi!

 Ísland er gott land, þrátt fyrir allt. Látum ekki telja okkur trú um annað. Hér má margt laga, en það má líka í Sómalíu.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

  


Bloggfærslur 16. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband